Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir tók þátt í Jökulsárhlaupinu með stuttum fyrirvara og eftir það varð ekki aftur snúið. Hún stundar hlaup fimm sinnum í viku og segir forréttindi að geta hreyft sig og notið náttúrunnar á sama tíma. Kærastinn hennar, Teitur Þorkelsson leiðsögumaður, er duglegur að draga hana út í göngutúra og segir Guðrún Ýr að hann hafi kennt henni að hægja aðeins á og taka betur eftir umhverfinu. Frá áramótum hefur hún æft með Náttúruhlaupum og stefnir á að taka þátt í Hengilshlaupinu í sumar, sem er 53 km langt.
Guðrún Ýr var flugfreyja hjá Icelandair í tuttugu ár en missti vinnuna eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni. Hún hefur ekki setið auðum höndum í vetur heldur nýtt tímann til að taka nokkur fög í menntun framhaldsskólakennara. Hún hefur haft ágætistíma til að velta fyrir sér hvaða styrkleikum hún búi yfir og hvar áhuginn liggi og segist klárlega vilja vinna með fólki og helst við eitthvað sem tengist hreyfingu og útivist.


Hvenær fórstu að stunda hlaup?
Ég byrjaði að hlaupa sumarið 2015. Það tók Helgu vinkonu mína um 30 sekúndur að sannfæra mig um að taka þátt í voða skemmtilegu hlaupi sem heitir Jökulsárhlaup. Þá er hlaupið í Jökulsárgljúfri frá Dettifossi að Ásbyrgi. Hægt er að velja um mismunandi vegalengdir, um 33 km, 21 km og 13 km. Ég skráði mig til leiks í 21 km hlaupinu, fann eitthvert hlaupaplan á netinu og byrjaði að hlaupa. Jökulsárhlaupið gekk mjög vel og það var ekki aftur snúið.
Hvað finnst þér skemmtilegt við hlaupin?
Guð, það er svo margt! Helsti kosturinn við hlaupin er hversu einfalt er að stunda þau og hversu lítils útbúnaðar þau krefjast. Það nægir að eiga góða hlaupaskó og þægileg föt. Í rauninni þarf ekkert meira. Einnig er hægt að hlaupa nánast hvar og hvenær sem er. Það getur verið mikill tímasparnaður fólginn í því að þurfa ekki að keyra í og úr ákveðinni líkamsræktarstöð. Svo er þægilegt að geta valið sinn eigin æfingartíma. Ég hleyp nánast einungis úti í náttúrunni í dag. Náttúran gefur mér styrk og veitir vellíðan. Það að geta sameinað hreyfingu og notið náttúrunnar á sama tíma eru forréttindi.
Settur þú þér markmið varðandi hlaupin?
Já, ég hef sett mér markmið alveg frá upphafi og oftast miðast markmiðin við að klára hlaupin á ákveðnum tíma sem ég reikna með að sé raunhæfur fyrir mig. Ég held að það sé nauðsynlegt að setja sér markmið, undirbúningurinn verður markvissari og síðan er líka svo gaman að ná settum markmiðum. Það gefur manni mikið.


Hvernig undirbýrðu þig fyrir hlaup dagsins og hvað ferðu oft í viku út að hlaupa?
Það er mjög mismunandi hvernig ég undirbý mig fyrir hlaup dagsins. Það fer alveg eftir því hvernig hlaup er á dagskrá og hvenær dagsins þau eru. Ef ég fer á sprettæfingu reyni að ég að borða í síðasta lagi 2 tímum fyrir æfingu. Ef um er að ræða löng hlaup snemma morguns finnst mér gott að fá mér ristað brauð, djús og kaffi. Ef hlaupin eru í rólegri kantinum og í styttra lagi þarf ég engan sérstakan undirbúning. Ég byrjaði að æfa með ultrahópi Náttúruhlaupa í byrjun árs og tek venjulega fimm hlaup í viku þessa dagana. Hlaupin eru mishröð og mislöng með blöndu af styrktaræfingum.
En fyrir keppnishlaup eða maraþon?
Undirbúningurinn er langur, oft margir mánuðir, sérstaklega fyrir löngu hlaupin. Ég set mér markmið, fylgi mínu æfingarplani og passa mig að njóta vegferðarinnar. Ég minnka æfingarnar síðustu vikuna fyrir keppnishlaupið og passa að hvílast, sofa vel, neyta fjölbreyttar fæðu en hafa aðaluppistöðuna kolvetni, ekki prufa einhverja nýja hluti, og muna að passa vökvabúskapinn vel með vatnsdrykkju.
Áttu hlaupafélaga?
Ég hleyp mest ein, það hentar mér vel þar sem ég hef aga til að fara sjálf út og taka þær æfingar sem eru á hlaupaplaninu hverju sinni. Best finnst mér að hlusta á podcast í leiðinni. En það er líka nauðsynlegt að eiga hlaupafélaga, sérstaklega á löngu hlaupunum. Ég á þrjár frábærar hlaupavinkonur og er það ómetanlegt. Löngu hlaupin verða miklu skemmtilegri og við leysum hin ýmsu heimsmál í leiðinni. Í gegnum Náttúruhlaupahópinn hef ég kynnst fleirum með þetta sama áhugamál. Það eru sameiginlegar hlaupaæfingar tvisvar sinnum í viku og ég finn að ég legg yfirleitt meira á mig á þessum æfingum en þegar ég æfi ein. Félagsskapurinn er líka frábær.


