,,Aldrei, aldrei gefast upp“ Guðrún Bergmann á tímamótum

,,Aldrei, aldrei gefast upp“ Guðrún Bergmann á tímamótum

Guðrún Bergmann heilsuráðgjafi er einn af frumkvöðlum ýmiskonar sjálfsræktar námskeiða sem hún hefur haldið fyrir Íslendinga í fjölda ára. Hún hefur í fjölda ára verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir í átt að bættri heilsu og bættra lífsgæða. Síðustu ár hefur hún einbeitt sér aðallega að námskeiðunum hreint mataræði sem hafa aldeilis slegið í gegn. Guðrún hefur komið víða við á starfsævinni og nánast alla tíð í eigin rekstri. Hún er þekkt fyrir mikla atorku, dugnað og jákvæðni. Nýlega varð Guðrún sjötug en að eigin sögn er hún í huganum aldrei eldri en 23 ára. Guðrún hefur ferðast víða en líður hvergi betur en á Íslandi. Það var okkur hjá H Magasín sannur heiður að fá Guðrúnu í viðtal á þessum tímamótum.

Nú stendur þú á tímamótum, hvernig líður þér við upphaf nýs tugar?

Mér líður bara alveg frábærlega. Það var lítill munur milli daga, frá því að hafa verið á Jörðinni í 69 ár og yfir í 70 ár. Í huganum finnst mér ég alltaf vera 23 ára og ég ætla ekkert að fara að breyta því. Heilsan er fín og ég segi gjarnan að hún sé betri en hún var þegar ég var fertug, svo ég hef nóg þrek og orku til að halda áfram að gera það sem ég elska mest, hjálpa öðrum að ná betri heilsu eftir náttúrulegum leiðum og svo auðvitað með því að hreinsa líkamann, eins og gert er á HREINT MATARÆÐI námskeiðunum mínum.

Hvernig fagnaðirðu stórafmælinu á þessum skrýtnum tímum

Ég er svo mikil flökkukind að ég vil helst alltaf vera á ferðalagi þegar ég á afmæli. Stórar veislur hafa aldrei heillað mig og þetta árið átti ég að vera sem fararstjóri í Indlandsferð á vegum Bændaferða á afmælisdeginum, en af því varð auðvitað ekki. Ég fagnaði því með fólkinu sem skiptir mig mestu máli, yngri syni mínum og fjölskyldu hans. Svo hélt ég smá Skype samsæti með eldri syni mínum og hans fjölskyldu, en þau búa í Texas í Bandaríkjunum.

Guðrún við mölun á Indlandi

Nú hefur þú ferðast mikið, hvert er áhugaverðasta land sem þú hefur komið til?

Það er afar erfitt að velja eitt land umfram annað. Ég hef heillast mjög af löndum eins og Suður-Afríku, sem mér finnst alveg einstakt land, bæði hvað varðar samblandið af fólkinu þar, stórbrotið landslag og dýralíf. Svo búa bæði Egyptaland og Perú yfir ótrúlega merkilegum fornminjum, þannig að maður verður snortinn af söguni einni saman þegar maður stendur í hofunum í Egyptalandi eða í Machu Picchu, Inka-borginni sem var svo lengi týnd.

En eftirminnilegasta?

Ég held ég verði að segja Ástralía. Ég hef tvisvar farið þangað, í annað skiptið á eigin vegum og var þá á flakki um landið í þrjár vikur og fór víða. Var ein á ferð svo upplifun af landinu var alveg einstök. Það var til dæmis mjög magnað að halda upp á 59 ára afmælið við Uluru eða Ayers Rock, borða kvöldmat úti undir tunglsljósi við Uluru og fá svo leiðsögn með lazerbendli um stjörnumerki himinhvolfsins. Held að sá afmælisdagur sé með þeim eftirminnilegri.

Guðrún eftir göngu upp brúarbogann á Harbour Bridge 1347 þrep

Ef þú byggir ekki á Íslandi hvar myndir þú vilja búa?

Ég hef nú aldrei hugsað mikið um að búa annars staðar, en fyrir mörgum árum fór ég í mína fyrstu ferð til Hawaii og þá fannst mér að þær eyjar myndu verða fyrir valinu ef ég myndi flytja frá Íslandi. Árið 2004 fór ég svo í mína fyrstu ferð til Nýja-Sjálands og þá skipti ég um skoðun og ákvað að ég myndi vilja búa þar, ef ég byggi ekki á Ísland.

