Í kynningarblogginu mínu kom ég aðeins inná að ég væri í flugnámi en eftir að ég útskrifaðist úr Versló vorið 2015 byrjaði ég að læra flug um sumarið og kláraði einkaflugmannsprófið í febrúar 2016. Fyrir þá sem ekki vita þá skiptist flugnám í 2 hluta, þ.e. einka- og atvinnuflugmannsnám. Bæði námin skiptast svo í bóklega og verklega hluta. Þessa dagana er ég að undirbúa mig fyrir flutninga til Svíþjóðar en ég kem til með að flytja til bæjarins Kalmar í Svíþjóð um miðjan ágúst til að klára verklega og jafnframt síðasta hlutann í mínu atvinnuflugmannsnámi. Mjög spennandi tímar framundan og hlakka ég til að leyfa ykkur að fylgjast með tímanum mínum og eftir atvikum gangi mála þar.
Fyrsti áfangastaður var Sauðárkrókur en þaðan lá leiðin á Akureyri sem tók á móti okkur með 17 gráðum og blankalogni. Fallegur Eyjafjörðurinn þann daginn.
Eftir að hafa teygt úr okkur á Akureyri lá leiðin út Eyjafjörðinn og stefnan sett á Siglufjörð. Það var sérstaklega ljúf tilfinning að skoða Siglufjörð úr lofti þar sem ég á góðar minningar frá fótboltamótunum frá því að ég var lítil hnáta að spila fyrir KR í gamla daga.
Frá Siglufirði flugum við í vesturátt að Gjögri en mig hafði lengi langað að heimsækja staðinn og ég var heldur betur ekki svikin, þvílík paradís og þvílík fegurð.
Það er ekki oft sem að veðrið á landinu öllu er eins gott og það var þennan daginn og við vorum því sammála um að þetta flug var eitt það skemmtilegasta og fallegasta sem við höfum farið í. Við vorum svo lent í Reykjavík á slaginu 12 og því kominn tími á hádegisverð. Ég plataði mömmu með mér niður í bæ þar sem við nutum þess að rölta um í góða veðrinu, kíktum í nokkrar búðir og settumst svo niður á Gló á Laugarvegi.
Um kvöldið útbjó ég grænmetisborgara ofaná sólkjarna rúgbrauði með sriracha majónesi, krydduðum sætkartöflufrönskum og guacamole, algjört lostæti!
Frábær dagur í alla staði!
Fyrir áhugasama er ég dugleg að setja inn einfaldar uppskriftir og sýna frá því sem ég er að bralla inná instagram story en þið finnið mig þar undir nafninu @sigrunbirta.