Ég fór í kjölfarið aðeins að skoða mig um á netinu því ég er oftar að vakna snemma á morgnana núna. Ég fann nokkur ráð sem að hjálpuðu mér tveimur dögum síðar þegar ég þurfti að endurtaka leikinn. Ég var mun afslappaðari, átti auðveldara með að sofna og svaf betur.
Vertu búin/n að leggja þig kl. 15:00
Reyndu helst að sleppa lögninni en ef þú þarft að leggja þig vertu búin/n að því kl. 15:00.
Vertu búin/n að æfa 3 klst. fyrir svefn
Hreyfing hækkar líkamshitann sem getur orðið til þess að þú átt erfitt með að sofna.
Takmarkaðu vökvainntöku 1-2 klst. fyrir svefn
Ekki fara þyrst/ur að sofa en reyndu að forðast mikla vökvainntöku því annars gætir þú vaknað um nóttina og þurft að fara á klósettið. Þetta þarf ég sérstaklega að passa. Ég held í alvöru að ég sé með minnstu pissublöðru í Evrópu og ef ég drekk mikið á kvöldin truflar það mig mikið.
Burt með símann/tölvu/spjaldtölvu/sjónvarp 1 klst. fyrir svefn
Skjárinn gefur frá sér blátt ljós sem stoppar framleiðslu melatóníns, sem er svefnhormónið í líkamanum. En það er líka hægt að vera með næturstillingu sem dekkir skjáinn. Slepptu því líka að vera með þessar græjur uppí rúmi, horfðu frekar á sjónvarpið frammi í sófa – því lengur sem þú ert vakandi í rúminu því erfiðara er fyrir líkamann að sipta yfir í „svefn-mode“.
Búðu þér til svefnrútínu / afslöppunarrútínu
Hún gæti t.d. verið að kveikja á kerti og lesa góða bók 30 mínútum fyrir svefn, fara í heitt bað eða hlusta á rólega tónlist. Mér finnst gott að lesa, þó það séu ekki nema 2-3 blaðsíður.
Farðu að sofa á venjulegum tíma
Ekki rembast við að fara að sofa miklu fyrr en þú gerir vanalega, nema þú eigir auðvelt með það.