Í byrjun árs vill hver einasti gúrú og áhrifavaldur gera lífið flóknara með að dúndra yfir mannskapinn stjarneðlisfræðilegu snæðingaplani, magískum matvælum, epískri kombinasjón af vítamínum eða stórkostlegri aðferð við járnrífingar.
Það eina sem þetta upplýsingaflæði gerir er að flækja lífið enn frekar.
1) Svefninn
Lagaðu svefninn. Rannsóknir sýna að þegar við erum vansvefta borðum við 300-500 hitaeiningum meira á dag en þeir sem sofa 7-9 tíma. Og þessar hitaeiningar koma úr einföldum kolvetnum, sykri og fitu. Að missa svefn hefur áhrif á svengdar og seddu hormónin leptín og ghrelin, við erum svöng allan daginn en alveg sama hvað við borðum mikið þá verðum við aldrei södd.


2) Matarræðið
Miðaðu við 3-4 máltíðir á dag. Langlíf mýta sem þarf að deyja er að þú þurfir að borða sex sinnum á dag. Rannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á að það hækki grunnbrennsluhraðann að skvetta í grímuna agnarsmáum máltíðum á 2ja tíma fresti. Þær hafa heldur ekki sýnt að grunnbrennslan fari í tojlettið. þó það líði 3-6 tímar á milli máltíða. Þegar við erum sífellt nartandi í horaða snæðinga þá verðum við aldrei almennilega södd og sátt. Maginn þarf máltíðir sem eru a.m.k 400 hitaeiningar til að senda leptín á staðinn.
3) Veldu fjölbreytileika
Þekkirðu skorthugsunina sem lætur á sér kræla þegar þú ert í aðhaldi? Því við erum með sjö ríkismatvæli sem róterast aftur og aftur og aftur. Þegar mataræðið er jafn einhæft og eldhúsdagsumræður um aukningu þorskkvóta áttu meira bágt en Ólíver Tvist í mölétnum skólabúningi með gat á skósólanum.
Þegar við hlökkum jafn mikið til að borða eins og að horfa á málningu þorna þá mætir þessi gaur á svæðið.
Losaðu þig við Óliver Tvist og tileinkaðu þér allsnægtarhugsun með að bæta við flóruna í mataræðinu í staðinn fyrir að draga alltaf frá og forðast mat.
Vertu Dóra landkönnuður um gangana í Nettó.
Hvað er hollt og mér finnst gott á bragðið.
Hvað fer vel í líkamann og bragðlaukarnir mínir vilja.
Bragð, krydd, kombinasjónir, sósur, meðlæti.
Og hleypa síðan sköpunargáfunni á skeið og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn
Að geta, vilja, mega borða, er miklu sterkari orðræða en að „geta ekki“ og „mega ekki“ og „ætti ekki“ að borða.


4) Núvitund
Hægðu á þér þegar þú borðar og æfðu þig að nærast í meiri núvitund. Rannsóknir sýna að þeir sem borða matinn sinn á 20 mínútum borða 80 hitaeiningum minna en þeir sem borða á 9 mínútum. Leggðu frá þér hnífapörin á meðan þú tyggur. Taktu sopa af vatni. Taktu upp hnífapörin þegar munnurinn er tómur. Miðaðu við 15-20 mínútur
5) Uppruni fæðunnar
Minnkaðu unna fæðu í mataræðinu. Borðaðu meira af heilli fæðu sem næst sínu upprunalegu ástandi. Fæðu sem er ekki með innihaldslýsingu á umbúðunum. Eitthvað sem kom beint af tré, uppúr mold, af dauðri skepnu eða af akri.
Þeir sem fá frjálsan aðgang að unninni fæðu á hlaðborði borða 500 hitaeiningum meira til samanburðar við þá sem fá heila fæðu.
Heilu rannsóknarstofurnar skoða sérstaklega hvernig megi pimpa innihaldið þannig að það taki bragðlaukana í gíslingu og höndin færist frá poka að munni á hraða örbylgjunnar… í bókstaflegri merkingu.
6) Haltu áfram að njóta
Tileinkaðu þér gæðastund með uppáhalds sælgætinu eða góðgætinu á hverjum degi og sestu niður og njóttu í núvitund.
Eigðu rómantísk móment með molanum.
Í ró og næði með slökkt á öllu áreiti.
Með öllum skynfærum. Hlusta á sellófanið rifna utan af súkkulaðið. Horfa á það. Þefa af því. Láta bráðna á tungunni og leika um tennurnar.
Þú þarft ekki að slafra í þig öllu í dag.
Þegar súkkulaði er ekki á bannlista finnurðu ekki þessa þörf að slafra öllu í þig í dag því þú átt móment á morgun og hinn og hinn.
Það er lífsstíll.
Vonandi eru þessi óhefðbundnu ráð einhverjum til gagns að feta sig áfram á heilsubrautinni eftir áramótin.
_____________________________________________________
Fyrir heilbrigt samband við mat árið 2020 hafðu samband ragganagli79@gmail.com
Höfundur: Ragga Nagli