Search
Close this search box.
Ánægjulegri hlaupaæfing í réttum klæðum

Ánægjulegri hlaupaæfing í réttum klæðum

Það er hægt að gróflega flokka klæðnað á hlaupum í fjóra flokka. Fyrst og kannski mikilvægast er klæðnaður á æfingum sem eru úti, svo er það klæðnaður í keppnum, klæðnaður á bretti og svo klæðnaður þegar við hlaupum á innanhúsbraut eða í innanhúsknattspyrnuhúsi (lesist, framtíðar-innanhús-400 m-hlaupabraut-með utanáliggjandi-grasbraut). Í þessum pistli förum við stuttlega yfir klæðnað á hlaupaæfingum sem eru úti.

Klæðnaður á úti hlaupaæfingum

Á Íslandi er veðrið fyrirsjáanlegt, sagði enginn aldrei. Við þurfum þess vegna alltaf að taka með í myndina, vindinn, hitastigið og aðstæðurnar þegar við veljum okkur klæðnað. Einnig er gott að pæla í hvort við séum að taka gæðaæfingar eða rólegar æfingar.

Vindurinn

Ef það er mikill vindur þá getur það þýtt að okkur verði hlýtt í meðvindinum og mjög kalt í mótvindinum. Þetta þýðir að við þurfum helst að vera í flíkum sem við getum bundið utan um okkur þegar við hlaupum í meðvindinum eins og vindheldur jakki og svo getum við farið aftur í hann þegar það er mótvindur.

Í rólegum skokkum þegar það er kalt og vindur þá hugsa ég alltaf um að vera frekar aðeins of vel klæddur heldur en of lítið klæddur því þá get ég farið nógu hægt, annars freistast maður til þess að hlaupa hraðar til að halda á sér hita. Á gæðaæfingum viljum við helst reyna að taka sem mestan hluta af æfingunni í meðvindi en þá hlaupum við meira í mótvindi í upphituninni og niðurskokkinu. Þá getur verið gott að geta farið úr húfu, hönskum, jakka og buffi. Á gæðaæfingum er oftast betra að vera aðeins of illa klædd heldur en of vel klædd því of mikill hiti slekkur á okkur á meðan kuldinn hvetur okkur til að hlaupa hraðar.

Hitastigið

Í þau skipti sem við fáum gott veður á Íslandi er mjög algengt að sjá hlaupara vera allt of vel klædda. Við einfaldlega erum ekki vön þessu og hoppum bara ósjálfrátt í sama hlaupagallann og alltaf. Ég hvet því oft hlaupara til að prófa að taka rólegu skokkin í mögulega einni flík minna en þau langar til og frekar hafa auka buff um hálsinn eða þykkari hanska en venjulega sem auðvelt er að taka af sér og stjórna þannig hitastiginu. Það er miklu verra að þurfa að fara úr heilli peysu og binda hana utan um sig í staðinn fyrir að taka bara húfuna, hanskana eða buffið niður og halda á því eða setja í vasann.

Svipuð regla gildir með þegar það er kalt úti. Veldu þér mjög hlýtt fyrsta lag og vertu svo með eins mikið af flíkum sem hægt er að taka af sér og hægt er. Ég til að mynda hef brugðið á það ráð að vera með lúffur yfir ágætlega þunna hanska. Þá get ég tekið af mér lúffurnar ef það verður of heitt en er samt með hanska til að halda einhverjum hita.

Á gæðaæfingum er mikilvægt að geta farið úr flíkum eftir upphitun og farið svo aftur í þær eftir gæðin þegar við tökum niðurskokkið. Þegar veðrið er hinsvegar gott þá mæli ég með því að fara í eins lítið af fötum og hægt er og svo ef þér verður kalt, þá einfaldlega hlaupa í þig hita. En svona án djóks þá er það allt of algengt að við vanmetum hversu heitt okkur verður á erfiðum æfingum.

Aðstæður

Í lokin er hægt að hugsa um aðstæður sem verða á hlaupaæfingunni. Erum við til dæmis að fara upp á fjall þar sem hitastigið verður kaldara á toppnum eða verðum við á skjólsælum stað (hef heyrt um þá, en ekki fundið á Íslandi). Einnig er hægt að taka með í reikninginni hvort við séum að taka gæðaæfingu á sama staðnum og hlaupa í ákveðinn hring þannig að þá eigum við auðveldara með að kasta af okkur flíkum og getum þá valið okkur frjálslegar hvernig við klæðum okkur.

Í grunninn snýst þetta því um að vera frekar aðeins of vel klædd á rólegu æfingunum því þar er alltaf í góðu lagi að hægja á okkur, en samt sem áður reyna sem oftast að vera þannig útbúinn að við getum fækkað flíkum og stjórnað hitastiginu svoleiðis. Hanskar, húfur, buff og ermahlífar eru allt mjög góður kostur. Einnig viljum við eiga eitt hlýtt innra lag og svo er gott að eiga eitt mjög þunnt innra lag til að vera fyrir innan jakkann yfir sumarið þegar veðrið er aðeins að vinna með okkur.

Ef við verðum sérfræðingar í að klæða okkur eftir veðri og vindum þá verða hlaupaæfingarnar þeim mun ánægjulegri í kjölfarið.

Fylgstu með Arnari hér:

arnarpeturs.com

instagram.com/arnarpeturs

NÝLEGT