Andlegur styrkur íþróttafólks!

Andlegur styrkur íþróttafólks!

Höfundur: Coach Birgir

Hversu miklum tíma verð þú í að byggja upp andlegan styrk og hvers vegna skiptir það máli?

Almennt talið er yfirburða íþróttamaður sá sem er í frábæru líkamlegu ástandi og býr yfir yfirburða hæfileikum til þess að taka þátt í íþrótt sinni á hæsta mögulega stigi, hæfni og getu.

Keppnisumhverfi íþróttafólks í dag er samt einfaldlega þannig að líkamlegir burðir og hæfileikar einir og sér duga ekki lengur til þess að ná yfirburðastöðu og/eða hámarksárangri.

Margir virkilega hæfir íþróttamenn hafa brunnið hratt út vegna gríðarlegs andlegs álags og endalausra krafna úr öllum áttum. Líkamlegir hæfileikar einir og sér skila sér ekki lengur í hámarksárangri og yfirburðum í því samkeppnisumhverfi sem íþróttafólk býr við í dag og því þurfa allir sem stefna hátt í íþrótt sinni að huga vel að uppbyggingu andlegs styrks sem og hæfni til að setja sjálfum sér og öðrum raunhæf mörk og markmið.

Íþróttir eru 85-90% andlegur leikur og þeir sem búa yfir miklum andlegum styrk eru oftar en ekki þeir sem ná besta árangrinum, óháð líkamlegum burðum og hæfileikum.

Því miður er staðan samt enn sú að áherslan á líkamlega þáttinn er margföld á við þann andlega og algjörlega ljóst að það mun ekki breytast á næstunni. Jafnvel þótt að með reglubundinni andlegri þjálfum gætum við aukið möguleikann á því að ná langtum stöðugri og samfelldari árangri í þeirri íþrótt sem stunduð er. Jafnvel yfirburðaárangri og ekki bara til skamms tíma. Heldur langt inn í framtíðina.

Ástæða þess að okkur langar að ræða þetta er að við höfum sjálf upplifað hversu mikilvægur andlegur styrkur er hjá okkur íþróttafólki og hversu vonlaust það er að ná hámarksgetu og líkamlegri hæfni fram ef íþróttafólkið sjálft trúir ekki og treystir á að það búi yfir þeirri hæfni.

Hvernig skilgreinum við andlegan styrk?

Flestir skilgreina andlegan styrk sem hæfnina til þess að ná sífelldum og stöðugum árangri óháð aðstæðum. Hvort sem allt sé á hliðinni í persónulega lífinu, við mætum of seint á mikilvægasta fund ársins eða það er rigning og hávaðarok á meðan við spilum úrslitaleikinn í fótbolta með meiðsli á ökkla – þá búum við yfir andlegum styrk til þess að gera okkar besta og ná fram sama árangri og við næðum við fullkomnar innri og ytri aðstæður. Við stöndum örugg í okkur sjálfum og vitum að þrátt fyrir allt og allt getum við ”performerað” 100% – hvar og hvenær sem er. Við trúum ekki bara á hæfni okkar og getu… við vitum að hún er þarna og ekkert getur breytt því!

Annie Mist mætti á Crossfit leikanna í ár, tæpu ári eftir barnsburð og gerði það sem fæstir trúðu að hún gæti gert. Náði þriðja sæti á leikunum og valtaði hreinlega yfir marga af samkeppendunum sem höfðu líklega mun meiri tíma og strúktúr í þeirra undirbúningi fyrr leikanna en hún gat leyft sér. Hefði hún getað gert þetta án þess ótrúlega mikla andlega styrks sem hún býr yfir? ALDREI!!

Hefðu allir tekið sömu ákvörðun og hún um að keppa vitandi það að undirbúningur okkar væri líklega með talsvert öðrum hætti en annarra keppenda. NEI!

En hún gerði það og sannaði enn og aftur að hún er ótrúlegur íþróttamaður sem býr ekki einungis yfir ótrúlegum líkamlegum hæfileikum og getu, heldur líka mögnuðum andlegum styrk.

Íþróttafólk á borð við Annie Mist myndi aldrei ná þeim árangri sem það nær án gríðarlegs andlegs styrks og hæfni til þess að ná öllum út úr líkamanum við allar mögulegar aðstæður og mótlæti á ögurstundu. Þar er nefnilega ekki á færi allra að  breyta mótvind í meðvind þegar staðan er orðin erfið og við komin óþægilega langt frá þeim markmiðum sem við settum okkur og stefndum á. En það er þá sem það kemur í ljós hversu andlega fær og sterk við erum.

Þegar við skoðum andlegan styrk niður í kjölin skiptir hugarfar okkar öllu máli. Við þurfum að temja okkur hugarfar sigurvegarans alltaf og við allar aðstæður. Einbeitingin og krafturinn þurfa alltaf að vera til staðar og við þurfum að læra að “performera” við allar mögulegar aðstæður. Ekki bara þær sem okkur þykja bestar og við vitum að við erum góð í. Hvort sem álagið er lítið eða mikið, svefn og mataræði hafa verið til fyrirmyndar eða ekki þá þurfum við að kunna að stilla hausinn og hugarfarið inn á við og á þann stað þar sem enginn og ekkert getur komið okkur úr jafnvægi eða í veg fyrir að við setjum 100% orku og ákefð í verkefnið og skiljum ekkert eftir. Þannig stöndum við alltaf uppi sem sigurvegarar, óháð því hvort gull medalían sé um hálsinn á okkur eða ekki.

Hvernig byggjum við upp andlegan styrk?

Þegar andlegur styrkur er byggður upp er mjög mikilvægt að minna sig stöðugt á að við getum ALLTAF talsvert meira en við teljum í upphafi sjálf.

Hindranir okkar og takmörk eru nær alltaf huglæg og byggð upp af okkur sjálfum og okkar eigin hugsunum og hleypidómum. Þegar við upplifum þreytu og viljum helst bara hætta, þá eru það við sjálf sem ákveðum hvort við gerum það eða höldum áfram.

Við eigum alltaf meira inni.

Getum alltaf ýtt okkur lengra.

Aðeins við sjálf erum fær um að umbreyta huglægum hindrunum yfir í líkamlegar takmarkanir. En aðeins við sjálf getum að sama skapi komist yfir þær, haldið áfram og sigrast á okkur sjálfum.

Þegar við svo án þess að vita það eða þurfa að hafa sérstaklega fyrir því erum farin að ýta okkur sjálfum í gegnum glerveggina og huglægu hindranirnar sem við setjum okkur sjálfum og erum farin að treysta því að við eigum alltaf meira inni.

Þá getum við verið viss um að andlegur styrkleiki okkar er að eflast og aukast og við sjálf sem íþróttamenn í leiðinni.

Með góðri kveðju frá Kaupmannahöfn

Biggi og Linda

Á heimasíðu Coach Birgis má finna fjöldann allan af fróðleik, æfingum og leiðum til þess að koma sér á betri stað líkamlega og andlega.

NÝLEGT