Search
Close this search box.
Að vera eða ekki vera … vegan

Að vera eða ekki vera … vegan

 Merkimiðar

Hér eru komnir nokkrir „merkimiðar“ þ.e.a.s. fótboltamaðurinn, úr Kópavogi, námsmaðurinn og svo vinnan. En það er þetta með að borða ekki hvað sem er, sem stendur í fólki. Það verður hvummsa og vill ræða þá merkingu aðeins betur. Vegan! Það er eitthvað skrýtið! Hvað þýðir þetta og af hverju? Raunar er það þannig að ég á mjög erfitt með að skilgreina mig nákvæmlega á þessu sviði. Sannleikurinn er nefnilega sá að ég vil það ekki. Ég er ekki vegan, ég er ekki grænmetisæta, ég er ekki paleo (ísl. steinaldarfæði), ég er ekki hráfæðisæta, ég er ekki neitt sérstakt. Ég er bara ég, með brennandi áhuga á heilbrigðu líferni og fyrir þá skilgreiningu er ekki til neinn sérstakur merkimiði.

Var upptekinn af því að vera vegan

Heilbrigði er mitt aðal markmið og hefur verið allt frá því að ég byrjaði að breyta mataræðinu fyrir um 8 árum síðan. Á þessum tíma hef ég prófað ýmislegt en allt með heilbrigði að leiðarljósi. Ég hef smám saman farið í þá átt að borða mat sem er eins nálægt uppruna sínum og völ er á. Fyrir tæpum þremur árum ákvað ég síðan að gerast vegan og borða aðeins heilnæman mat sem kemur ekki úr dýraríkinu. Fyrstu 2 árin tók ég þessu mjög alvarlega og gaf engan afslátt. Ég fann að þessi breyting gerði mér gott og mér fór að líða töluvert betur í skrokknum. Ég borðaði bara mat sem féll í þann flokk. Tíminn leið og ég áttaði mig skyndilega á því að ég var hættur að hugsa rökrétt og öll einbeitingin var á „merkimiðann“ vegan en ekki á heilbrigði og uppruna matarins. Ef maturinn var sagður fyrir vegan þá setti ég engin spurningamerki við það. Þó gerði ég mér grein fyrir því að slíkur matur er ekkert endilega alltaf hollur, en þarna var nóg að sjá „miðann“.

Heilbrigði er mitt aðal markmið og hefur verið allt frá því að ég byrjaði að breyta mataræðinu fyrir um 8 árum síðan.

Ekki misskilja mig. Það að vera vegan er frábært og ég ber virðingu fyrir þeim sem velja þann lífsstíl, svo ég tali nú ekki um hugmyndafræðina sem þar býr að baki. Ég geri mér grein fyrir því að vegan lífsstíllinn snýst ekki um heilbrigði hjá öllum. Stór hluti fólks kýs vegan lífsstíl af hugsjón, vegna dýranna, umhverfisins og það er algjörlega frábært. En ég vil ekki fullkomlega setja sjálfan mig í þann flokk. Ég vil ekki tilheyra ákveðnum hópi þegar kemur að mat. Nei ég vil ekki vera merktur heldur „óflokksbundinn“. Ástæðan? Jú, ég vil ekki kæfa mína eigin rökhugsun og láta aðra taka ákvarðanir fyrir mig. Að tilheyra hópi og fylgja honum í blindni er aldrei gott, jafnvel þó að málstaðurinn sé frábær.

Vegan oftast fyrir valinu

Rökhugsunin mín segir mér að velja vegan í flestum tilfellum þegar ég fæ mér að borða, vegna þess að oftast er það hollasti kosturinn og betra fyrir mig, umhverfið og dýrin. En stundum koma upp aðstæður þar sem ég vel kost sem ekki er vegan. Kannski vegna þæginda, stundum langar mig í smá hunang út í kaffið, eða ég tel að gerlarnir í jógúrtinu bæti meltingaflóruna mína. Ég tek lýsi svo ég fái Omega-3 og kollagenið mitt er unnið úr dýraríkinu. Stundum langar mig til að smakka mjólkurkefírinn sem frændi minn lætur gerjast í eldhúsinu heima hjá sér. Auðvitað er samt til staður og stund fyrir þessi hugtök. Að vita að eitthvað sé vegan, paleo, glútein frítt, óerfðabreytt o.s.frv. er mikilvægt. En fyrst og fremst er það rökhugsunin sem gildir í stað þess að fylgja einhverju í blindni.

Rökhugsunin mín segir mér að velja vegan í flestum tilfellum þegar ég fæ mér að borða, vegna þess að oftast er það hollasti kosturinn og betra fyrir mig, umhverfið og dýrin.

Verum meðvituð

Að þessu sögðu held ég að við getum öll verið meðvitaðari í ákvörðunum okkar varðandi það sem við setjum ofan í okkur. Að mínu mati borðum við of mikið kjöt sem hefur neikvæð áhrif á heilsu okkar og umhverfið. Við lítum framhjá þeirri staðreynd að dýrin sem við borðum eru mörg hver verksmiðjuframleidd, lifa við skelfilegar aðstæður og er slátrað á ómannúðlegan hátt. Tímabil mitt sem vegan var lærdómsríkt. Það er nefnilega hægt að vera heilbrigður og stunda íþróttir án þess að borða dýraafurðir, en það er ekki eina leiðin að heilsusamlegra lífi.

Svo hér er mín tillaga; Hugsum áður en við borðum, verum meðvituð um ákvarðanir okkar og afleiðingar þeirra án þess að setja okkur í flokk. Það þarf nefnilega ekki að vera eða ekki vera. Verum bara heilbrigð bæði fyrir okkur sjálf og af virðingu við náttúruna.

 

Höfundur: Arnór Sveinn Aðalsteinsson

NÝLEGT