Áttu góð ráð fyrir fólk sem er að byrja að hlaupa?
Það fer alveg eftir því í hvaða formi fólk er en það er gott fyrir alla að byrja ekki með neinu offorsi. Flestir góðir hlutir gerast hægt. Það getur verið góð byrjun fyrir marga að fara út að ganga en bæta svo við einni og einni mínútu í hægu hlaupi. Svo má byggja rólega ofan á. Ég held að það sé viturlegt að ná sér í hlaupaapp eða fá æfingaráætlun hjá hlaupaþjálfurum og fylgja þeim. En númer eitt, tvö og þrjú er að byrja ekki of ákaft. Ef fólk fer of geyst í byrjun gefst það frekar upp og lendir jafnvel í meiðslum.
Og kannski líka fyrir lengra komna? Hvað geta þeir gert til að bæta sig?
Haha, þessi spurning er góð. Ég er nú frekar hógvær hvað hlaupin varðar og tel mig ekki vera neinn sérfræðing. En ef ég hugsa þetta út frá mér, finnst mér mikilvægt að stunda fjölbreytta og alhliða hreyfingu og útivist. Mikilvægt er að gera styrktaræfingar reglulega, teygja vel og mér finnst mjög gott að fara í heita jógatíma reglulega. Eins er gott að hafa hlaupaæfingarnar fjölbreyttar og undirlagið mismunandi. Ég tel að það sé gott fara alla að huga að andlegu hliðinni líka og mæli ég með að hlauparar prufi jóga og hugleiðslu og passi að hvíla sig vel milli átaka.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup?
Þar sem ég er núna að æfa mig fyrir 53 km Hengilshlaup sem verður í byrjun júní og tek því 5 mismunandi hlaupaæfingar í viku kem ég ekki annarri líkamsrækt fyrir í augnablikinu. Ég fer þó í heita jógatíma reglulega og bregð mér á skíði og gönguskíði við og við. Svo er kærastinn minn, Teitur Þorkelsson leiðsögumaður, duglegur að draga mig í göngutúra og sýna mér ótrúlega fallega staði á landinu okkar. Hann hefur kennt mér að hægja aðeins á, taka betur eftir umhverfinu og gefa mér tíma til að upplifa og njóta náttúrunnar enn betur.


Er eitthvað sem þarf að passa sérstaklega upp á varðandi hlaup?
Já, hvíldin er mikilvæg. Of mikil álag getur valdið meiðslum og streitu og það er nokkuð sem enginn vill lenda í. Gott er að eiga nokkur pör af hlaupaskóm sem skipt er um reglulega. Svo verður maður að æfa sig í því að kunna að hlaupa hægt. Það hefur reynst mér svolítið erfitt en ég er að læra og æfa mig í því. Teygjur eru nauðsynlegar, góður svefn og vatnsdrykkja. Mér finnst gott að hafa elektrólýta í vatninu til að koma í veg fyrir vökvatap. Annars er ég engin öfgamanneskja, hinn gullni meðalvegur er alltaf bestur þegar kemur að æfingarálagi og mataræði.
Er einhver útbúnaður sem er nauðsynlegur?
Eina sem hlaupari þarf að eiga eru góðir hlaupaskór og þægileg föt. Yfir veturinn þarf að klæða sig vel og passa að vera í ull innst og með húfu og vettlinga. Annars er enginn útbúnaður sérstaklega nauðsynlegur, a.m.k. ekki fyrir þá sem eru að íhuga það að byrja. Það þarf t.d. ekkert að eiga 100 þúsund króna hlaupaúr til að komast út að hlaupa. Stundum finnst mér íþróttir snúast meira um útbúnað en íþróttina sjálfa en vissulega er gaman að koma sér upp góðu safni af hlaupadóti en það má gerast hægt og rólega.