Search
Close this search box.
800 fastan – nýjasta æðið

800 fastan – nýjasta æðið

Þeir sem eru með puttan á púlsinum þegar kemur að mataræði og föstum hafa flestir heyrt um 5:2 föstuna þar sem fólk er hvatt til þess að borða eðlilega fimm daga vikunnar en fasta hina tvo dagana, sem felur í sér að borða einungis 500 kaloríur (konur) og 600 kaloríur (karlar) per dag.

Nú hefur hins vegar ný fasta rutt sér til rúms en það er hin svokallaða 800 fasta. Hún er byggð á nýjustu vísindarannsóknum um þyngdartap og lotubundnar föstur, blóðsykur og meltingu, sem sýna að gott er að setja markið við 800 hitaeiningar á dag – nógu lítið til að efnaskipti líkamans örvist og maður léttist hratt.

Höfundur bókarinnar 800 fastan – hvernig á að léttast hratt og bæta heilsuna varanlega, er læknirinn Michael Mosley en hann hratt af stað heilsubyltingu þegar hann gaf út bókina 5:2-mataræðið og kynnti þar lotubundnar föstur fyrir almenningi. Sú bók seldist í massavís um heim allan og var þýdd yfir á 40 tungumál.

800 fastan – helstu áherslur

Í nýju bókinni um 800 föstuna fer Michael í gegnum fjöldan allan af rannsóknum og fróðleik um hvers vegna við ættum að temja okkur lotubundnar föstur og hvers vegna hans nýja viðmið er nú 800 kaloríur í stað 500 og 600. Hann rekur eigin sögu sem og sögur af fólki sem hefur tileinkað sér slíkt mataræði og hvaða áhrif það hafði á heilsufar viðkomandi. Í bókinni hvetur hann fólk til þess að fasta frá tveimur vikum upp í allt að tólf vikur samfleytt þar sem það borðar 800 kaloríur á dag. Þegar því stigi er lokið hefst stig tvö þar sem fólk fer á 5:2 kerfið og neytir þannig 800 kaloría á dag, tvo daga vikunnar. Þriðja stigið felur svo í sér að fasta einn dag á viku.

Michael fjallar einnig um hvað það er nákvæmlega sem við eigum að borða, bæði þá daga sem við erum að fasta sem og aðra daga vikunnar. Hann aðhyllist miðjarðarhafs mataræði og hvetur fólk til þess að borða mat sem er ríkur af hollri fitu, próteini og trefjum en þess í stað sleppa matvælum sem innihalda mikið af unnum kolvetnum, viðbættum sykri og óhollri fitu. Í bókinni deilir hann fjölda girnilegra uppskrifta með lesendum sínum, sem henta fyrir 800-föstuna. Sömuleiðis fylgja leiðbeiningar um hvernig má laga þær að eigin smekk og markmiðum, auk matseðla sem auðvelda fólki að skipuleggja mataræðið betur.

Ef þú vilt fræðast nánar um 800 föstuna mælum við með bókinni sem má nálgast í verslunum Hagkaupa sem og almennum bókabúðum, eða hér á vefsíðu Forlagsins.

NÝLEGT