Ása Steinars er með ferðabakteríuna

Ása Steinars er með ferðabakteríuna

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér.

Ég er rótlaus týpa, búsett í miðbæ Reykjavíkur, sem er örlítið húkt á ljósmyndun, fjallgöngum, köfun og útivist. Ég sækist mikið í ferðalög og upplifanir, en elska ekki síður að veita öðrum innblástur til þess að gera slíkt hið sama.

Eftir menntaskóla lá leiðin beint í Háskólann í Reykjavík þar sem ég lauk nýlega B.Sc. í tölvunarfræði ofan á fyrri B.Sc. gráðu í verkfræði. Meðfram háskólanámi nýtti ég öll tækifæri til að búa erlendis eða að ferðast. Þar á meðal starfaði ég sem fararstjóri í Tyrklandi og hótelum erlendis.

IMG_5163

Árið 2015 fór ég síðan í 14 mánaða bakpokaferðalag um Asíu en síðan þá hef ég krossað út 52 lönd af heimslistanum. Meðfram því opnaði ég ferðablogg sem heitir From Ice To Spice, þar sem ég fæ reglulega útrás með því að deila ljósmyndum og ferðasögum.

Í dag starfa ég fyrir SAHARA sem sérhæfir sig í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Þar snýst margt um efnissköpun, ljósmyndun og dagarnir eru afar fjölbreyttir sem gerir þetta að draumadjobbinu fyrir mig! Auk þess skrifa ég pistla á króm.is og er í hlutastarfi hjá Guide To Iceland sem er leiðandi ferðafyrirtæki hérlendis.

16906538_1810571622542223_7259114004394541056_n

16230657_208738586262549_963092041842032640_n

Hvaðan kemur ferðaáhuginn?

Það er líklegast úr æsku, en ég er fædd og uppalin í Noregi þar sem fjölskyldan mín bjó en við fluttum heim til Íslands þegar ég var 8 ára gömul. Æskuminningar mínar frá Noregi lifðu sterkt í mér og einungis 16 ára gömul fluttist ég til Norðurlandanna í leit að sumarvinnu. Á þeim tíma kviknaði ferðabakterían af alvöru og fóru næstu 4 sumur af menntaskólaárunum í vinnu á hótelum hér og þar í Noregi. Síðan voru allar glufur nýttar í að leigja bíl til að keyra á milli landa í Evrópu.

Auk þess er ég einstaklega heppin að eiga foreldra sem eru miklir heimsborgarar. Móðir mín hefur verið í ferðabransanum síðan hún var 17 ára gömul og tókst aldeilis að smita mig af ferðabakteríunni. Alveg frá því að ég var lítil hafa þau þvælst með mig um allan heim og kennt mér að meta það sem önnur lönd hafa upp á að bjóða. Þau fóru með mig upp í sveitir Portúgals, í skíðaferðir í Ölpunum og köfunarferðir á Krít. Þetta hefur að sjálfsögðu mótað mig og mín áhugamál í dag.

16789951_1794912064166271_8769951639336386560_n

16906328_1644205105887016_3429004895879954432_n

Uppáhalds landið?

Úff, það er ótrúlega erfitt að velja eitt! En ætli ég yrði þá ekki að segja Japan. Það er ekkert sem kemst í líkingu við fegurðina, menninguna, tæknina og furðulegheitin. Þar á eftir koma Óman, Filippseyjar og Mongólía.

IMG_5335

IMG_2458

Uppáhalds staðir?

Filippseyjar: allar litlu eyjurnar, kóralrifin og hvítu strendurnar.
Albanía: háu fjöllin og litlu krúttlegu fjallaþorpin.
Íran: menningarsjokkið, eyðimerkurnar og heimafólkið.

Hvernig hófst ferill þinn sem ferðabloggari?

Ég opnaði ferðabloggið fyrir 2 árum síðan áður en ég fór í reisuna, þrátt fyrir að hugmyndin að blogginu hafi verið til staðar í mörg ár. Eftir það hefur bloggið farið fram úr öllum væntingum og opnað tækifæri sem mér hefði aldrei dottið í hug.

