Ásdís Grasa: Mín leið að hreinni og heilbrigðari húð

Ásdís Grasa: Mín leið að hreinni og heilbrigðari húð

Húðin er stærsta líffærið okkar og við þurfum að huga vel að húðinni til að halda henni í jafnvægi. Húðvandamál geta verið ansi hvimleið en sjálf glímdi ég við erfiða húð í mörg ár hér áður fyrr en ég fékk svokallaðar fullorðins unglingabólur (e. adult acne) löngu eftir tvítugt eftir að ég fór að eiga börnin mín og átti við það í mörg ár og ekki svo langt síðan að húðin mín komst í gott jafnvægi.

Ég á það til að fá einstaka stinnum litla bólu eins og gengur ef ég hef leyft mér aðeins meir í mataræðinu og stundum ef ég er að ferðast og borða mikið á veitingastöðum en heilt yfir þá er húðin bara býsna góð miðað við það sem áður var. Þetta hafði alveg mikil áhrif á mig tilfinningalega þar sem ég leið oft fyrir það hvernig húðin mín leit út og fannst ég alltaf vera með einhver lýti í andlitinu því bæði var ég með rauðar aumar bólur og ljót ör eftir bólurnar sem voru mjög lengi að fara.

Ég hef sennilega prófað allt undir sólinni sem á að vinna gegn bólum eins og flestir gera sem eiga við þetta vandamál, maður fellur fyrir næsta gylli tilboði á bólukremi eða vöru sem á að laga húðina í von um að næsta krem geri kraftaverk á húðinni.

Þegar öllu er hins vegar á botninn hvolft þá þarf að vinna með húðvandamál innan frá og þau stafa yfirleitt vegna ójafnvægis í líkamanum eins og t.a.m. út frá þáttum eins og mataræði, skorti á mikilvægum næringarefnum, hormónaójafnvægi, blóðsykursójafnvægi, raskaðri þarmaflóru, o.fl.

Streita, álag og áföll hafa einnig vissulega sitt að segja og auðvitað skipta grunnþættir eins og góður svefn og hreyfing miklu máli í heildarmyndinni upp á ná bata með húðina. Ég ákvað að fara náttúrulegar leiðir í að vinna með mitt húðvandamál og hér deili ég með ykkur hvað virkaði á mig og hvað ég hef gert undanfarið og síðustu ár til að halda húð minni í jafnvægi.

Húðvænt mataræði

Þetta er einn stærsti þátturinn í því hvernig ástandi húðin okkar er og sama hvað hver segir þá er það vitað mál að fæðan sem við borðum getur haft mikil áhrif á húðina til hins betra eða verra. Það sem ég myndi leggja höfuð áherslu á er að hafa mikið magn af öllu grænmeti sem undirstöðu í mataræðinu en þar fáum við mikilvæg næringarefni fyrir húðina en ég nota mikið af grænu laufgrænmeti ásamt öðru grænmeti og reyni að velja alltaf lífrænt eins og best get.

Einnig er gott að halda sig við sætuminni ávexti sem hækka ekki blóðsykur um of. Annað sem skiptir máli er að draga úr brösuðum, steiktum mat sem hefur verið steiktur upp úr lélegum matarolíum s.s. transfitum og hertum grænmetisolíum í plastbrúsum og velja einungis hágæða lífrænar olíur í dökku gleri sem næra húðina eins og lífræna ólfíuolíu, avókadó olíu, hamp olíu eða hörfræolíu.

Þetta atriði varðandi hvaða olíur ég er að velja ofan í mig hefur skipt sköpum fyrir mína húð. Borða svo eins fjölbreytt og við getum og nota fræ, hnetur, baunir, fisk, hreint kjöt, kjúkling og fisk í allri sinni mynd eftir hvað hentar manni. Mjólkurvörur, egg og glútein geta verið á gráu svæði fyrir suma hvað varðar húðina og reynsluvísindin hafa sýnt fram á að það eru tengsl þarna á milli og að þessar fæðutegundir geti ýtt undir bólgusvörun í húðinni hjá sumum, ég hef orðið var við þetta hjá kúnnunum mínum sem glíma við bólur og önnur húðvandamál.

