Search
Close this search box.
10 Bestu Plötur Ársins

10 Bestu Plötur Ársins

#1 Kendrick Lamar – DAMN

Hin fullkomna blanda af gömlu plötum Kendricks, Good Kid M.A.A.D City og To Pimp A Butterfly. Hvert einasta lag fullkomið, taktarnir óaðfinnanlegir og með þessari útgáfu get ég nokkurnveginn fullyrt það að Kendrick ætti ekki að vera borinn saman við samtímamenn sína, heldur þá allra bestu allra tíma.

#2 Jay-Z – 4:44

Næst besta plata ársins og sú sem kom mér mest á óvart. Einn okkar allra besti blessar alheiminn enn og aftur með meistaraverki þrátt fyrir 48 ára aldur. Platan einkennist af ómetanlegum ráðum og speki frá gáfuðu gamalmenni ásamt sérstöku innsæi inn í líf stjörnu-hjónanna. 

#3 Future – Hndrxx

Percocet-prinsinn Future Hendrix syngur eins og engill í gegnum plötuna með yndislegum melodíum, textum sem hitta mann beint í æskuna og fullkomnu productioni. Platan er mjög  “poppuð” en Future tekst að halda sínum eigin dimma stíl lifandi í bland við popp melódíur, með yndislegri útkomu.

#4 Tyler, the Creator – Flower Boy

Stórt ár að baki hjá Tyler, skódíll hjá Converse, 2 sjónvarpsþættir (mæli sérstaklega með Nuts+Bolts þáttunum) og tilnefning til Grammy-verðlauna fyrir hans fjórðu og lang bestu plötu, Flowerboy. Platan er hans persónulegasta verk hingað til þar sem Tyler fjallar um angist tilverunnar, samkynhneigð, einmanaleika og fortíðardrauga.

#5 Meek Mill – Wins And Losses

Hreinskilin plata full af tilfinningum, góðum og slæmum. Meek Mill gerir upp síðastliðin 2 ár ævi sinnar sem innihéldu bæði sigra og töp, eins og titillinn gefur til kynna.

#6 21 Savage – Issa Album

Rosalegt ár að baki hjá mínum manni. Útgáfa mixteips með Metro Boomin og Offset, kom fram á einu vinsælasta lagi ársins með Post Malone, byrjaði með Amber Rose og gaf út Issa við góðar viðtökur gagnrýnenda og aðdáenda. Á Issa sýnir 21 fram á miklar framfarir í lagsmíðum frá fyrri verkum ásamt aukinni fjölbreytni með lögum á borð við “7 Min Freestyle” og “FaceTime”.

#7 Rick Ross – Rather You Than Me

Stóri stjórinn Ricky Rozay veldur sjaldan vonbrigðum og í ár gerði hann það svo sannarlega ekki. Eftir meira en áratug í leiknum gaf hann út eitt sitt allra besta verk, Rather You Than Me. Hápunktur plötunnar er lagið “Idols Become Rivals” þar sem hann lætur Birdman heyra það vegna framkomu hans við Lil Wayne og DJ Khaled.

#8 Lil Uzi Vert – Luv Is Rage 2

Í ágúst gaf skærasta stjarna sinnar kynslóðar, Lil Uzi Vert, út sína fyrstu plötu í framhaldi af Luv Is Rage, mixteipinu sem kom honum á kortið árið 2015. Á plötunni fjallar Uzi um frægð, ástarsorg, eiturlyf, peninga og margt fleira á sinn sérstaka hátt. Augljóst er að nýja kynslóð rappsins er kominn til að vera, með Lil Uzi Vert í fararbroddi. 

#9 SZA – Ctrl

Fáránlega gott R&B frá hertogaynju TDE. Hvert lag segir sína sögu í gegnum hina einstöku rödd SZA. Lögin Love Galore og Drew Barrymore standa upp úr, en í heild sinni er platan nánast fullkomin og skylduhlustun fyrir alla R&B unnendur nútímans.

#10 Migos – Culture

Frá útgáfu Culture í janúar hafa Migos orðið A-lista Hollywood stjörnur, unnið með stærstu tónlistarmönnum heims, gefið út gríðarlegt magn af tónlist og allir þróað sína eigin solo ferla út frá hljómsveitinni. Plötunni mætti lýsa sem nokkurskonar fögnuði þess að frændurnir Quavo, Offset og Takeoff fengu loksins viðurkenningu sem þeir eiga skilið eftir áralangt hark.

Heiðursverðlaun:

Yung Lean – Stranger

Lana Del Rey – Lust For Life

Young Thug – Beautiful Thugger Girls

Drain Gang – D&G

Future – FUTURE

Playboi Carti – Playboi Carti

GoldLink – At What Cost

Tee Grizzley – My Moment

Drake – More Life

2 Chainz – Pretty Girls Like Trap Music. 

Bergþór Másson

 

NÝLEGT