Search
Close this search box.
,,Af öllu sem ég hef tekist á við er ég lang stoltust af dætrum mínum“

,,Af öllu sem ég hef tekist á við er ég lang stoltust af dætrum mínum“

Birna Hrönn er 48 ára stolt þriggja dætra móðir sem að eigin sögn elskar að vera í náttúrunni. Fædd og uppalin á Akureyri og býr í dag á Selfossi. Birna Hrönn er mikill náttúru unnandi og hefur alltaf verið, elskar að brasa og njóta í náttúrunni eins og hún útskýrir það sjálf. Hún ólst upp við að fara í útilegur og hefur alla sína tíð haft mikla tengingu við náttúruna.

,,Ég æfði sund með Óðni og fótbolta með KA í mörg ár en þurfti svo að velja á milli fótboltans og sundsins og valdi sundið þar sem einstaklings grein hentar mér miklu betur heldur en hópíþrótt“, segir Birna Hrönn. Hún stundar sjósund af miklu kappi og er jafnframt eini Íslendingurinn sem stundar íssund en Birna Hrönn er einmitt íslenskur heimsmeistari í íssundi þar sem hún vann heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2019.

,,Ég hef stundað sjósund í 11 ár og hef synt í öllum veðrum og á gríðarlega mörgum stöðum. Mesti kuldi sem ég hef farið  í er sjórinn þegar hann var -1,8°C en það var í raun mun auðveldara heldur en að synda 1000 m í -0,4°C í ferskvatni líkt og ég gerði í Rússlandi á heimsmeistaramótinu í Íssundi árið 2019″ bætir Birna Hrönn við.

Birna Hrönn

Segðu okkur aðeins frá því hvað þú ert að gera í dag

,,Í dag á tímum Covid er ég mest að þvælast um landið með tjaldið með mér að skoða mig um og nýt þess að vera í náttúrunni. Geng á fjöll og syndi í vötnum og sjó. Ég er mikið fyrir alla útivist og sund og svo finnst mér gaman að ganga á fjöll og hjóla. Ég æfi sund núna í sundlaug til að ná upp þoli og styrk til að geta synt lengri vegalengdir í sjó og vötnum“.

,,Ég hef verið í sjósundi í 11 ár og út frá því fór ég að fara í íssund sem er mitt aðal áhugamál í dag og hef stundað í um fimm eða sex ár. Allar dætur mínar hafa verið með mér í þessu, ég fór með þær mjög mikið í útilegur og þær  fóru ungar að fara í köld vötn og sjó með mér. En núna þar sem þær eru allar orðnar stórar og eru í námi og vinnu þá fer ég að mestu í allt sem ég brasa ein, því ég kann svo vel við mig ein í náttúrunni. Eins verð ég að segja frá því að þegar  ég flutti hingað á Selfoss fyrir tveimur árum þá ákvað ég að láta gamlan draum rætast og fór í Björgunarsveitina hér á staðnum sem er gríðarlega áhugavert starf“.

Heimsmeistaratitillinn 2019 er magnað afrek getur þú sagt aðeins frá þeirri upplifun

,,Ég hef keppt á tveimur heimsmeistaramótum í íssundi fyrra skiptið í Þýskalandi 2017 þar sem ég varð þriðja í mínum aldursflokki og svo seinna skiptið í Rússlandi 2019. Eins hef ég keppt víða annars staðar í heiminum“.

,,Keppnin í Rússlandi 2019 var mjög erfið að því leyti að vatnið var gríðarlega kalt. það var synt í ferskvatni sem var -0,4°C og það tekur mikið á líkamann og hausinn að synda 1000m í svo miklum kulda. það sem er magnaðast við þessar keppnnir er ekki endilega það að ég hafi unnið  minn aldursflokk og orðið heimsmeistari í honum, heldur er það félagsskapurinn og vináttan sem skapast þegar synt er í svona erfiðum aðstæðum, við þurfum að stóla á og treysta öðrum fyrir því að hafa vit fyrir okkur og það gilda gríðarlega strangar reglur um þessar keppnir. Við svona aðstæður myndast alveg einstakur vinskapur sem er ómetanlegur“.

Birna Hrönn á sundi við afar kaldar aðstæður

Árið 2020 varstu eini íslendingurinn sem stunda íssund, er það ennþá staðan

,,Já eins og er held ég að ég sé enn sú eina sem er að stunda íssund og er keppa í því, engu að síður er mikill fjöldi sem stundar sjósund allan ársins hring og vonandi fara þau að koma með mér í íssundið. En aðal munurinn er sá að í íssundi og sjósundi er að í íssundi má ekki vera með neinn hitaeinangrandi búnað, ekki hanska eða sokka og bara einn sundbol og eina hitaeinangrandi sundhettu og vatnið verður að vera undir 5 gráðum“.

Hvað er það við sund í miklum kulda sem heillar þig mest

,,Það er vellíðanin sem fylgir því , kuldinn tekur í burtu alla getu á að vera með hausinn annarstaðar en akkurat í núinu. Eins hefur kuldinn mjög góð áhrif á kvíðann og ég finn mikinn mun á mér ef ég er dugleg að fara í kalt vatn hversu mikið minna kvíðin ég verð sem eykur lífsgæði mín mikið. Það er eins og kuldinn núllstilli líkamann þannig að ég upplifi að kvíðinn minnki mikið. Ég syndi mikið í köldum vötnum og sjó en kannski ekki mikið á þessum hefðbundnu stöðum eins og Nauthólsvík, ég er meira fyrir að vara í vötn og sjó þar sem færra fólk er. Þar sem ég er mikið á ferðinni í útilegum þá hef ég synt á gríðarlega mörgum skemmtilegum og fallegum stöðum. Ég er alltaf með sundbol, sundgleraugu og sundhettu í bakpokanum ef ég skyldi rekast á fallegan stað þar sem ég get dýft mér“.

