Search
Close this search box.
5 atriði sem við ættum að hætta strax – góð markmið fyrir árið 2020

5 atriði sem við ættum að hætta strax – góð markmið fyrir árið 2020

Lilja Björk fer hérna yfir nokkur huglæg atriði sem hún hvetur lesendur okkar til að kveðja nú í byrjun nýs árs.

Að þóknast öðrum

Það að þóknast öðrum þýðir að við setjum þarfir okkar til hliðar til að sinna þörfum annarra. Þetta gerum við til að geðjast öðrum en getur á sama tíma valdið okkur sjálfum vanlíðan. Þess háttar hegðun er ekki að gera neinum neitt gott. En höfum í huga að það að vera kærleiksríkur og hjálpsamur er ekki það sama og að þóknast öðrum, pössum okkur að skilgreina vel muninn þarna á milli.

Að óttast breytingar

Breytingar eru eitthvað sem við eigum það til að óttast en breytingar geta verið af hinu góða. Breytingar eru algjörlega óhjákvæmilegar því allt í heiminum er breytingum háð. Breytingar sem við ákveðum sjálf eru bestu breytingarnar að sjálfsögðu þótt að þær breytingar geti vissulega valdið óvissu og/eða kvíða. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við mörg hver óttumst allar breytingar. Við erum vanaföst og finnum ákveðið öryggi í því að hafa hlutina í föstum skorðum. Við förum í gegnum marga hluti í lífinu á hálfgerðri sjálfsstýringu. Við þurfum að horfa á breytingar af hinu góða, breytingar geta verið tækifæri fyrir okkur. Horfum jákvætt á hlutina og þá verða breytingarnar auðveldari. Breytingar geta verið þroskandi og þær geta veitt okkur ný tækifæri.

Að lifa í fortíðinni

Tileinkum okkur að lifa í nútíðinni, það sem er liðið er liðið. Nýtum það sem við höfum upplifað og farið í gegnum í lífinu sem lærdóm en dveljum ekki við það, höldum áfram. Við fáum ekki hlutum breytt sem nú þegar hafa gerst. Það sem við erum að upplifa núna munum við ekki upplifa aftur og því eigum við að gera það besta úr hverri stund. Lifa í núinu og njóta líðandi stundar.

“The secret of health for both mind and body is not to mourn for the past, not to worry about the future, or not to anticipate troubles, but to live in the present moment wisely and earnestly.” Buddha

Að draga okkur sjálf niður

Það er því miður staðreynd að við erum oft okkar versti óvinur. Við erum ofsalega sjálfgagnrýnin, enginn dæmir okkur eins hart og við sjálf. Við erum frábær eins og við erum og þurfum að tileinka okkur að sjá það, klappa okkur sjálfum á öxlina þegar við stöndum okkur vel og vera duglegri við að hrósa okkur sjálfum. Það gera allir mistök einhvern tímann, drögum lærdóm af þeirri reynslu sem við förum í gegnum og ef við gerum mistök eigum við að nýta það sem reynslu og halda áfram án þess að dvelja of lengi við þau. Höfum í huga að við myndum aldrei dæma aðra eins og við dæmum okkur sjálf og þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða. Við erum mun öflugri en við gerum okkur grein fyrir og möguleikar okkar eru takmarkaðir af aðeins einum þætti, okkur sjálfum. Höfum trú á okkur sjálfum, sýnum okkur sjálfum þá virðingu sem við eigum skilið og einblínum á jákvæðar og góðar hugsanir.

Að ofhugsa hlutina

Það að ofhugsa hlutina getur verið stór hindrun í lífinu. Við missum af tækifærum, komumst ekki áfram og völdum okkur sjálfum vanlíðan og töpum orku með því að dvelja of lengi við hlutina. Þegar við ofhugsum hlutina verður dómgreind okkar óskýr og stressið eykst, við dveljum of lengi við neikvæðar hugsanir og það getur orðið erfitt að bregðast við. Skoðum alla möguleika vel án þess að ofhugsa þá og dettum ekki um of í smáatriði. Það sem við nærum vex og þess vegna eigum við að reyna að stjórna huganum okkar í átt að því sem við viljum að vaxi. Sjórnaðu huga þínum annars mun hann stjórna þér. Þegar við ofhugsum hlutina eyðum við alltof miklum tíma í atriði sem í stóru myndinni skipta jafnvel litlu eða engu máli. Hættum að flækja hlutina og okkur mun líða betur.

Höfundur: Lilja Björk Ketilsdóttir

NÝLEGT