Search
Close this search box.
Að æfa heima

Að æfa heima

Hér að neðan er listi yfir þau tæki og tól sem ég kýs að eiga heima. Allt eru þetta æfingatól sem taka ekki mikið pláss og ættu því að komast fyrir á öllum heimilum.

Æfingabolti

Boltann er hægt að nota á mjög marga vegu bæði í æfingar og í daglegu lífi. Ég er til dæmis alltaf með bolta við skrifborðið mitt og sit oft á honum þegar ég læri eða er að vinna í tölvunni. Með þeim hætti er auðveldara að sitja í uppréttri stöðu og því minni líkur á vöðvabólgu. Hvað varðar æfingar þá nota ég boltann líklega mest af þeim æfingatólum sem ég á. Ég geri mikið af kvið- og bakæfingum á honum ásamt því að gera ýmis konar jafnvægisæfingar.

Handlóð

Handlóðin má nota á marga vegu en ég mæli með að eiga handlóð í þeirri þyngd sem þú notast mest við. Hægt er að nota lóðin í hefðbundnar lyftingar fyrir efri hluta, kviðæfingar ásamt því að nota þau með smá twisti í fjölmörgum æfingum.

Nuddrúlla (foamrúlla)

Nuddrúllur eru helst notaðar til að minnka harðsperrur og auka liðleika. Það að notast við nuddrúllu strax á eftir æfingu eykur blóðflæði til vöðvanna og getur þannig minnkað, eða jafnvel komið í veg fyrir slæmar harðsperrur og verki. Harðari eða þéttari nuddrúllur þrýsta betur á vöðvana og sýna því meiri virkni en til eru fjölmargar gerðir og stærðir af rúllunum.

Nuddbolti

Hægt er að nota bolta í staðin fyrir nuddrúllu eða samhliða henni. Boltinn nær á þá staði sem erfiðara er að ná með nuddrúllunni, svo sem á milli herðablaðanna. Boltarnir eru mjög ódýrir og fer lítið fyrir þeim og því einnig hægt að taka bolta með sér ef farið er í ræktina.

Ég myndi segja að dýnan sé með mikilvægari æfingabúnaði sem ég nefni hér. Hana er hægt að nota í flest öllum æfingum ásamt því að auðvelt er að rúlla henni upp og geyma inn í skáp. Ég nota dýnuna til að mynda oft undir æfingaboltann svo hann sé stöðugri, ásamt því að gera yogaæfingar, teygjur og „full body“ æfingar á henni.

Sippuband

Að sippa er frábær brennsluæfing. Þar að auki er það mikil skemmtun og brýtur upp á hefðbundna æfingu. Að sippa hentar öllum aldurshópum og er það tilvalin leið til þess að fá börnin til að hreyfa sig með. Gæði sippubandanna skiptir miklu máli en það er mjög persónubundið hvað hentar hverjum og einum. Sjálf kýs ég að nota sippuband með vírbandi en þannig næ ég að sippa á meiri hraða en ella.

Æfingateygjur (mini resistance bands)

Teygjurnar eru yfirleitt notaðar við hliðarskref, rassæfingar og aðrar æfingar sem reyna á neðri hluta líkamans en þær teygjast utan um læri eða ökkla. Þær koma yfirleitt fjórar til sex saman í pakka með mismunandi styrkleikum. Það fer mjög lítið fyrir þeim svo þær eru einnig tilvaldar í ræktartöskuna.

Snapchat:

RVKFIT

Instagram:

ingibjorgthelma

Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit)

NÝLEGT