Á hvaða aldri erum við hæfust til þess að toppa í getu, bæði andlega og líkamlega?

Á hvaða aldri erum við hæfust til þess að toppa í getu, bæði andlega og líkamlega?

Höfundur: Coach Birgir

Ég rakst á afar skemmtilega og áhugaverða grein nýlega sem mig langar að rýna aðeins í og deila með ykkur. Í þessari grein var nefnilega farið yfir hvenær á lífsleiðinni við erum hæfust til þess að innleiða, takast á við og framkvæma hina ýmsu hluti er snúa að okkur sem manneskjum bæði andlega og líkamlega.

Það sem kom mér skemmtilega á óvart við lesturinn var hversu fær við erum til þess að eflast og bæta okkur á hinum ýmsu sviðum lífið á enda og hreinlega allt þar til við kveðjum fyrir fullt og allt. Þá kemur skýrt í ljós að á efri árum náum við betri sátt við okkur sjálf og verðum ánægðari með bæði lífið og okkur sjálf eins og við erum í stað þess að einblína stöðugt á það sem bestur má fara og okkur finnst ekki nógu gott.

En hér að neðan má finna það sem mér fannst áhugaverðast í greininni varðandi hæfni og getu okkar mannfólksins til þess að skara fram úr og ná besta mögulega árangrinum á hinum ýmsu aldursskeiðum:

  • Á aldrinum 7-8 ára erum við hæfust til þess að læra nýtt tungumál. Það eru vissulega til rannsóknir sem sýna fram á að þessi hæfni sé jafnvel til staðar talsvert fyrr og margir sem segja að því fyrr sem við lærum ólík tungumál því betra. En í kringum 7-8 ára aldurinn virðist þessi hæfni toppa en fer svo hægt niður á við eftir 8 ára aldurinn.
  • Skv. rannsókn sem gerð var árið 2016 á heilastarfsemi okkar kom í ljós að heilastarfsemin virðist ná hátindi í kringum 18 ára aldurinn og reynist okkur auðveldast að læra nýja hluti og leysa heilaþrautir á þeim aldri.
  • 23 ára virðumst við vera ánægðust með líf okkar heildrænt og njótum okkar hvað mest á allan máta.
  • Vöðvastyrkur okkar er sagður toppa í kringum 25 ára aldurinn jafnvel þótt við getum svo viðhaldið þessum hámarksstyrk í 10-15 ár með reglubundinni þjálfun. Eftir það þurfum við að hafa meira fyrir því að viðhalda og byggja upp vöðvastyrk og ef við sinnum ekki vöðvunum með reglubundnum æfingum eftir fertugs aldurinn munum við fljótt upplifa hægfara vöðvarýrnum og minni líkamlegan styrk.
  • Ef þú stefnir á árangur í maraþonhlaupum þá segja sérfræðingarnir að besti aldurinn til þess að toppa sem maraþonhlaupari sé 28 ára.
  • Bein okkar eru sterkust í kringum 30 ára aldurinn þar sem líkami okkar er fær um að byggja upp bæði beinvefi og beinmassa þar til við verðum þrítug. Eftir það getum við viðhaldið heilbrigði beinanna í ákveðin tíma með  nægri inntöku á kalki og D-vítamíni en á einhverjum tímapunkti munu bein okkar veikjast og verða viðkvæmari.
  • Ef þér finnst skemmtilegt að spila skák þá er það vísindalega sannað að við erum hæfust til þess að ná árangri í skák þegar við erum 31 árs eða þar um bil. Þá erum við líka best í að muna og þekkja andlit þegar við nálgumst 32 ára aldurinn.
  • Í kringum fertugs aldurinn förum við vissulega að upplifa ákveðna hnignun í líkamlegum burðum en andleg heilsa og hæfni eykst hins vegar talsvert.
  • Skilningur okkar á tilfinningum annarra nær hámarki á fertugs og fimmtugsaldrinum auk þess sem við erum hvað færust í reiknifærni og því að leysa stærðfræðiþrautir í kringum fimmtugt.
  • Þegar við nálgumst sjötugsaldurinn náum við þeim skemmtilega áfanga í annað sinn að verða aftur hvað ánægðust með líf okkar, líkt og við upplifðum líka í kringum 23 ára aldurinn. Margar rannsóknir hafa sýnt að fólk er umtalsvert ánægðara með lífið á aldrinum 65-69 ára en það var á aldrinum 55-59 ára.
  • Orðaforði okkar toppar sig líka á efri árunum en á sextugs og sjötugsaldri erum við færust í því að vinna barnabörnin í Scrabble.
  • Færnin í því að sættast við og elska sjálfan sig óhindrað og að fullu virðist líka koma með aldrinum en eftir 65 ára eru hlutfallslega flestir mest ánægðir með sjálfan sig og útlit sitt.
  • Síðast og alls ekki síst er gaman að segja frá því á hvaða aldri við mannfólkið erum vitrust og viskan mest. Í rannsókn þar sem fólk á öllum aldri var beðið um að leysa úr fyrirfram ákveðnum ágreiningi með það að leiðarljósi að taka tillit til sjónarmiða margra, gera ráð fyrir breytingum, íhuga margar mögulegar niðurstöður, gera ráð fyrir áhættu og óáreiðanleika auk þess að leita sátta og málamiðlana kom í ljós að elstu aldurshóparnir eða fólk á aldrinum 60-90 ára var færast til slíks á alla mögulega vegu.

Við sem yngri erum og eigum eftir að lifa okkar efri ár höfum greinilega til mikils að hlakka og þá sérstaklega ef við hugum vel á líkamanum með reglubundnum æfingum og hreyfingu. Því úr þessum staðreyndum má vissulega lesa að ef við leggjum áherslu á að viðhalda íkamlegum burðum og hæfni á okkar efri árum, er okkur sannarlega allir vegir færir með aukinni visku, sjálfskærleika og andlegum þroska sem samkvæmt þessu eykst og dafnar á meðan við lifum.

Þessi pistill er byggður á eftirfarandi grein: https://www.insider.com/peak-ages-activities2018-4#when-you-have-the-greatest-wisdom-10

Með góðri kveðjur frá Köben

Biggi og Linda

NÝLEGT