Search
Close this search box.
10 leiðir að öðruvísi páskum

10 leiðir að öðruvísi páskum

Höfundur: Kolbrún Pálína Helgadóttir

Við erum að upplifa sérstaka tíma, tíma sem við áttum síður von á að endurtaka þessa páskana frá þeim síðustu þegar þjóðin þurfti að tileinka sér nýja ferða hætti og læra að ferðaðist innanhús. En hér erum við enn á ný, á sama tíma að ári með hertar samkomutakmarkanir og páskaplön flestra fokin fyrir bí. Hvað ætlum við að gera í því?

Nú reynir bæði á þrautseigju og þolinmæði okkar allra og síðast en ekki síst hugmyndaflug. Haldiði sannkallaðan heilabrots fund með fjölskyldunni í upphafi frísins þar sem allir fá að leggja til eitthvað skemmtilegt í púkk sem þeim langar að gera þessa páskahelgina. Við vitum það öll að ef viljinn er fyrir hendi geta svona tímar jafnvel orðið mjög eftirminnilegir ef allir vanda sig. Hér má líta á nokkrar sniðugar hugmyndir að samverustundum fjölskyldunnar;

Fjölskyldujóga

Það þurfa allir á því að halda að kjarna sig verandi mikið heima við þessa páskana. Takið örlitla stund saman á dag, ungir sem aldnir, liðugur sem stirðir. Hvort sem þið takið létta hugleiðslu, öndunaræfingu eða jóga þá er samverustundin falleg og leggur línurnar að góðum degi.

Hægt er að finna einfaldar æfingar af þessum toga á netinu fyrir þá sem eru byrjendur, saman ber á youtube.

Hlutverkaskipti

Það er venjan að fullorðna fólkið beri að mestu ábyrgð á eldamennskunni og því sem fram fer í eldhúsinu þó vissulega sé þar allur gangur á.

Leyfið börnunum, ef þau hafa náð aldri til, að taka yfir eldhúsið eitt kvöld frá a-ö, velja í matinn, elda og bera á borð. Það getur reynst krefjandi fyrir suma að sleppa takinu en börnin okkar elska að fá smá ábyrgð og kunna yfirleitt meira en við höldum. Njótið þess bara að láta dekra við ykkur! Og þegar ég segi taka yfir eldhúsið, þá meina ég líka að ganga frá eftir matinn.

Heimilismótið í spilamennsku

Allir heimilismeðlimir velja uppáhalds spilið sitt sem allir þurfa að spila saman á einhverjum tímapunkti páskafrísins. Safnið saman stigunum og haldið svo skemmtilega verðlaunaafhendingu þar sem sigurvegarinn fær eitthvað sniðugt, jafnvel nýtt spil í safnið sem fjölskyldan öll getur notið góðs af.

TikTok dans

Það getur verið skemmtileg áskorun að læra eins og einn TikTok dans með yngri kynslóðinni á heimilinu, sleppa af sér takinu og dilla mjöðmunum.

Smá dans við góða tónlist kallar fram einlæga gleði og bætir geðið.

Kannski þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni enda finnst henni fátt jafn fyndið en að sjá foreldra sína reyna eitthvað svona lagað.

Ljótu köku keppni

Það er svona í flestum tilfellum metnaður fólks að baka fallegar kökur.

Til þess að hafa extra gaman gæti verið ný áskorun að baka já…ljóta köku. Það er bara töluverð áskorun en gæti verið mjög skemmtilegt. Eins og fyrr segir þá reynir á hugmyndaflugið hér og fyrst og fremst er mikilvægt að hafa gaman. Hægt væri að skipta fjölskyldumeðlimum í tvö eða fleiri lið og sá vinnur sem bakar ljótari kökuna. Séu úrslitin vafamál má alltaf nota mátt internetsins og skella í opinbera kosningu.

Spa dagur

Tjaldið öllu til, skellið tásum í bala, pússið og nuddið, skrúbbið andlit og nærið það með andlitsmaska, gúrkur á augun og eina í munn.

Lakkið fingur og tær, lesið blöð á meðan lakkið þornið, drekkið vatn úr fallegu glasi og hlustið á heilandi tóna. Bjóðið öllum heimilismeðlimum að njóta með.

Föndur

Að föndra er dásamleg afþreying sem færir ró yfir og í aðdraganda páskanna er auðvitað frábær hugmynd að mála á egg og skreyta svo fallegar páskagreinar með þeim. Það er sömuleiðis mjög skemmtileg hefð að safna eggjum fjölskyldunnar og bæta aðeins í ár hvert. Að öðru þá er alltaf notalegt að setjast niður með gömlu góðu litabókina bæði fyrir stóra og smáa, taka upp pensla eða perlur.

Ferðist innanhús

Fyrir þá metnaðarfyllstu þá gæti þetta verið eitt stórskemmtilegt verkefni. Breytið herbergjum í staði á Íslandi eða lönd sem þið hafið farið til nú eða langar til. Finnið til örlítin fróðleik um hvern stað, jafnvel nokkrar myndir sem þið getið sýnt í tölvunni og bjóðið fjölskyldunni í ferðalag.

Páskaratleikur

Sökum ástandsins gæti verið einstaklega tilvalið að leggja mikinn metnað í páskaeggjaleitina þetta árið. S í skemmtilegan ratleik, láta hann rata út, á staði sem þið eigið sögu á og svo jafnvel bara heim aftur. Það hafa allir gott af því að brjóta heilann yfir sniðugum vísbendingar hafa örlítið fyrir súkkulaði veislunni sem bíður þeirra.

Útivera

Hér verða ekki sagðar neinar nýjar fréttir, náttúran okkar er auðvitað bara stórfengleg og við sem búum á höfuðborgarsvæðinu höfum veisluhlaðborð af fallegum gönguleiðum vötnum og öðru fyrir framan okkur. Á svona tímum er þó gaman að breyta til. Setjið ykkur markmið að ganga nýja gönguleið daglega, eða hringinn í kringum fallegu vatn samanber Vífilsstaðavatn, Hvaleyravatn eða Rauðavatn. Farið í fjöruferð eða skógarferð. Takið með ykkur skemmtilegt og hollt nesti og njótið þess að safna öðruvísi minningum með fólkinu ykkar þessa páskana.

Páska og kærleikskveðja

Kolbrún Pálína

Um höfund:

Kolbrún hefur starfað við heilsu, lífsstíl og blaðamennsku, ritstjórn og sjónvapþáttagerð og látið til sín taka í hinum ýmsu verkefnum. Hún útskrifaðist jafnramt nýlega sem markþjálfi frá Evolvia. Kolbrún leggur mikið upp úr almennu heilbrigði, andlegu sem og líkamlegu, hún elskar sömuleiðis að hafa fallegt í kringum sig og njóta litlu hlutanna í lífinu.

NÝLEGT