Search
Close this search box.
10 góðar ástæður fyrir því að borða avókadó daglega

10 góðar ástæður fyrir því að borða avókadó daglega

Avókadó er hreint út sagt magnaður ávöxtur og nokkurskonar „ofurfæða“ ef svo má að orði komast. Í einu avókadó má finna fjöldan allan af næringarefnum sem hjálpa líkamanum að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi en auk þess er avókadó tilvalið í allskyns matargerð, s.s. í salöt, vefjur, í kjúklingarétti, á samlokur o.fl. Þá kjósa margir að borða avókadó eintómt en mjúk áferð þess og framandi bragð gerir ávöxtinn að eftirsóttum kosti fyrir til dæmis morgunverðinn eða sem millimál.

Í rauninni ættu allir að bæta avókadó við sitt vikulega matarplan og jafnvel reyna að borða eitt avókadó á dag, 4-5 daga vikunnar. Ástæðan er sú, eins og áður segir, að ávöxtur þessi er ríkur af eiginleikum sem hjálpa okkur að bæta heilsuna og berjast við hina ýmsu heilsufarslegu kvilla og/eða sjúkdóma.

Renndu yfir listann hér að neðan og sjáðu alla kosti þess að borða avókadó reglulega.

1.      Avókadó getur hjálpað í baráttunni við aukakílóin

Ekki nóg með það að avókadó gefi þér extra gott bragð og áferð þegar kemur að hádegisverðinum, heldur getur það einnig hjálpað þér að viðhalda góðri kjörþyngd og losna við aukakílóin. Nýleg rannsókn gaf til kynna að það að borða hálft avókadó á dag eykur seddu tilfinningu og gefur aukna fyllingu í magann, sem kemur þannig í veg fyrir að við upplifum hungurtilfinngu fljótlega eftir máltíðina. Þannig getur avókadó neysla dregið úr löngun í snakk og aðra óþarfa óhollustu.

2.      Avókadó hjálpar þér að koma reglu á blóðþrýstingin

Í avókadó er að finna mikið magn kalíum sem gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að viðhalda heilbrigðum blóðþrýsting. Kalíum hjálpar líkamanum að skola út umframmagni af natríum sem og losar um spennu í blóðrásinni..

3.      Avókadó ver augun gegn ýmiskonar augn-sjúkdómum

Í avókadó er einnig að finna tvö mjög mikilvæg náttúruleg efni, „luten“ og „zeaxanthin“, sem flokkast sem svokölluð karótenóíð, og eru nauðsynleg líkamanum þegar kemur að augunum okkar og sjóninni. Avókadó er einstakt hvað þessi tvö efni varðar þar sem engin önnur fæðutegund býr yfir þessum tveimur efnum í svo miklu magni. Þar með getur neysla á avókadó nýst vel þegar kemur að baráttunni gegn hinum ýmsu augn-sjúkdómum

4.      Avókadó getur hjálpað að viðhalda eðlilegu magni kólesteróls í blóðinu

Avókadó sker sig algjörlega frá öðrum ávöxtum þegar kemur að fitumagni en avókadó er ríkt af lífsnauðsynlegri og hollri fitu. Fyrir vikið gagnast avókadó vel þegar kemur að því að viðhalda góðu kólesteróli í líkamanum og rannsóknir hafa ennfremur sýnt fram á getu avókadó til þess að draga úr slæmu kólesteróli í blóðinu, svokölluðu „LDL“.

5.      Avókadó getur hjálpað í baráttuni við sykursýki

Rannsóknir hafa gefið til kynna að neysla á avókadó getur komið sér vel fyrir einstaklinga sem þjást af sykursýki. Þannig gáfu niðurstöður einnar tilteknar rannsóknar til kynna að þegar einstaklingur með sykursýki borðaði avókadó daglega jafnaðist insúlín og glúkósa stigið í blóðinu mun betur út en hjá þeim einstaklingum með sykursýki sem ekki borðuðu avókadó.

6.      Avókadó gagnast óléttum konum

Avókadó er frábær viðbót við matarræði kvenna sem bera barn undir belti, einfaldlega þar sem þessi einstaki ávöxtur er sneisafullur af allskyns vítamínum, hollri fitu og steinefnum. Má þar einna helst nefna B6 vítamín, fólat, C-vítamín, K-vítamín og kalíum, sem gagnast bæði móður og sömuleiðis barninu sjálfu. Þar að auki getur avókadó dregið úr morgunógleði.

7.      Avókadó eru góð fyrir beinin

Eins og áður segir er að finna mikið magn af K-vítamíni í avókadó en það spilar lykilhlutverk, ásamt D-vítamíni, þegar kemur að því að vinna kalkið úr fæðunni.

8.      Hollar fitur

Þó svo að fita hljómi e.t.v. ekkert sérlega heilsusamleg þá eru hollar fitur lífsnauðsynlegar líkamanum og spila algjörlegt lykilhlutverk fyrir heilsu okkar. Í avókadó er einmitt að finna mikið magn af hollri fitu sem hjálpar hjarta- og æðakerfinu að starfa eðlilega og getur dregið úr líkum á hjartaslagi, kransæðastíflu og öðrum óæskilegum líkamlegum áföllum og sjúkdómum.

9.      Avókadó hjálpar líkamanum að vinna næringarefnin úr fæðunni

Eins og það er mikilvægt að borða holla fæðu er það ólíka mikilvægt að geta unnið næringarefnin úr fæðunni með skilvirkum hætti. Ef líkaminn er ekki vel í stakk búinn til þess að nýta sér næringarefnin er hættan sú að þau einfaldlega skolist burt úr meltingarfærunum og við verðum af þeim. Það að borða avókadó daglega, til dæmis með salatinu, hjálpar líkamanum að vinna næringarefnin úr fæðunni, þá sér í lagi nauðsynleg karótenóíð, svo sem „alpha-carotene“, „beta-carotene“, lutein og lycopene.

10.   Avókadó er heilt yfir ríkt af ótal næringarefnum

Það getur oft reynst erfitt að fá öll þau vítamín og steinefni úr fæðunni sem líkaminn þarfnast, jafnvel þó svo að við séum að borða nokkuð holla og fjölbreytta fæðu. Fæðutegundir eins og avókadó geta hins vegar hjálpað okkur að leysa úr þesskonar vandamálum en í einu avókadó má finna yfir 20 vítamín og steinefni. Það margborgar sig því að bæta avókadó við matarræðið og tryggja þannig upptöku allra þessara næringarefna.

NÝLEGT