Þessar eyjar eða eyjaklasar eru eldfjallaeyjar eins og Ísland. Orkan er því svipuð og þess vegna heillaðist ég sennilega svona af þeim. Nú er ég hins vegar á þeirri skoðun að best sé að búa á Íslandi og ferðast svo til annarra landa, kynnast menningu og þjóð – og koma svo heim aftur í heita vatnið, hreina kalda vatnið og þangað sem fjölskyldan og tengslin eru.

Nú ert þú frumkvöðull ýmiskonar sjálfsræktar og margt hefur breyst síðastliðin ár. Hver finnst þér mesta breytingin á bara síðustu 10 árum?

Breytingin er rosalega mikil allt frá því ég fór að gera breytingar á eigin mataræði og lífsstíl fyrir um 35 árum síðan. Síðustu tíu ár hafa að mínu mati einkennst mjög af því að fólk er að vakna til vitundar um að það getur gert ýmislegt til að viðhalda góðri heilsu og lífsgæðum fram eftir aldri. Fleiri stunda almenna útivist eins og gönguferðir og alls konar líkamsrækt. Þekking fólks á því hvað það getur gert til að bæta eigin heilsu hefur aukist mjög með virkari fræðslu og svo er hægt að ná í mikið af upplýsingum um allt mögulegt á Netinu.

Verslanir hafa brugðist vel við eftirspurn og nú eru allar helstu matvöruverslanir með sérstök heilsuhorn, en þau voru ekki til fyrir 20 árum síðan. Aðgengi að hollri matvöru er því miklu meira, svo og að hvers konar bætiefnum, sem eru mikilvæg fyrir heilsu okkar. Jarðvegurinn sem fæðan er ræktuð í er nefnilega orðinn svo snauður af steinefnum að við þurfum að bæta okkur upp þann skort með bætiefnum.

Hvernig ræktar þú hugann?

Ég hugleiði daglega og svo les ég bækur og hlusta á fræðsluefni nokkuð reglulega. Margir eru með heilu ráðstefnurnar á Netinu og ég legg mig fram um að fylgjast með öllu því sem örvar andann, því helsta í heildrænum lækningum og þeim náttúrulegu leiðum sem hægt er að fara til að bæta heilsuna.

Ég er eiginlega alveg hætt að horfa á sjónvarp. Eyði ekki tíma í einhverja þætti sem eiga að sýna mér lífið eins og aðrir lifa því. Vil frekar skapa mér minn eigin raunveruleika.

Á ferðalagi í Perú

Tekur þú einhver vítamín að staðaldri?

Já, það geri ég og ég tel einmitt að vítamínin hafi breytt svo miklu um heilsu mína. Ég tek alltaf D-3 og magnesíum, þar sem það er eitt mikilvægasta steinefni líkamans. Ég tek líka alltaf Omega-3, því það er svo mikilvægt fyrir heilann og ég vil endilega vernda hann sem lengst og best. Ég tek líka nánast daglega inn B-12, en það er eitt af þeim bætiefnum sem flesta skortir og getur haft alvarleg áhrif á orku líkamans. Eins er mikilvægt að taka reglulega inn CoQ10 en það bætiefni, líkt og B-12 og magnesíum er svo mikilvægt fyrir almenna starfsemi líkamans.

Á haustin og yfir vetrartímann tek ég inn Rhodiola, sem er burnirót því hún er svo góð fyrir orkuna og geðið. Astaxanthin tek ég alltaf inn yfir sumartímann eða ef ég fer á suðlægar slóðir að vetri til, því það er ekki bara gott andoxunarefni, heldur verndar það húðina í sólinni og gefur henni flottan lit. Gæti reyndar haldið eitthvað áfram með upptalninguna, en læt þetta duga í bili.

Jú, eitt enn ætla ég að nefna. Ég hef í nokkra mánuði tekið inn Vital Proteins kollagenið og er alveg sérlega ánægð með það og árangur þess á vöðvauppbyggingu og húðina. Það verður pottþétt dagleg inntaka af því í framtíðinni.

Hefur covid ástandið breytt miklu hjá þér og hvernig hefur þér tekist að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir?