Hver er uppáhalds útivistin þín

,,Mín uppáhalds hreyfing er að synda en þá helst í náttúrunni, það gefur mér alveg einstakan frið og færir mér mikla ró. Ég reyni helst að synda allstaðar þar sem ég kemst í tæri við vatn. Það að synda í sjó og vötnum þá upplifi ég að ég sé partur af náttúrunni sem er algjörlega magnað og færi mér algjöra innri ró, sem er svo dýrmætt þar sem ég er að glíma við kvíða og það er svo dásamlegt að fá frí frá kvíðanum og geta bara notið þess að vera“.

,,Ég á mér engann sérstakan uppáhalds stað á Íslandi heldur nýt þess eins og ég get að þvælast um landið, skoða og vera. Mér finnst mjög gaman að ganga upp á fjöll sem eru með vatni upp á og dýfa mér í vatnið og synda smá og rölta svo niður aftur. Ég stunda útilegur allan ársins hring og svo finnst mér mjög gaman að skíða líka og draumurinn er að eignast fjallaskíði. Ég hef alltaf verið mikið fyrir útilegur og líka að vetri til, til að mynda gisti ég hátt í 40 nætur í tjaldi í byrjun október fram í byrjun janúar. Ég var meðal annars upp á Ingólfsfjalli í tjaldi á gamlárskvöld. Mér finnst í raun ekkert erfitt að vera í tjaldi í frosti, ég er svo vön því það sem hefur reynist mér best er ullin, bæði eftir köld sund og á köldum nóttum í tjaldinu“.

Útivist og ferðalög um Ísland eru stór hluti af lífi Birnu Hrannar

Hver er þín uppáhalds útvist að vetri til

Allt sem tengist því að vera í náttúrunni og í vetur er ég búin að blanda saman útilegum og íssundi og hef líka haft með mér hjólið sem er skemmtileg viðbót og  gerir það að verkum að ég hef komist lengri leiðir þegar dagurinn er mjög stuttur eins og hann er hjá okkur yfir há veturinn. 

Tjaldútilega um miðjan vetur

Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni

,,Ég þarf að huga vel að andlegu heilsunni þar sem ég er að glíma við Áfallastreituröskun og í mínu tilviki fylgir henni mikill kvíði. Ég reyni að halda svefninum í lagi og að hafa áreiti hæfilegt. Ég þarf að vanda mig við að einangra mig ekki sem er búið að vera svolítið erfitt í Covidinu en ég á bestu vini í heimi sem hjálpa mér mikið. Eins er útivist og hreyfing algerlega nauðsynleg fyrir mig, bætir Birna Hrönn við þakklát“.

Eitthvað sem þú vilt ráðleggja þeim sem hafa áhuga á að byrja að stunda íssund

,,Að gera þetta hægt og rólega og hlusta vel á líkamann og læra á hvað hann þolir, muna að hlusta á þig og þinn líkama ekki hvað allir aðrir eru að segja þér að gera“.

Birna Hrönn ásamt dóttur sinni Katrínu Evu

Af því sem þú hefur áorkað, hverju ertu stoltust af

,,Ég er lang stoltust af dætrum mínum af öllu sem ég hef tekist á við. Þær eru  allar ótrúlega flottar og duglegar stelpur sem ég er endalaust stolt af“.

Dætur Birnu Hrannar þær Dagný Huld, Gunnur Mjöll og Katrín Eva

Hvaða þrjár matvörur áttu alltaf í ísskápnum

,,Ég er mjög lítið fyrir að versla í matinn og er allt of léleg við það en mér finnst ég verða að eiga mjólk í morgunkaffið, mysing á flatbrauðið og þá er ég nokkuð góð“.

Hvað borðar þú í morgunmat

,,Oftast borða ég hafragraut í morgunmat en fer samt eftir því hvað ég er að fara að gera“.

Instagram eða Facebook

,,Ég er bæði á instagram og facebook aðallega vegna þess ég á marga vini út um allan heim og ég er í miklum samskiptum við þau þar, og þetta eru ólíkir hópar eldra fólkið er á facebook yngra á insta“.

Podcast eða bók

,,Mér finnst geggjað að hlusta á podcast þegar ég er að keyra eða að fara að sofa“.

Te eða kaffi

,,Allan daginn kaffi 🙂 !! „

Birna Hrönn að fara að núllstilla sig í köldu vatni

Uppáhalds árstími

,,Hver og einn árstími hefur sinn sjarma og ég aðlaga mig bara að þeim aðstæðum hverju sinni“.

Eitthvað að lokum

Takk fyrir mig!

,,Já og alltaf að halda áfram alveg sama hvað gengur á, muna að hringja í vini og fá hjálp ef þess er þörf því í raun erum við aldrei ein, bætir þessi hugrakka íssundkona við að lokum“.

H Magasín þakkar Birnu Hrönn kærlega fyrir viðtalið og óskum við henni alls hins besta í framtíðinni.

Fyrir áhugasama má fylgjast með ævintýrum Birnu Hrönn á Instagram en þar birtir hún afar fallegar myndir af ferðalögum sínum og brasi um Ísland.

NÝLEGT