Að hlaupa í núvitund

Að hlaupa í núvitund

Vinsældir núvitundar (e. mindfulness) hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Í þeim hraða sem við lifum við í dag, með öllu því áreiti sem hinu daglega lífi fylgir, hefur þörf okkar fyrir núvitund mögulega aldrei verið meiri. Það að stunda núvitund felur í sér, í stuttu máli, að beina athygli okkar að því sem við erum að gera þá og þá stundina. Sem dæmi, þegar við erum að borða eigum við að beina athyglinni að matnum sjálfum, bragðinu, upplifun okkar af honum o.s.fr., í stað þess að horfa á sjónvarpið, lesa blaðið eða skoða símann á meðan við borðum. Það sama gildir um allt annað sem við erum að gera og þar með talið þegar við hreyfum okkur, til dæmis þegar við hlaupum.

Nike þjálfarinn Rebeka Stowe tók á dögunum saman stutta áminningu um mikilvægi þess að hlaupa í núvitund, eða það sem hún kallar „Attentional Focus and mindfulness in Running“. Þar kemur hún inn á mikilvægi þess að beina huganum og athyglinni að okkur sjálfum á meðan hlaupunum stendur. Þannig tekst okkur, að hennar mati, að auka árangur okkar til lengri tíma litið. Í stað þess að hugsa til dæmis um hvað við ætlum að hafa í matinn eða hvað við þurfum að klára fyrir vinnuna, meðan á hlaupunum stendur, ættum við þess í stað að beina athyglinni aftur að því sem við erum að gera, þ.e. hlaupinu sjálfu. Það getur verið að huga að hlaupatækninni og því sem við erum að reyna að áorka með hlaupunum eða einfaldlega að finna lyktina af gróðrinum í kring (external) eða tilfinningunni í líkamanum á meðan við hlaupum (internal).

Hægt er að sjá innslagið frá henni hér að neðan. Góðir punktar sem allir hlauparar ættu að reyna að tileinka sér til þess að ná auknum árangri, bæði líkamlega og andlega.

NÝLEGT