Að halda langtíma árangri í hreyfingu og hollu mataræði

Að halda langtíma árangri í hreyfingu og hollu mataræði

Fyrsta og án efa mikilvægasta skrefið í því að halda langtíma árangri í hreyfingu og hollu mataræði er að vinna forvinnuna með hugsanir okkar. Það er ekki langt síðan ég sjálf var á þeim stað andlega að vilja hreyfa mig eingöngu í þeim tilgangi að ,,verða mjó”. Sá hugsunarháttur að æfa til þess að líta vel út er ekki beinlínis hvetjandi og áhuga-vekjandi. Reynsla undirritaðrar er sú að það þarf algjöra umbreytingu á hugarfari til þess að komast á þann stað að ná að halda takti og dampi í hreyfingu og hollu mataræði. Svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að vera meðvitaður um þetta hárfína samspil. En hvaða skref þurfum við þá að taka til þess að þetta verði að varanlegri lífsstílsbreytingu?

Gildin okkar

Persónulega varð algjör vitunarvakning við þá uppgötvun að heilbrigði væri eitt af mínum fimm helstu gildum í lífinu. En hvað merkir orðið gildi?

Orðið vísar til þess hvernig einstaklingar við viljum vera. Orð sem lýsa þeim persónulegu eiginleikum sem skiptir okkur mestu máli í lífinu. Að hafa góð gildi að leiðarljósi hjálpar okkur að verða besta útgáfan af okkur sjálfum. Mín fimm helstu gildi í lífinu eru traust, heilbrigði, hjálpsemi, þrautseigja og jákvæðni. Með þessi gildi að leiðarljósi tel ég allar mínar leiðir færar.

Þá er ekki úr vegi að þú lesandi góður spyrjir þig hver þín fimm mikilvægustu gildi í lífinu eru?

Nú höfum við eflaust mismunandi skoðanir á því hvað heilbrigði er en getum þó sammælst um að vilja hugsa vel um okkur andlega og líkamlega.  Að þessu sögðu skulum við setja það ofarlega á forganglistann að sinna andlegu og líkamlegu hliðinni því þannig höldumst við í góðu jafnvægi og upplifum meiri vellíðan.

Af hverju er mikilvægt að vera heilbrigður einstaklingur?

Við viljum öll lifa í sátt og njóta lífsins sem lengst við getum og forðast að fá lífsstílssjúkdóma svo ekki sé talað um mikilvægi þess að hafa orku í hversdeginum til að sinna hinum ólíku verkefnum lífsins. Einnig viljum við vera hraust og sterk til að takast á við þær áskoranir sem lífið leggur okkur í skaut.

Reynslan hefur kennt mér að jákvæðar staðhæfingar eða ,,pepporð” eins og ég vísa til í daglegu tali hafa reynst mér ótrúlega vel. Auk þessa gagnast að vera meðvituð um forsendurnar fyrir vinnunni og setja þær ofarlega í hugann. Þá getur maður spurt sig hvað fæst út úr aukinni hreyfingu og svörin eru æði misjöfn eftir hverjum og einum. Sumir tala um aukna orku, meiri gleði, andlega vellíðan, aukið stolt og aðrir um meira sjálfstraust, góða útrás og almennt betra jafnvægi í dagsins önn. Ef við skyldum detta út úr ,,pepp-gírnum” grípum þá í fyrrnefndu forsendurnar sem hreyfing og hollt mataræði gefur okkur. Rífum okkur svo upp, klæðum okkur í ræktarfötin og komum okkur út! Gefum huganum ekkert pláss fyrir afsakanir!

Tökum frá tíma fyrir hreyfingu

Það sem hjálpar mér einnig að halda dampi er að skipuleggja æfingar fyrir vikuna. Þá skrái ég mig til dæmis í hóptíma, í minni ræktarstöð, út heila viku í senn. Með þessu móti hef ég tekið frá tíma fyrir hreyfingu þrisvar til fjórum sinnum í viku og skrái það svo einnig hjá mèr í elsku dagbókina mína góðu. Besta tilfinning í heimi, að mínu mati, er síðan að líta yfir vikuna og sjá ,,tékkin” við allar æfingarnar. Þetta virkar sem innri hvatning og veitir mér ómælda gleði.

Ef þú lesandi góður stefnir að því að byrja huga vel að mataræðinu og hreyfingunni þá er fyrsta skrefið að spyrja þig þessara spurninga:

  • Af hverju er mikilvægt fyrir mig að hreyfa mig og að borða heilsusamlegt fæði?
  • Hvað gefur hreyfing mèr?
  • Hvaða næring er góð fyrir mig og gefur vellíðan og góða orku.
  • Hvað þarf ég að gera til þess að halda góðu mataræði fyrir mig?

Að lokum langar mig að hvetja þig með eftirfarandi orðum.

Finndu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Það er mikilvægt að hafa gaman að þessu, veldu hreyfingu sem gefur þér gleði og vellíðan í senn. Því næst er að taka frá tíma fyrir hreyfinguna, fyrir alla vikuna, og èg mæli með að skrifa virknina niður. Mín reynsla er að það virkar ótrúlega vel að skrifa niður plön vikunnar í andlegri næringu, hreyfingu og mataræði. Með skrifunum ertu að senda út í alheiminn það sem þú vilt sjá hjá þér ávaxta sig í betri heilsu. Gangi þér sem allra best!

Höfundur: Halldóra H. Halldórsdóttir

Markþjálfi í ACC vottunarferli og hjúkrunarfræðingur

NÝLEGT