15 mínútna styrkjandi kviðæfing í stofunni heima

15 mínútna styrkjandi kviðæfing í stofunni heima

Það getur verið þrautinni þyngri að koma sér af stað í ræktina aftur eftir hlé. Hvað þá þegar hléið hefur varað í nokkra mánuði eða jafnvel ár og hreyfingarhegðunin þar af leiðandi algjörlega dottin úr takti og rútínu.

Ein leiðin til þess að byggja aftur upp áhuga og löngun til hreyfingar og/eða æfinga er að byrja rólega heima fyrir eða utandyra og framkvæma eingöngu stuttar æfingar sem eru á bilinu 15-30 mínútur og gera það 3-4 sinnum í viku.

En hvernig byrjum við?

Þegar byggja skal upp áhuga og æfingalöngun er afar mikilvægt að allar æfingarnar sem við framkvæmum séu skemmtilegar og því skaltu eingöngu velja æfingar sem þér finnst skemmtilegt að gera fyrstu vikurnar, sama þótt það verði til þess að þú vinnir meiri með ákveðna vöðvahópa umfram aðra. Aðalatriðið er að upplifa gleði og löngun til að halda áfram.

Það eru fjölmargar leiðir til þess að útbúa stuttar en árangursríkar æfingar en það mikilvægasta er að við hlustum á eigin líkama og vinnum okkur í gegnum æfinguna á tempói sem hentar okkur en fær hjartað til að slá hraðar og öndunina til þess að aukast.  Fyrir marga er mikilvægt að hafa góða tónlist í gangi meðan æft er og því um að gera að skella í sérsniðin æfinga play-lista sem inniheldur eingöngu lög sem koma þér í gott skap og fylla á orkubirgðirnar.

Stutt en góð kviðæfing

Kviðæfing dagsins er mjög gott dæmi um æfingu sem hentar vel að gera þegar fyrstu skrefin eru tekin í átt að reglubundinni hreyfingu. Hún tekur einungis 15 mínútur og hægt að gera hana hvar og hvenær sem er.

Hún inniheldur fimm ólíkar kviðæfingar sem þú ýmist framkvæmir í 30, 40 eða 50 sekúndur í einu, allt eftir því hversu krefjandi þú vilt að hún sé. Ef þú velur að gera hverja æfingu í 30 sekúndur, hvílir þú líka í 30 sek. áður en þú byrjar á næstu æfingu í settinu. Ef þú ákveður að vinna í 40 sek. þá hvílir þú í 20 sek. eftir hverja æfingu og ef þú velur að vinna í 50 sek. verður hvíldin 10 sekúndur.

Hvert sett tekur því 5 mínútur og ætlum við að klára 3 umferðir.

Æfingarnar sem um ræðir eru:

Hálfar V-Ups

Krabbakviðkreppur

Tylla tám í gólf

Öfugar kviðkreppur

Rúðuþurrkur með beygðar fætur

Það góða við æfingu eins og þessa er að það er mjög auðvelt að nota hana aftur og aftur en skipta út æfingum eftir því sem okkur langar og kjósum í hvert sinn. Hægt er að velja aðrar kviðæfingar, æfingar fyrir neðri búk, efri búk eða útbúa góða blöndu af æfingum fyrir allan líkamann. Möguleikarnir eru hreinlega endalausir!

Við óskum ykkur góðs gengis með æfinguna og vonum innilega að þið gefið ykkur 15 mínútur til þess að prófa og njóta!

Í góðri heilsu og hreysti!

Linda og Biggi

Hér má finna fleiri fróðlega pistla eftir Bigga og Lindu

Allan fatnað fyrir æfinguna hvort sem hún er heima, úti eða í líkamsræktarstöð, má finna á glænýrri vefverslun H Verslunar.

NÝLEGT