#3030heilsa – heilsuáskorun Sigrúnar Fjeldsted

#3030heilsa – heilsuáskorun Sigrúnar Fjeldsted

#3030 heilsa er heldur betur skemmtileg áskorun sem fór af stað þann 10.september síðastliðinn.  Það er hún Sigrún Fjeldsted, fyrrverandi afrekskona í frjálsum íþróttum, sem stendur á bakvið áskorunina #3030heilsa. Ég fékk hana í viðtal til mín til þess að fá betri innsýn í þessa frábæru áskorun. Ég hvet ykkur því að lesa viðtalið til enda í þeirri von að það kveiki í ykkur eldmóð og hvetji ykkur enn frekar til að taka þátt í áskoruninni.

Hver er Sigrún?

Ég er fyrrverandi afrekskona í frjálsum íþróttum sem hef mikinn áhuga á öllu sem við kemur heilsu og heilbrigðum lífsstíl. Mér finnst gaman að sanka að mér þekkingu og á því langan námsferil að baki. Ég er með BS í sálfræði og MA í náms- og starfsráðgjöf. Auk þess er ég með kennsluréttindi, lærði heilsunudd og er núna í námi í næringarþjálfun.

Í dag starfa ég sem náms- og starfsráðgjafi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla ásamt því að vera að búa til spennandi efni sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu.

Af hverju 30 mínútur á dag í 30 daga?

Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þetta er skuldbinding sem ætti að vera á allra færi, ef viljinn er fyrir hendi! Rannsóknir sýna að ein af ástæðum/afsökunum sem fullorðnir nota til þess að skýra hreyfingarleysi er tímaskortur. Því legg ég áherslu á að hreyfingin þarf ekki að taka meira en 30 mínútur. Því þessar 30 mínútur hafa jákvæð áhrif á heilsu fólks og stuðla um leið að vellíðan. Það sama á við 30 daga, það er raunhæf áskorun og hjálpar okkur að búa til vana. Að setja hreyfingu í forgang í 30 daga í röð verður til þess að einstaklingar halda áfram að hreyfa sig og tengja andlega og líkamlega vellíðan við hreyfinguna.

Af hverju er #3030heilsa þér mikilvægt?

Það er í eðli mínu að vilja hjálpa öðrum, þess vegna setti ég af stað #3030heilsa. Það gagnast mér, þér og samfélaginu öllu! Heilsan, andleg og líkamleg, er að mínu mati eitt það mikilvægasta sem við eigum og ég er nokkuð viss um að þar séu flestallir sammála mér. Þrátt fyrir það eru margir sem hlúa ekki eins vel að henni og þeir gætu. Við berum nefnilega mikla ábyrgð á eigin heilsu. Með því að fá fólk til þess að hreyfa sig reglulega er það að styrkja bæði andlega og líkamlega heilsu. Mig langar til þess að fólk upplifi það á eigin skinni og veiti þessu samspili athygli.

Hvað viltu segja við okkur hin?

Öll hreyfing er af hinu góða og það er mikilvægt að finna hreyfingu sem okkur finnst skemmtileg. Öll vorum við einhvern tímann byrjendur, en þeir sem hreyfa sig reglulega gera það m.a. vegna þess að þeir tengja hreyfingu við vellíðan og vana.

Með því að hreyfa okkur reglulega erum við að bæta andlega og líkamlega heilsu og fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma og kvilla. Hreyfing getur dregið úr streitu og vanlíðan og gefið fólki oft styrk til þess að takast á við daglegt amstur.

Mig langar líka að minna á mikilvægi hugarfars okkar, en allt sem við gerum eða gerum ekki byggir á hugarfari okkar. Þannig sjáum við meðvitað eða ómeðvitað tækifæri til þess að sinna heilsunni, eða við sjáum afsakanir fyrir að gera það ekki. Ég skora á ykkur að skoða hvers konar hugarfar er ríkjandi hjá ykkur þegar þið hugsið um andlega og líkamlega heilsu.

Hvar getum við fylgst með #3030heilsa áskoruninni?

Ég hvet alla til þess að fylgjast ekki bara með heldur taka þátt! Það er ekki of seint að byrja þó að ég hafi byrjað með #3030heilsa 10.september. Allar upplýsingar eru að finna á Instagram síðunni minni andlegoglikamlegheilsa og með því að nota#3030heilsa


Ég þakka Sigrúnu kærlega fyrir að vera frábær fyrirmynd, fyrir að veita okkur innblástur og fyrir að greina frá því hví þetta er henni mikilvægt. Ég hvet ykkur öll að taka þátt í áskoruninni og haldið áfram þið sem eru nú þegar byrjuð. Ég hlakka til að fylgjast með ykkur með #3030heilsa

XO

Höfundur: Berta Þórhalladóttir

Þið getið fylgst með mér á:

Facebook og Instagram

NÝLEGT