Search
Close this search box.
Árni Björn: CrossFit og þjálfun

Árni Björn: CrossFit og þjálfun

Til þess að komast inn á Heimsleikana þarf fyrst að taka þátt í The CrossFit Open sem er undankeppni fyrir „regionals“ sem er svæðamót. Inn á svæðamótin komast annað hvort topp 20 eða topp 30 (fer eftir stærð svæðis) einstaklingarnir úr The Open. 

Evrópa er með sérstaklega sterkt svæðismót en mér tókst samt sem áður að lenda í 5. sæti í The Open og hef tryggt mér áframhaldandi keppnisrétt. Ég mun því keppa á Meridian Regionals í byrjun júní en þar koma saman topp 30 úr Evrópu og topp 10 frá Ameríku. Þar munu síðan topp 5 keppendurnir komast áfram á heimsleikana. Markmiðið mitt er að vera einn af þessum topp 5 keppendum. 

Dagur í mínu lífi

Ég vakna yfirleitt klukkan 5:00 og borða morgunmat. Það er mjög misjafnt hvað ég borða en ég passa ávalt uppá hlutföllin milli kolvetna, próteins og fitu í öllum máltíðum. Algengast er að ég borða annað hvort ristað brauð með hnetusmjöri og sultu ásamt próteindrykk eða hafragraut með hnetusmjöri og próteindufti. Þannig tryggi ég að ég fái kolvetni, prótein og fitu og hafi því orku fyrir fyrri æfingu dagsins. 

Ég kenni CrossFit tíma milli 6:00 og 7:00. Eftir það tek ég yfirleitt æfingu frá 7:00 til 10:00. Venjuleg CrossFit æfing hjá mér er yfirleitt 2 til 3 tímar en ég er þó ekki á fullu allan tímann. Æfingin byrjar á 20-40 mín af upphitun og liðkunar æfingum. Því betri sem upphitunin er því betri verður æfingin. Eftir það er yfirleitt einhver styrktaræfing t.d. hnébeygjusett, réttstöðulyfta eða ólympískar lyftingar. Eftir styrktaræfingarnar fer ég í einhvers konar þolþjálfun, það geta verið styttri sprengikraftsæfingar sem eru frá 3-8 mín eða lengri þolæfingar sem eru yfirleitt max 20-25 mínútur. Æfingin endar síðan yfirleitt á einhverskonar „cool down“ sem getur verið létt hjól, skokk eða teygjur. 

Í hádeginu er ég síðan annað hvort að þjálfa CrossFit og ef ég er ekki að þjálfa reyni ég að komast í einhverskonar meðhöndlun t.d. nudd eða sjúkraþjálfun og fer síðan með hundinn minn í göngutúr sem er frábær leið til að ná sér niður eftir erfiða æfingu. 

Eftir hádegi reyni ég síðan alltaf að ná annarri æfingu sem er yfirleitt styttri. Seinni æfing dagsins er oftast í kringum 90 mínútur, ég eyði ekki eins miklum tíma í upphitun því maður er töluvert fljótari í gang eftir að hafa æft um morguninn. Seinni æfingin er svipuð fyrri æfingunni, hún byrjar annað hvort á styrktarþjálfun eða tækniæfingu þar sem ég vinn í fimleikum en það er minn helsti veikleiki og því þarf ég að gefa mér góðan tíma til að vinna í því. Ég enda síðan æfinguna á einhverskonar þolþjálfun eða intervali þar sem ég vinn og hvíli til skiptis. 

Inn á milli æfinga nýti ég tímann eins og ég get til þess að sinna daglegum rekstrarstörfum í stöðinni. Á daginn borða ég ekki mikið þó ég reyni alltaf að ná 2-3 litlum máltíðum. Ég reyni að borða góðan morgunmat og góðan kvöldmat, oft hefur maður ekki mikla matarlyst stuttu eftir æfingar. 

Sum kvöld er ég að kenna fleiri tíma og er þá yfirleitt til 18:30 eða 20:30. Ef ég er ekki að kenna á kvöldin þá reyni ég að njóta kvöldsins með dóttir minni og eiginkonu og reyni þá að slaka á eins og ég get og taka hugann af æfingum. 

Ég reyni að fara aldrei seinna að sofa en klukkan 22:00 því ég vill helst ná 8-9 tímum af svefni. Svefninn er örugglega það mikilvægasta í allri minni rútínu. Því meiri svefn sem maður fær því betri verður endurheimtin og hægt er að taka betur á því daginn eftir. 

Svona er hefðbundinn dagur í mínu lífi. Ég æfi svona fimm daga vikunnar tek einn léttan dag og síðan einn dag þar sem ég reyni að gera sem allra minnst en það eru yfirleitt sunnudagar. Þá reyni ég að hlaða batteríin fyrir átök komandi viku. 

 

Höfundur: Árni Björn Kristjánsson

NÝLEGT