Í raun hefur það kannski ekki breytt svo miklu hjá mér. Ég bý ein og vinn heima, svo vinnuaðstaðan breyttist ekki. Ekki þessi daglega alla vega, en ég hætti að geta haldið HREINT MATARÆÐI námskeiðin í sal, þar sem ég hitti fólkið persónulega, en sú tenging er afar mikilvæg, og þurfti að flytja þau á netið. Nú dreymir mig um að geta haldið janúarnámskeið í sal, svo ég geti hitt fólkið sem til mín kemur á ný. Með nýju ári held ég inn á þriðja þúsundið, því nú þegar hafa nákvæmlega 2.002 einstaklingar tekið þátt í þessum námskeiðum.

Varðandi mitt persónulega líf, þá hef ég óhikað haldið áfram að hitta börn og barnabörn, því samvera með þeim gefur lífinu svo mikið gildi. Ég hef tekið alls konar bætiefni til að styrkja ónæmiskerfið og aldrei litið á að ég sé í áhættuhópi. Ég hef hins vegar ekki ferðast eins mikið og undanfarin ár, hvorki innanlands né utan, en það er þó komin ein utanlandsferð á listann og ég hef farið nokkrar ferðir til að heilsa upp á Snæfellsjökul.

Hvað er eftirminnilegast á þínum ferli?

Úff! Það er alltaf svo erfitt að velja eitt. Það er þó tvennt sem ég er sérlega stolt af. Snemma í rekstri Hótel Hellna, sem ég átti og rak, fyrst með öðrum en svo ein, fékk ég áhuga á að fá hótelið vottað sem umhverfisvænt hótel. Það tókst árið 2000 og var það fyrsta fyrirtækið í ferðaþjónustu sem fékk umhverfisvottun. Maðurinn minn heitinn og ég unnum síðan að undirbúningi fyrir umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og það var stór dagur þegar vottunin fékkst. Þessi tvö verkefni eru sérlega eftirminnileg og eitt af þessu mælanlega í heiminum.

Nú hefur þú skrifað 19 bækur á ferlinum um heilsumál og sjálfsrækt, er einhver þeirra sem þú ert stoltust af?

Þegar ég horfi til baka yfir þær bækur sem ég hef skrifað, þá hafa þær allar tekið mið af því nýjasta hverju sinni. Upplýsingaflæðið og þekkingin hefur hins vegar breyst mikið, svo ég held að nýjasta bókin mín BETRA LÍF fyrir konur á besta aldri sé heildstæðasta handbókin fyrir konur, í raun á öllum aldri, því þar eru klassískar upplýsingar, eins og úr kínverskri læknisfræði, sem er mörg þúsund ára gömul en samt alveg með puttann á púlsinum í dag.

Árið 1993 skrifað ég VÍKINGAKORTIN, bók og spáspil, sem eru löngu uppseld. Þau voru ævintýri út af fyrir sig, því ég seldi útgáfuréttinn til Austurríkis, Noregs og Bandaríkjanna, en svo var ég í fullum rekstri á Íslandi og gat ekki fylgt þeim neitt eftir, þannig að þau fóru ekki til fleiri landa. Þarna eins og svo oft áður var ég töluvert á undan minni samtíð, því Víkingar komust ekki fyrir alvöru í tísku fyrr en með þáttunum um Ragnar Loðbrók.    

Eru fleiri bækur framundan?

Ég er með eina í vinnslu, en hún er allt annars eðlis en fyrr bækur. Hún er skáldsaga með íblandi af raunveruleikanum, eins og skáldsögur gjarnan eru.

Nú ert þú sjötug og við góða heilsu, hver er lykillinn?

Undirstöðurnar fjórar, mataræði, bætiefni, hreyfing og svefn. Ég var eitt sinn beðin um það í viðtali að segja hvað ég gerði til að halda góðri heilsu, en beiðninni fylgdi jafnframt sú ósk að ég fjallað um eitthvað annað er þessa fjóra þætti.

Það er því miður ekki hægt, því þetta er grunnurinn að góðu lífi. Fyrir tíu árum síðan þegar ég seldi Hótel Hellnar var heilsa mín á skalanum 0-10 á milli 0 og 1. Mér fannst eins og lífskrafturinn væri að fjara úr mér, en sex árin þarna á undan hafði ég verið ein með rekstur hótelsins eftir að maðurinn minn féll frá. Því fylgdi mikil vinna, svona 18 tíma dagar helminginn af árinu, streita og yfirkeyrsla, svo ég hafði nánast „brennt mig upp“, en með góðri aðstoð frá Hallgrími heitnum Magnússyni lækni náði ég að snúa ferlinu við. Í dag mæli ég heilsu mína á sama skala á milli 8,5-9,5, svo það hefur orðið mikil breyting.

