Search
Close this search box.
Axlaðu eins mikla ábyrgð og þú getur borið

Axlaðu eins mikla ábyrgð og þú getur borið

Höfundur: Beggi Ólafs

Það sem maður getur orðið, verður hann að vera: Abraham Maslow

VISSIR ÞÚ AÐ 71% FÓLKS DEYR af völdum lífsstílssjúkdóma (e. non- communicable diseases), eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameins, öndunarfærasjúkdóma og sykursýki? Fjörutíu og ein milljón manns ár hvert. Af þeim deyja fimmtán milljónir ótímabærum dauða á aldursbilinu 30 til 69 ára. Þessir sjúkdómar eru krónískir og vara yfirleitt í langan tíma.

Við lifum mikið lengur en fyrri kynslóðir en það þýðir ekki endilega að við lifum heilsusamlegra lífi. Við erum í rauninni að lifa lengur en deyja hægar. Gæði áranna sem hafa bæst við líf okkar eru oft á tíðum ekki mikil. Þessir lífsstílssjúkdómar eiga sér rætur í flóknu samspili erfða, umhverfis og lífeðlisfræðilegra og atferlistengdra þátta. Fátækt virðist haldast sterklega í hendur við þessa sjúkdóma. Berskjaldaðir og bágstaddir einstaklingar verða veikari og deyja fyrr en þeir sem betur eru settir í samfélaginu, sérstaklega vegna þess að þeir eru líklegri til að vera varnarlausir gagnvart skaðlegum hlutum, eins og tóbaki og óhollu mataræði og hafa um leið takmarkaðri aðgang að heilbrigðisþjónustu. Burtséð frá fátækt eru aðrir stórir þættir sem hafa mikil áhrif á hvort þú þróar með þér lífsstílsjúkdóma eða ekki. Óheilbrigt mataræði, hreyfingarleysi, reykingar og óhófleg áfengisneysla ýta undir líkurnar á þessum lífsstílsjúkdómum.

Þetta eru allt áhættuþættir sem hægt er að draga úr og þess vegna er talið að hægt sé að koma í veg fyrir megnið af þessum lífstílssjúkdómum. Það verkefni er því að stórum hluta til á ábyrgð einstaklingsins og ég tel að margir geti axlað meiri ábyrgð á sjálfum sér, tamið sér betri lífsstíl og minnkað þannig líkurnar á að þróa með sér þessa sjúkdóma. Sem dæmi hefur offita þrefaldast frá árinu 1975. Það er fleira fólk of feitt í heiminum en fólk sem er vannært. Hvort sem það er sorgleg staðreynd eða kaldhæðnisleg mælieining á hvað við höfum það gott í dag. Þrátt fyrir allt finnst mér það gefa til kynna að við séum ekki að axla nógu mikla ábyrgð á okkur sjálfum.

Þú getur ekki stjórnað því alfarið hvort þú þróar með þér lífsstílssjúkdóma. Sama hversu heilsuhraustur þú ert geturðu ekki útilokað að þeir muni hrjá þig. Þú ert takmörkuð mannvera og getur ekki stjórnað því hvenær eða hvernig þú deyrð. Ég gæti látið lífið við að drekka kaffið sem ég er að fá mér núna, lent í bílslysi á leiðinni heim eða ekki vaknað aftur eftir að ég sofna í kvöld.

Flestir hafa heyrt um konuna sem fékk sér eina sígarettu og eitt sérríglas fyrir svefninn og samt varð hún hundrað ára. Hún telst samt undantekning frá reglunni fremur en reglan sjálf. Það sem við getum stjórnað er hvernig við kjósum að lifa, frá degi til dags, augnablik fyrir augnablik, hér og nú.

Ég veit ekki með þig en ég ætla að eiga eins góð ár og ég get þegar ég eldist. Ég ætla að vera afi á áttræðisaldri með fulla orku eltandi barnabörnin mín. Hvort mér tekst að verða frískur þegar ég er orðinn eldri fer mikið eftir því hvernig ég haga lífi mínu í dag.

Beggi Ólafs

Kafli tekinn úr bók Begga 10 skref í átt að innihaldsríkara lífi

NÝLEGT