Margir virðast þó þola geitaosta vel í staðinn og sjálf nota ég hann eingöngu. Þegar á gera vel við sig þá er hægt að nota lífrænt dökkt súkkulaði 80% eða hærra kakóinnihald til að forðast miklar sveiflur á blóðsykur. Vökva svo líkamann vel og drekka vel af vatni, grænu te og jurtate, góðu gæðakaffi í hófi ef vill og sódavatni.

Eins er gott að prófa að fasta í 12-14 klst á sólarhring en það hefur reynst mér vel og ég gert það í nokkur ár. Mjög mikilvægt fyrir húðina er að halda í lágmarki unnum og hvítum kolvetnum eins og sykri, hveiti, pasta, hvítum grjónum, bakkelsi, sætindum og gosi þar sem slík fæða er bólgumyndandi og hækkar hratt blóðsykur.

Við inntöku á sykri og umfram kolvetnum þá verður hækkun á insúlíni í blóði sem getur leitt af sér hækkun á karlhormóninu testósteróni. Testósterón eykur svo fituframleiðslu í húðkirtlum sem getur stíflað fitukirtlana og valdið myndun á bólgum og bólum í húðinni. Þetta er í raun mun flóknara líffræðilegt ferli en svona er þetta í grófum dráttum. Sykur ® insúlin ® testósterón ® bólur.

Bætiefni fyrir húðina – sem hafa gagnast mér

Þetta eru þau bætiefni sem ég hef verið að nota undanfarna mánuði og finn verulegan mun á húðinni fyrir vikið til hins betra. Það er eitthvað í samsetningu þessara bætiefna sem virkar vel á mig. Önnur grunn bætiefni sem ég tek öllu jafna eru omega 3, D vítamín og tarnir af og til á fjölvítamíni fyrir konur ef mér finnst þess þurfa.

Hair, skin and nails og Full spectrum minerals

Hair, skin and nails er blanda af næringarefnum og viðgerðarefnum sem eru sérstaklega fyrir húð, hár og neglur. Full spectrum minerals er vel samsett steinefnablanda en margir eru lágir í ýmsum steinefnum og ég hef fundið ákveðið jafnvægi í líkamanum eftir að ég fór að taka inn steinefni. Það er töluvert af sínki, A vítamíni og fleiri næringarefnum í þessum blöndum sem eru talin gagnleg fyrir ýmsa húðkvilla. Ég hef blandað þessum tveim blöndum saman og dreifi þeim yfir daginn og tek þau 2x þannig að ég tek þau inn á morgnana og í hádeginu í stað þess að taka fullan skammt af þeim báðum í einu á morgnana, mun betur að mínu mati að dreifa skammtinum og áhrifunum á líkamann yfir daginn.

Chromium picolinate og sykurlöngun

Hreint króm tek ég inn dagana rétt fyrir blæðingar og meðan ég er að byrja á blæðingum til að halda blóðsykri í jafnvægi (og þar með insúlinjafnvægi) og til að minnka sykurlöngun því löngun í sætindi vill oft aukast hjá okkur konum á þessum tíma mánaðarins. Það getur líka verið gagnlegt að taka króm í kringum egglos (miðjan tíðahring) og eða jafnvel í nokkrar vikur daglega fyrir þá sem hafa verið í óhóflegri inntöku á sykri og kolvetnum og ef grunur um undirliggjandi blóðsykursójafnvægi (insúlínóþol). Gott er t.d. að taka króm með hádegismatnum og eða seinnipartinn á þeim tíma þegar sykurlöngunin vill stundum gera vart við sig.

Nettlu te, piparmyntu te og húðvænar jurtir

Jurtir geta gert stórundur fyrir húðina og ég hef notað ýmis jurtalyf fyrir húðina mína og þá helst jurtir sem eru húðhreinsandi eins og brenninettla, piparmynta sem lækkar blóðsykur og aðrar jurtir sem stuðla að betra hormónajafnvægi eins og morgunfrú, kínversk hvönn, lakkrísrót o.fl. Í hverjum tebolla eru heilsueflandi efni fyrir líkamann og húðina, mín mantra er meira jurtate og minna kaffi þegar kemur að húðinni.

