Framan af pældi ég lítið í mataræði, borðaði það sem til var heima og það sem mamma mín eldaði. Á unglingsárunum, þegar sjálfstæðið var orðið meira, færði ég mig yfir í skyndibitann. Pizzur og hamborgarar urðu oft fyrir valinu. Á sama tíma var ég mjög virkur, stundaði knattspyrnu af miklum krafti þar sem mér gekk vel og var farinn að spila sem fastamaður í meistaraflokki 19 ára. Aldrei skipti neinu máli hvað ég lét ofan í mig, ég var alltaf í 4-6 % í fitu og í hörku formi. Af þeim sökum var aldrei nein ástæða til þess að endurskoða lífsstílinn.
Ég viðurkenndi í raun ekki þreytuna fyrir sjálfum mér.
Auðvelt er að sjá að svona lífsstíll gengur ekki upp til lengdar og sá dagur kom að ég lenti á vegg. Einn daginn kom gríðarleg langtíma þreyta yfir mig, svo mikil að ég gat varla farið fram úr rúminu. Ég gat varla labbað upp stiga án þess að fá mjólkursýru í lærin sem jafnaðist á við erfiða æfingu. Ég þorði ekki að segja neinum frá þessu, hvorki þjálfara mínum né fjölskyldu. Ég taldi að þreyta væri ekki viðurkennd sem “meiðsli” og var hræddur við hugsanleg viðbrögð annarra. Ég viðurkenndi í raun ekki þreytuna fyrir sjálfum mér. Þessir samverkandi þættir leiddu til þess að þetta þreytu tímabil stóð mun lengur yfir en það hefði þurft að gera.
Þessi litlu skref urðu til þess að mataræði mitt gjörbreyttist til hins betra á tiltölulega stuttum tíma.
Ég staulaðist áfram með hjálp orkudrykkja og gaf skrokknum aldrei þá hvíld sem hann þurfti á að halda. Svona gekk þetta áfram í dágóðan tíma, en til að gera langa sögu stutta varð þetta til þess að ég fór að íhuga breyttan á lífsstíl, allt frá mataræði og æfingum yfir í andlega þáttinn. Ég tók (og er enn að taka) mörg skref í átt að heilsusamlegri lífsstíl. Ég byrjaði einfalt, hætti að drekka gos og borða nammi. Færði mig svo yfir í hræring (e. smoothie) á morgnana, til þess að auka neyslu mína á grænmeti og ávöxtum á einfaldan hátt. Næst lagði ég áherslu á að borða heilnæman mat eins nálægt uppruna sínum og ég gat. Þessi litlu skref urðu til þess að mataræði mitt gjörbreyttist til hins betra á tiltölulega stuttum tíma. Aðalbreytingin var samt sem áður sú að loksins var ég orðinn meðvitaður um lífsstílinn minn og farinn að taka ákvarðanir með heilsu mína í huga.
Flækjustigið getur virst mikið í þessum “heilsu”geira en það er um að gera að taka þessu ekki of alvarlega.
Í dag reyni ég að borða eins hollt og hægt er eins oft og hægt er, það þarf ekkert að vera flóknara en það. Ég forðast að setja mig í ákveðinn mataræðisflokk eins og vegan, low carb eða paleo svo eitthvað sé nefnt. Ég legg frekar áherslu á að borða hollan mat. Mikið af grænmeti og sérstaklega allt grænt, ávexti, baunir og fræ, hreint kjöt við og við og stundum egg. Ég forðast unninn sykur, unna kjötvöru og unna matvöru almennt, þó það komi fyrir að ég fái mér nammi eða dett í sveittan borgara. Þetta mataræði, sem hefur engan sérstakan stimpil, hefur reynst mér ansi vel. Ég reyni að finna jafnvægi og borða fjölbreytt. Flækjustigið getur virst mikið í þessum “heilsu”geira en það er um að gera að taka þessu ekki of alvarlega. Flestir vita í meginatriðum hvað er hollt og hvað er óhollt. Borðum mikið af þessu holla og lítið af þessu óholla, flóknara er það ekki.
Höfundur: Arnór Sveinn Aðalsteinsson