Þess vegna segi ég að allir geti bætt heilsu sína, ef þeir hafa vilja og úthald til, því ég hef reynslu af því sjálf að það er hægt.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?

Ferðast, ekki spurning. Ég er alltaf tilbúin til að fara í ferðalag, vera í fararstjórn eða taka að mér að sýna erlendum vinum mínum Ísland. Foreldrar mínur voru miklar flökkukindur og við vorum alltaf á ferðalögum um landið þegar ég var krakki. Ferðabakterían varð því til í æsku og hún lifir enn góðu lífi.

Guðrún á góðri stund við India Gate

Nú ert þú afar áhugasöm um stöðu himintunglanna og stjörnuspeki, hefur þetta mikil áhrif á okkur að þínu mati?

Já, gífurlega mikil. Ég fór fyrst á stjörnuspekinámskeið hjá Gunnlaugi Guðmundssyni stjörnuspekingi árið 1984 og hef síðan þá notað stjörnuspeki mikið í eigin lífi. Ég réði til dæmis starfsfólk á hótelið mitt eftir stjörnumerkjum þess, því þá vissi ég hvaða orku það myndi koma með inn í reksturinn.

Nú er í gangi mikið breytingartímabil og ég hef verið að þýða skýringar breska stjörnuspekingsins Pam Gregory um stjörnuorkuna í kringum nýtt og fullt tungl. Bæði hef ég verið með upplýsingarnar í beinni útsendingu á Facebook síðunni minni og svo hef ég tekið þær skýringar saman í greinar sem ég birti á vefsíðunni minni – www.gudrunbergmann.is – og svo líka í Facebook hópnum HEILSA og LÍFSGÆÐI, sem er opinn þeim sem áhuga hafa á náttúrulegum leiðum til að viðhalda góðri heilsu.

Hreyfir þú þig reglulega og hvaða hreyfing finnst þér skemmtilegust?

Ég byrja alla daga á að gera æfingar í svona 60 mínútur eða svo, stundum lengur ef ég er í miklu stuði. Ég hef verið að lyfta með lóðum allt þetta ár, en ég hef ekki gert það svona reglulega fyrr. Mér fannst upphandleggirnir á mér allt í einu ekki lengur vera tuttugu og þriggja ára J svo þá var bara að gera eitthvað í málinu.

Svo geri ég styrktaræfingar fyrir kvið og mjaðmir, grindarbotn og fótleggi, svo allur líkaminn er undir í þessu ferli.

Ég var komin með klemmingu á taug og mikinn verk í annarri mjöðm fyrir einu og hálfu ári síðan og mjög slæma verki sem komu svo skyndilega að ég að setjast niður hvar sem ég var. Ég var því hætt að þora í gönguferðir af ótta við að komast ekki heim aftur. Læknar töldu að ekki væri hægt að laga þetta með skurðaðgerð og lögðu til að ég tæki bara verkjalyf.

Það hentaði ekki mínum lífsstíl, svo ég fór til nálastungulæknis, sem hjálpaði mér heilmikið. Svo ákvað ég að sjá hvað myndi breytast ef ég gerði ákveðnar mjaðmaæfingarnar, þótt það væri mjög kvalafullt til að byrja með. Í dag er ég laus við verkinn og get gengið hvert sem er, hvenær sem er.

Nú hefur þú mikinn áhuga á umhverfismálum, hvert má rekja þann áhuga?

Örugglega til innrætingar í æsku. Þegar ég ferðaðist um landið með foreldrum mínum sem barn, gistum við alltaf í tjaldi. Þegar farið var af næturstað næsta morgun var öllu rusli safnað saman og það tekið með og móðir mín sagði gjarnan, þegar við keyrðum í burtu af tjaldstað: „Hér er ekkert eftir nema bælt gras eftir tjaldið.“

Svo varð ég fyrir mikilli vakningu þegar bókin Planet Earth kom út að mig minnir 1984 og ákvað að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Um leið og hægt var að skila flokkuðum úrgangi fór ég að flokka og fyrstu árin sem við vorum á Hellnum, söfnuðum við til dæmis saman öllum pappírsúrgangi og skiluðum til flokkunar í Reykjavík.

Umhverfismálin snúast þó ekki bara um að flokka og plokka, heldur að breyta neysluvenjum okkar og minnka í raun neysluna.

