Search
Close this search box.
Anna Eiríks: Daglegt líf, morgunrútínan og þjálfun

Anna Eiríks: Daglegt líf, morgunrútínan og þjálfun

Enginn dagur er eins en ég hitti mikið af skemmtilegu fólki á hverjum einasta degi sem gerir vinnudagana svo skemmtilega. 

Hvernig er venjulegur dagur í lífi Önnu? 

Dagarnir mínir eru ótrúlega fjölbreyttir og skemmtilegir. Ég er svo lánsöm að vinna við það sem ég elska en það er að kenna og þjálfa svo ótrúlega margt frábært fólk. Ásamt því að vera deildarstjóri í Hreyfingu og skipuleggja hóptímana, þjálfa nýja kennara, búa til ný námskeið/hóptíma og halda utan um mín eigin námskeið. Enginn dagur er eins en ég hitti mikið af skemmtilegu fólki á hverjum einasta degi sem gerir vinnudagana svo skemmtilega. Eftir vinnu tekur svo heimilislífið við en ég á fjögur yndisleg börn þannig að það er líf og fjör hjá okkur á hverjum degi sem endar oftast í pottinum okkar á kvöldin. En þá slökum við á eftir daginn og spjöllum saman, ég elska þá stund. 

Hvernig er morgunrútínan hjá þér?

Ég er enginn morgunhani, ég viðurkenni það en ég vakna um 7.30, fæ mér hafragraut sem ég geri kvöldinu áður (sjá uppskrift neðst), fer með dóttir mína í leikskólann og kenni svo Eðalþjálfun kl 9.30.

Áttu þér uppáhalds millimál? 

Uppáhaldið mitt er berjamauk sem ég geri úr frosnum berjum og smá möndlumjólk frá Isola og set allskonar ofan á, stundum smá banana, kakónibbur og kókos eða fersk jarðarber/bláber og granóla. Ferskir niðurskornir ávextir klikka heldur aldrei en þar sem ég er oft á hlaupum þá finnst mér gott að fá mér Græna bombu eða annað gott boost, það er ótrúlega hentugt millimál sem gefur mér orku fyrir næsta tíma. 

Æfirðu oft á dag?

Ég kenni 2-3 tíma á dag og æfi því eðlilega ekki mikið sjálf fyrir utan það nema ég hleyp 1-2x í viku með vinkonu minni, það er gæðastund sem ég gæti ekki verið án.

Hver er uppáhalds æfingin þín? 

Úff þetta er erfið spurning því mér finnst margar æfingar svo frábærar en ég er rosa hrifin af því að hafa góða fjölbreytni í æfingum til þess að ná sem bestum árangri, koma líkamanum sífellt á óvart, og fá ekki leið á því sem maður er að gera. Ég er mjög hrifin af æfingum sem keyra púlsinn vel upp eins og burpees, hnébeygjuhopp, fjallaklifur og fleira. Svo er ég sérstaklega hrifin af Barre æfingum sem eru æfingar gerðar við balletstöng, brjálæðislega erfiðar en svo góðar til að styrkja og móta t.d. rass- og lærvöðva. Ég er líka mjög hrifin af samsettum æfingum þar sem unnið er með efri og neðri hluta í sömu æfingunni og svo eru góðar „core“ æfingar algjörlega ómissandi. Ég á sem sagt mikið af uppáhalds æfingum en að mínu mati er fjölbreytnin lykilatriði.

Eru hóparnir sem þú þjálfar mjög ólíkir?

Já og nei, ég kenni námskeið sem heita Eðalþjálfun og er með nokkra þannig hópa en þar fá konurnar mínar fjölbreytta þjálfun, svona brot af því besta að mínu mati. Enginn tími er eins sem skilar sér í frábærum árangri og þær allar svo glaðar alltaf að enginn vill hætta sem er æðislegt. Svo kenni ég Barre Burn námskeið sem ég elska og konurnar líka en það miðar að því að styrkja, tóna og móta líkamann með góðum styrktaræfingum ásamt Barre æfingum við balletstöng. Ég nota fullt af sniðugum áhöldum og enginn tími er eins, sem sagt fjölbreytnin í fyrirrúmi svo hver æfing sé árangursrík og skemmtileg.

Hefur hreyfing alltaf verið þitt helsta áhugamál?

Já frá því ég man eftir mér hefur hreyfing verið stór partur af mér. Ég byrjaði að æfa frjálsar íþróttir 6 ára gömul og hef ekki stoppað síðan. Ég mun hreyfa mig eins lengi og ég mögulega get því heilsan okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum og því afar mikilvægt að rækta hana vel.

Uppskrift af morgunmat Önnu Eiríks 

1 dl tröllahafrar frá Himneskri Hollustu
2 msk chia fræ
1 góð msk vanilluprótein frá NOW
3/4 dl möndlumjólk frá Isola
2 msk grísk jógúrt með vanillu og kókos fra Örnu

Aðferð: Blanda þessu öllu saman í glerkrukku, set eitthvað gott ofaná eins og bláber, hindber, peru, jarðarber eða bara það sem er til. Tilbúið morguninn eftir og ég borða hann kaldan.

Höfundur:  Anna Eiríks / H Talari

NÝLEGT