IMG_7593

Nepal-455

Hefur Instagram tekið við af bloggum að þínu mati eða er það jafnmikilvægt?

Instagram er klárlega einn af mínum uppáhalds samfélagsmiðlum því hann er svo einfaldur. Þar gengur allt út á fallegar ljósmyndir sem segja skemmtilega sögu og gefa fólki innlit í líf annarra. Ég myndi samt ekki segja að hann taki við af blogginu því þetta er að mörgu leyti tvennt ólíkt. Margir uppgötva bloggið mitt í gegnum myndirnar á Instagram en inni á blogginu erum við einnig með greinagóðar upplýsingar og ítarlegar sögur frá ferðalögunum.

Nepal-2

Geturu sagt okkur frá nýlegasta ferðalagi þínu?

Síðasta ferðalagið var nýlega þegar ég fór í heimsókn til Tyrklands og þaðan í rúmlega mánaðar Austur-Evrópureisu. Þá heimsótti ég lönd á borð við Ungverjaland, Króatíu, Albaníu, Svartfjallaland og Serbíu. Þessi partur af Evrópu kom virkilega skemmtilega á óvart. Matur og samgöngur eru ódýrar og bjórinn á hlægilegu verði. Austur-Evrópa hefur ákveðinn sjarma og þar að auki sleppur þú við straum ferðamanna og háu verðin sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Það er án efa synd að fleiri ferðist ekki um þetta svæði.

Hver er áhugaverðasta lífsreynsla sem þú hefur lent í á ferðalagi þínu?

Þau hafa verið nokkur, en mögulega þegar ég þurfti að vera á hestbaki í Mongólíu í tvo daga til þess að komast að hreindýraættbálki sem býr við landamæri Rússlands. Persónulega hef ég ekki mikla reynslu af hestamennsku en þarna þurfti ég að sitja á baki í 8 klukkustundir á dag. Auk þess var reglulega stoppað til þess að drekka vodka. Maður hossaðist síðan upp fjöll í gegnum skóga í grenjandi rigningu og eldingaveðri. Það hjálpaði ekki að leiðsögumaðurinn minn var búinn með ansi mörg vodakaskotin. Á leiðinni upp eitt fjallið þá hellirigndi og eldingum sló niður allstaðar í kringum okkur. Hesturinn minn hræðist svo mikið við það að hann hendir mér af baki og hleypur í burtu. Leiðsögumaðurinn eltir hann á sínum hesti og skilur mig ásamt nokkrum öðrum eftir standandi blaut og köld í óbyggðunum. Það var farið að nálgast kvöld og farið að dimma ansi hratt. Þarna voru varirnar orðnar bláar og við vorum farin að finna leiðir til að reyna að halda á okkur hita. Á þessum tímapunkti hvarflaði að okkur að þetta gætu orðið endalokin. Sem betur fer sneri leiðsögumaðurinn aftur og í myrkrinu komumst við í búðirnar þar sem við gátum hlýjað okkur við eldinn.

Næst á eftir var það að kafa með hákörlum í Filipseyjum.

2--1-

IMG_8918

IMG_1909-1

Hver er draumáfangastaðurinn?

Það sem er á listanum núna er klárlega Afríka, draumurinn er að fara til Namibíu í safari og fikra mig niður í átt að Cape Town. Það hryggir mann hvað heimurinn er að breytast hratt með hlýnandi loftslagi og margar dýrategundir að deyja út. Því langar mig að ferðast um þessi lönd áður en það er of seint. Þar á eftir er það Burning Man hátíðin í bandaríkjunum og Yacht Week í Grikklandi. Næst á dagskrá er bara að finna tíma fyrir þetta allt saman!

Hvaða leyndu perlum mælir þú með að skoða á íslandi?

Það er alltaf erfitt að gefa upp leyndu perlurnar sína! En ég myndi mæla með að ganga Valhnúk í Þórsmörk við sólarupprás og einnig synda í Krossneslaug á Vestfjörðum um hábjarta sumarnótt. Þetta er einfaldlega toppurinn!

Höfundur: Ása Steinarsdóttir / H Talari

NÝLEGT