Hefur þú alla tíð hugsað vel um heilsuna og hver varð kveikjan að þeirri braut sem þú fórst?

Veikindi eru yfirleitt alltaf kveikjan að því að maður fer að hugsa meira um heilsuna. Ég byrjaði snemma að vera með alls konar heilsufarsvandamál sem læknar kunnu engin skil á. Þegar ég var 18 ára var ég skilgreind sem „ímyndunarveik“ eftir vikulanga rannsókn á Borgarspítalanum. Í framhaldi af því fór ég að leita eftir náttúrulegum leiðum til að bæta heilsuna, en það var lítið um lesefni og ég því að fálma mig nokkuð áfram í myrkri.

Árið 1985 var ég svo greind með Candida sveppasýkingu af Marinó heitnum Ólafssyni, tæknimanni á sjónvarpinu. Hann lánaði mér bók sem hann var nýbúinn að lesa og á síðum The Yeast Infection, komst ég að raun um að ég var svo sannarlega með hana, en sveppasýking getur dreift sér eða eiturefni hennar um allan líkamann. Eftir það var ekki við snúið – og þótt ég hafi yfirkeyrt mig og um tíma gleymt alveg að setja heilsuna í fyrsta sæti, hef ég hugsað mjög vel um hana síðustu tíu ár og nýt árangurs af því í dag.

Ef þú ættir að ráðleggja fólki eitthvað þrennt í átt að bættari heilsu hvað væri það helst?

Ég myndi byrja á að hvetja fólk til að hreinsa líkamann, því við getum lítið gert til að bæta heilsu okkar ef við „skúrum ekki gólfið, áður en við byrjum að bóna“. Talið er að í hverjum einstaklingi séu um 700 eiturefni, auk þess sem í líkamanum getur verið dauður og rotnandi úrgangur, allt frá 1,5 kg og upp í 10 kg. Því er mikilvægt að byrja að hreinsa til, áður en byggja á upp.

Svo þarf að velja mataræði sem styrkir og eflir líkamann, en dregur ekki úr orku hans. Ég hef komist að raun um að ef mataræðið er ekki í lagi, þá gerir lítið gagn að taka alls konar góð bætiefni. Maturinn er grunnur að orku líkamans og bætiefnin styðja svo við þá orkumyndun.

Þess vegna yrðu bætiefnin þriðja ráðið. Regluleg inntaka af ýmsum bætiefnum hefur alveg gerbreytt heilsu minni.

Hvaða ráð myndir þú vilja gefa tvítugri þér?

Þau ráð er eiginlega ekki hægt að gefa. Heimurinn sem ég bjó í þá var allt annar, svo og umhverfið ð og það sem ég myndi segja í dag við mig tvítuga, myndi ekki henta þeim tímum sem þá voru. Öll þekking og orka hefur breyst svo mikið síðan þá. Þó myndi ég kannski segja: „Aldrei, aldrei gefast upp!“ en ég þarf þess eiginlega ekki, því það hefur alltaf verið mantran mín.

Þótt mér finnist stundum eins og engin útleið sé úr kringumstæðum, hefur mér alltaf tekið að ná í stríðsmanninn í sjálfri mér, sem er tilbúinn til að berjast fyrir betra lífi og betri heimi.

Hvað er framundan hjá þér?

Halda áfram að njóta af þakklæti hvers dags sem ég vakna til. Halda áfram að vinna og hafa tilgang í lífinu, hver sem hann verður. Ég elska það sem ég er að gera og meðan ég hef lesendur og fólk sem vill sækja námskeið eða einkatíma hjá mér, held ég áfram að vinna. Vinnan kann að breytast, en hver sem hún verður vil ég lifa tilgangsríku lífi.

Faðir minn sagði einhvern tímann við manninn minn heitinn, sem var að kvarta yfir framkvæmdagleðinni í mér. „Hún Guðrún, hún verður að framkvæma fram í rauðan dauðann.“ Ég held að það hafi verið nokkuð rétt hjá honum.

Hver er besta tilvitnun sem þú hefur heyrt?

„Do or Do Not! There is no trying.“ – Yoda í fyrstu Star Wars myndinni. Ekkert sem toppar hana að mínu mati.

Eitthvað sem þú vilt segja lesendum að lokum?

Held að tilvitnunin í Yoda sé besti endirinn…

Við þökkum Guðrúnu kærlega fyrir viðtalið og óskum henni alls hins besta á komandi árum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

NÝLEGT