Kollagen prótein og C vítamín fyrir heilbrigða húð

Ég hef notað kollagen reglulega síðan ég lenti í skíðaslysi fyrir 2 árum síðan og finn að það hefur gert stoðkerfinu mínu gott en þess utan hefur það haft góð áhrif á húðina. Það er hins vegar mikilvægt að taka C vítamín samhliða kollageni til að auka upptöku og frásog þess í meltingarvegi. Kollagen er uppbyggingarefni fyrir bandvefi líkamans og þar með talið húðina og mikilvægt efni til að viðhalda heilbrigðri húð.

Þarmaflóran, góðgerlar og góð melting

Það er margir sammála um að flestir sjúkdómar eiga upptök sín í þörmunum og að þarmaflóra í jafnvægi sé afar mikilvæg undirstaða fyrir heilsu okkar almennt. Húðin er þar engin undantekning og í raun ættum við að byrja á því að fókusera í að leiðrétta þarmaflóruna þegar kemur að flestum húðvandamálum en það er lykilatriði þegar kemur að því að ná bata. Einnig er mikilvægt að við séum með góða meltingu og að við skilum frá okkur hægðum daglega en með því losum við úrgangsefni úr líkamanum sem er undirstaða fyrir hreinni húð. Margir eru með hægðatregðu, leka þarma og meltingarvandamál sem getur haft neikvæð áhrif á húðina (e. gut-skin-axis) en þessi tengsl meltingar, þarmaflóru og húðkvilla hef ég margoft orðið vitni að hjá mínum kúnnum. Ég hef sjálf verið að nota Probiotic 25 billion góðgerla síðustu mánuði til skiptis á móti Women‘sprobiotic góðgerlum til þess að bústa upp þarmaflóruna en gott er að rótera tegundum af góðgerlum með reglulegu millibili til þess að byggja upp fjölbreytta stofna í þarmaflórunni. Einnig hef ég notað L-glútamín duft út í morgunsjeikinn minn af og til til að vinna á lekum þarmavegg en það er mikilvægur þáttur í að laga undirliggjandi ójafnvægi í meltingarvegi.

Lífrænar hreinar snyrtivörur fyrir húðina

Ég er orðin mun meðvitaðri hvaða vörur ég set á húðina og er búin að skipta eingöngu yfir í lífrænar húð- og snyrtivörur sem mér finnst stórt og vænlegt skref fyrir mig sjálfa og umhverfið. Fyrstu árin þá notaði ég sterk efni á húðina sem áttu að laga hana en í raun gerðu þau hana mun verri og röskuðu náttúrulegu jafnvægi hennar, þeim mun minna sem ég notaði af svona sterkum ætandi vörum þeim mun betri varð húð mín.

Magnið af toxískum efnum sem verið er að nota í snyrtivörugeiranum er gríðarlegt og mörg þessara efna geta verið okkur skaðleg. Lífrænt er framtíðin og grænar snyrtivörur eru komnar til að vera enda mun betri gæði og innihalda efni sem næra og byggja upp húðina.

Ég hef verið að notað vörur úr Inika Organics snyrtivörulínunni og ég nota BB kremið, sólarpúðrið, augnblýant, maskara og varaglossið frá þeim nánast daglega og finn mikinn mun eftir að ég skipti yfir í svona húðvænni og hreinni vörur sem erta ekki húðina mína heldur næra hana með náttúrulegum virkum efnum og góðum húðolíum. Rosehip olían frá Inika Organics er lúxus andlitsolía sem er mjög rík af andoxunarefnum og nærir húðina án þess að stífla hana (sem sumar olíur geta gert). Ég nota Rosehip olíuna 3-5x í viku á kvöldin í kringum augu, yfir andlit og háls og mér finnst húðin mín ljóma af henni á eftir.

Ég vona að þessi ráð nýtist ykkur að einhverju leyti og hafa ber í huga að hver og einn þarf að finna sína bataleið og leita sér ráða hjá fagaðila ef þess þarf til að vinna markvisst með þetta og stundum getur vissulega verið þörf á að notast við lyf og aðrar hefðbundnar meðferðir. Mataræðið og lífsvenjur hafa svo mikið vægi og eru í raun besta meðferðin.

Ásdís grasalæknir

www.facebook.com/grasalaeknir.is

www.instagram.com/asdisgrasa

www.grasalaeknir.is

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

NÝLEGT