Arna Stefanía: ,,Það þarf að minna sig á afhverju maður er að þessu“

Arna Stefanía: ,,Það þarf að minna sig á afhverju maður er að þessu“

Ég skynjaði að eitthvað stórt og mikið hafði gerst þó eðli málsins samkvæmt gerði ég mér ekki grein fyrir því á þeirri stundu hvílíkt þrekvirki Vala hafði unnið. Frá sömu Ólympíuleikum man ég líka eftir að hafa horft á Guðrúnu Arnardóttur og Jón Arnar Magnússon keppa. Þetta var eitthvað sem mig stelpuskottið langaði til að gera í framtíðinni. Næsta Öskudag á eftir var ég ekki prinsessa eins og árin áður heldur mætti ég sem Vala Flosadóttir með kústskaft fyrir stöng.

Nú 17 árum síðar lifir draumur minn enn að ná markmiðinu að komast á Ólympíuleika. Þrátt fyrir að ná Ólympíulágmarki síðasta sumar var það aðeins of seint. Ég hef keppt á stórum mótum erlendis oftast í unglingaflokkum Heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum. Ég náði því takmarki að keppa á Evrópumeistaramóti fullorðinna í fyrra (2016). Sú lífsreynsla og ánægja mun ávallt fylgja mér, mikið stress en fyrst og fremst ánægja að ná að uppskera eftir allt erfiði vetrarins. Það var einstakt að ganga inn á völlinn á leiðinni í blokkina með 20.000 áhorfendur á bakvið mig og hlaupa í undanúrslitum á fyrsta stórmótinu mínu í fullorðinsflokki.

Eftir sumarið stóð ég í 18. sæti Evrópulista kvenna, 56. á heimslista kvenna og 5. á Evrópulista undir 23 ára og 2.sæti U22 ára.

Nú í sumar eru margar áskoranir þar ber hæst Evrópumeistaramót U23 og Heimsmeistaramót fullorðinna, landsliðsverkefni og auðvitað keppnir hérna heima með félagsliðinu mínu FH. Markmiðið er að bæta minn persónulega árangur sem og komast sem lengst á Evrópu- og heimslista. Til þess þarf allt að ganga upp sem ég hef fulla trú á, líkaminn þarf að vera í standi og ekki síst andlega hliðin.

Persónulega hef ég upplifað margar gleðistundir í tengslum við mína íþróttaiðkun en sömuleiðis upplifað mikil vonbrigði, leiða og þungar tilfinningar. Það segir sig sjálft að íþróttamaður nær litlum árangri ef um meiðsli er að ræða og hafa allir fullan skilning á því. Ekkert þykir sjálfsagðara en leita til lækna, sjúkraþjálfara og annarra fagaðila. Enn skortir þó almennan skilning á þeirri brýnu þörf sem afreksmenn í íþróttum hafa fyrir andlega aðstoð og uppbyggingu. Ég tel samt að þetta muni taka breytingum næstu ár enda nærðu aldrei hámarksárangri ef að andlega hliðin er ekki í lagi, t.d. leiði og lítið sjálfstraust.

Fyrir íþróttamann er að það ná settum árangri eitthvað sem erfitt er að lýsa. Að baki liggja þrotlausar æfingar oft á tíðum vonbrigði jafnt sem gleði, fórnir en umfram allt ánægja. Þetta á við um alla íþróttamenn sama hvaða íþróttagrein þeir stunda. Vonbrigðin geta oft verið mikil og getur verið erfitt að eiga við þær tilfinningar sem að blossa upp þegar að settum markmiðum hefur ekki verið náð. Þá þarf að minna sig á afhverju maður er að þessu og rifjast þá upp fyrir manni gleðin sem verður þegar að markmiðinu er loksins náð. Eins og allir vita er ekki hægt að bæta sig endalaust það koma tímabil þar sem allt gengur vel en svo koma einnig tímabil þar sem erfitt er að ná settum markmiðum. Því finnst mér mikilvægt að minna sig alltaf á hversu gaman það er þegar að uppskeran kemur, því hún kemur alltaf að lokum eftir þrotlausa vinnu.

Íþróttaiðkun á að vera öllum börnum og ungmennum aðgengileg óháð hæfileikum og efnahag.

Höfundur: Arna Stefanía Guðmundsdóttir

NÝLEGT