Það að gera hlaup að fastri rútínu í okkar lífi getur haft fjölmargar jákvæðar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér. Flest erum við meðvituð um kosti þess að hlaupa en sem dæmi eflum við og styrkjum bein og vöðva með hlaupum, bætum hjarta- og æðakerfi, losum okkur við aukakílóin og bætum andlega líðan okkar. Þá er auðvelt að byrja hlaupa-rútínu, það eina sem þarf í raun eru hlaupaskór og vilji.
Þegar við erum komin af stað og finnum hversu gott það er að hlaupa, til dæmis úti við og jafnvel í góðra vina hópi, er ágætt að huga að hlaupatækninni sjálfri en með því að bæta hana, getum við bætt okkur töluvert sem hlauparar og séð skjótari og betri árangur, sem aftur virkar sem hvatning til frekari dáða.
Í myndbandinu hér að neðan fer Nike þjálfarinn Blue Benadum yfir þrjá lykilþætti þegar kemur að hlaupatækni. Fyrsti þátturinn snýr að því hvernig hlauparar eiga að lenda með fótinn á jörðinni, annar þátturinn snýr að mjaðmahreyfingum og kjarnavöðvum líkamans og sá þriðji fjallar um handahreyfingar meðan á hlaupunum stendur.
Lending á fæti
Þegar við lendum þurfum við að huga að því hvar fóturinn lendir á jörðinni með tilliti til líkamsstöðunnar. Samkvæmt honum viljum við ekki að fóturinn lendi of framarlega heldur viljum við draga hann til okkar þannig að þegar fóturinn lendir sé hann þannig séð að lenda í nokkuð beinni línu við líkamann, ekki fyrir framan hann. Í myndbandinu sýnir hann hvernig við getum æft þessa tækni, einfaldlega með því að hlaupa á staðnum.
Mjaðmahreyfingar og kjarnavöðvar
Það besta við hlaup, að mati Blue, er tilfinningin að við séum að svífa. Þeim mun lengur sem við erum „svífandi“, þeim mun hraðar munum við hlaupa og með skilvirkari hætti. Þessi tækni byrjar í mjöðmunum og kjarnavöðvum líkamans. Til þess að framkvæma bestu sveifluna á fótleggjunum er gott að reyna að sparka hælnum upp og aftur í átt að rassinum, meðan á hlaupunum stendur. Eftir því sem þessi sveifla verður betri þeim mun meiri árangri náum við og þeim mun léttari verður hver hreyfing.
Handahreyfingar
Handahreyfingar eru mismunandi milli hlaupara. Blue mælir með að við aukum hreyfinguna í axlarliðunum og minnkum hreyfinguna á efri búknum, þ.e. þegar hlaupurum hættir til að sveifla búknum í stað þess að sveifla höndunum. Besta leiðin til þess að huga að þessu er að keyra olnbogana aftur og strjúka með fingrunum yfir mjaðmirnar þegar við hreyfum handleggina fram og tilbaka.
Vantar þig hlaupaskó?
Skoðaðu úrvalið af hlaupaskóm frá Nike inn á vefverslun H Verslunar: