Höfundur: Íris Huld
Er ekki kominn tími til að reima á sig skóna og leggja af stað í spennandi ferðalag?
Eitt af þvi sem hefur gefið mér aukinn kraft síðastliðnar vikur og mánuði er útivist og þá helst fjallgöngur. Útiveran, hreyfingin og sú ólýsanlega gleði og hugarró sem henni fylgir er engri lík.
Fjallgöngum er hægt að líkja við öll önnur markmið sem þú tekur þér fyrir hendur.
Þú velur þér áfangastað, þú veist hvert þú stefnir og hvert loka takmarkmið er.
Þú sérð fyrir þér tindinn, þig á toppnum með bros sem nær allan hringinn.
Áfangastaðurinn ræðst af núverandi stöðu þinni og áhuga hverju sinni. Þegar þú ert að stíga þín fyrstu skref í útivist er ólíklegt að þú bókir þér ferð til Nepal í þeim tilgangi að sigra Everest.
Þú byrjar á fjalli við hæfi.
Þú leggur drög að ferðaáætlun sem felur í sér ákveðinn tímaramma, reiknar gróflega út upphaf og enda ferðarinnar, því gott skipulag er lykillinn að góðri ferð.


Þegar komið er á upphafsreit, þarf bara að setja annan fótinn fram fyrir hinn og taka fyrstu skrefin.
Í upphafi er líðanin góð, raddirnar í kollinum drífa þig áfram því þú ætlar alla leið, upp á topp. Þegar líður á gönguna og ég tala nú ekki um, ef farið er of geyst, þá breytast þessar raddir oft á tíðum og hið neikvæða innra tal tekur yfir. Hugsanir líkt og “ég get þetta ekki”, “þetta er of erfitt”, “mér á aldrei eftir að takst þetta” láta á sér kræla.
En hvað er þá til bragðs að taka? Er þá málið að hætta, setjast niður í miðri brekku og snúa svo við?
Á þessum tímapunkti er mikilvægt að leiða hugann að því afhverju þú hófst þessa göngu. Þig langar á toppinn og þú ætlar að ná þessu markmiði. Í stað þess að hætta þá hægir þú á ferðinni, lítur um öxl og gefur þér gott klapp á bakið. Þú ert komin nær toppnum en þegar þú varst við fjallsrætur og því ber að fagna. Þú gefur þér ögn rýmri tíma í ferðalagið og heldur áfram, því hvert skref færir þig nær takmarki þínu.


Andlegar hindranir á leiðinni eru jafn líklegar og það að þú upplifir fleiri en þrjú veðurafbrigði í sömu fjallgöngnni á Íslandi í maí. Því mæli ég með að þú finnir þér góðan ferðafélaga sem veitir þér þá hvatningu sem þú þarft á að halda hverju sinni og fagnar með þér á toppnum, hvort sem hann hefur gengið með þér alla leið eða veitt þér andlegan stuðning að heiman.
Í upphafi þessa pistils nefndi ég þá ólýsanlegu gleði sem fjallgöngur veita mér en eftir stutta umhugsun er þessi tilfinning afar skýr.
Þegar við komumst á toppinn erum við að sigra fjallið, við erum að ná árangri og ná settu markmiði sem veitir okkur aukið sjálfstraust til þess að takast á við næsta fjall og næsta verkefni.
Ef fyrstu skrefin hræða eða þú veist ekki hvar þú átt að byrja er markþjálfun málið.
Ég kem þér af stað og styð þig alla leið!
Eina sem þarf til er létt ævintýraþrá og löngun í bætta andlega og líkamlega heilsu.
Íris er íþróttafræðingur og hefur lokið námi í markþjálfun, bæði heilsumarkþjálfun frá IIN (Institute for integrative nutrition) og stjórnendamarkþjálfun frá HR. Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Írisi gegnum netfangið iris@primal.is.
Facebook: facebook.com/Lifsmark/
Instagram: lifsmark_hugurogheilsa