Kryddaðu hversdagsleikann

Kryddaðu hversdagsleikann

Höfundur; Kolbrún Pálína Helgadóttir, markþjálfi.

Við deilum því öll að hafa upplifað lífið undanfarið mjög ólíkt því sem við höfum vanist. Lífið hefur mest megnis farið fram innan veggja heimilisins og það hefur því óneitanlega reynt á ýmsar hliðar. Þegar lífið þrengist með þessum hætti og venjur okkar gjörbreytast og fjölbreyttum athöfnum okkar fækkar er hreinlega mjög auðvelt að tapa gleðinni og sköpunarkraftinum. En þó svo að rútínan góða þjóni mikilvægu hlutverki í lífi okkar er fjölbreytni að sama skapi afar mikilvæg til þess að vaxa, gleðjast og forðast kulnun. 

Meðfylgjandi eru 9 ráð til þess að krydda tilveruna og auka fjölbreytileikann í daglega lífinu. 

1. Leiktu þér

Gerðu eitthvað þér til skemmtunnar og sköpunar þegar þér leiðist sem snýr ekki að skjánotkun. Til dæmis að lita, mála, prjóna, sauma, púsla, föndra, dansa, syngja semja brandara, skemmtisögur eða hvað sem þér dettur í hug. Já fullorðnir mega nefnilega líka leika sér. 

2.  Hlustaðu, horfðu og lestu nýtt efni

Ef þú hefur tilhneigingu til þess að halda þig við sömu tegundir fjölmiðla, podcasta, bóka og þátta skaltu skora á sjálfan þig að stækka heiminn þinn og prófa að hlusta og horfa á nýja hluti. Lestu bækur sem þú myndir venjulega ekki lesa, hlustaðu á mismunandi tegundir tónlistar og horfðu á þætti sem fjalla um framandi og fræðandi efni.

3. Prófaðu nýjar uppskriftir 

Matur og matargerð tekur gríðarlegan tíma af lífi okkar og því nauðsynlegt að njóta hans. Búðu til og eldaðu eitthvað sem þig hlakka til að borða og bjóða upp á. Finndu nýjar uppskriftir sem þú hefur ekki prófað áður. Þú gætir líka tileinkað þér nýjar matarvenjur ef það er eitthvað sem þig hefur langað að skoða saman ber vegan, ketó eða annað.

4. Hristu upp í venjunum 

Ef morgunrútínan þín er sú sama alla daga skaltu prófa að breyta henni annan hvern dag og/eða snúa henni við. Ef þú byrjar alla daga á vinnu og endar þá á hreyfingu gæti verið skemmtileg áskorun að hefja þá á hreyfingu. Það líka um að gera að nýta fallegu sumarbirtuna til þess að gera eitthvað uppbyggilegt og gott fyrir sjálfan sig í byrjun dags, eins og að ganga með gott podcast í eyrunum eða skella sér í morgunsund. 

5. Endurraðaðu hlutum heimilisins 

Ef heimilið þitt hefur ekki hvetjandi áhrif á þig eða ýtir undir sköpunarkraftinn skaltu bæta við nýjum upplifunum eins og kertum, reykelsum, ljósum, blómum eða plöntum. Haltu hlutunum ferskum og hristu upp í orkunni með því að hreyfa húsgögnin þín reglulega, endur raða í hillur og bæta inn nýjum litum sem örva þig og hvetja.

6. Lærðu eitthvað nýtt

Það má alltaf á sig blómum bæta. Finndu eitthvað sem vekur áhuga þinn og lærðu meira um það. Prófaðu að læra nýtt tungumál, hvernig á að taka góðar myndir, hvernig á að sjá um plöntur, dansa salsa, prjóna, elda indverskan mat eða annað. Ef fjárhagurinn er þröngur má finna ókeypis úrræði til að læra allt milli himins og jarðar á netinu (YouTube, Skillshare, blogg osfrv.).

7. Skoraðu á sjálfan þig

Til þess að vaxa og læra á sjálfan sig er gríðarlega mikilvægt að skora reglulega á sig. Með því kemur ýmislegt í ljós, hvað hentar þér og hvað ekki, hvar þig vantar þolinmæði og þrautseigju og hvað þér þykir skemmtilegt svo fátt eitt sé nefnt. Skrifaðu áskorunina niður eða dragðu vin eða fjölskyldumeðlim með þér í hana og deilið árangrinum ykkar á milli.

Hér eru nokkrar hugmyndir:

30 daga þakklætis dagbók

Símalausir sunnudagar

Fasta til hádegis

Göngutúr sama hvernig viðrar í 30 daga

Öndunaræfingar alla morgna í mánuð

Elda heima 6 daga vikunnar

Lesa eina bók á mánuði. 

8. Virkjaðu tengsl þín við aðra

Tengsl við samfélagið, vini og vandamenn eru mikilvæg fyrir vellíðan þína. Það er svo margt sem hægt er að læra af öðru fólki auk þess að tengjast öðru fólki (jafnvel á netinu) getur gert líf okkar áhugaverðara. Leggðu það í vana þinn að tala reglulega við vandað fólk sem hefur göfgangi áhrif á líf þitt. 

9. Settu orku í draumana þína

Allir eiga sér einhverja útgáfur af draumum. Hvort sem um er að ræða litla viðskiptahugmynd, að eignast gæludýr, ferðast til ákveðinna lands, eignast sumarbúsatað, skrifa bók eða annað. Settu smá tíma vikulega í að vökva draumana þína. Skrifaðu þá skýrar niður, þróaðu þá, gerðu plan að því að láta þá rætast og hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Umfram allt er hollt og gott að láta sig dreyma og mikilvægt að trúa á draumana sína. 

Aðra pistla eftir Kolbrúnu Pálínu má finna hér.

NÝLEGT