Bakverkir og orsakir þeirra – hvað ber að gera?

Bakverkir og orsakir þeirra – hvað ber að gera?

Bakverkir eru mjög algengir og valda mikilli vanlíðan, en til allrar hamingju eru alvarleg bakvandamál sjaldgæf. Í dag vitum við meira um vandamálið en áður. Byltingarkenndar breytingar hafa orðið á því hvernig við hugum að bakmeðferð og við nálgumst vandamálið á allt annan veg en áður var.

Það sem maður gerir sjálfur við bakverkjunum er venjulega mikilvægara en nákvæm sjúkdómsgreining og meðferð. Bakverkjakast getur verið kvíðvænlegt. Jafnvel minni háttar baktognun getur verið mjög sár og það er eðlilegt að manni detti í hug að eitthvað skelfilegt sé á seyði. Staldraðu við og horfðu á staðreyndir:

  • Bakverkir stafa oftast ekki af neinum alvarlegum sjúkdómi.
  • Bráður sársauki lagast oftast á nokkrum dögum eða vikum, a.m.k. nægjanlega til að fólk geti lifað eðlilegu lífi. Horfur til lengri tíma eru góðar.
  • Stundum geta sársauki og verkir varað í lengri tíma. Það þarf þó ekki að þýða að neitt alvarlegt sé á ferðinni. Verkirnir lagast yfirleitt smám saman – jafnvel þótt það sé gremjulegt að enginn skuli geta sagt nákvæmlega hvenær! Flestir komast á fætur fljótlega jafnvel þótt þeir séu enn með nokkra verki.
  • Um það bil helmingur þeirra sem fá bakverki fá þá aftur innan tveggja ára. Það þarf þó heldur ekki að þýða að um alvarlegt vandamál sé að ræða. Milli bakverkjakasta snúa langflestir til venjulegra athafna daglegs lífs með lítil eða engin einkenni.
  • Það sem þú gerir í upphafi getur skipt sköpum. Hvíld í meira en einn eða tvo daga hjálpar sjaldnast og getur gert meira ógagn en gagn.
  • Bakið er hannað fyrir hreyfingu: Það þarfnast hreyfingar – mikillar hreyfingar. Því fyrr sem þú ferð að hreyfa þig eins og venjulega þeim mun fyrr líður þér betur í bakinu.
  • Þeim vegnar best sem eru virkir og lifa eðlilegu lífi þrátt fyrir verkina.

Orsakir bakverkja

Hryggurinn er einhver sterkasti hluti líkamans. Hann er gerður úr þykkum hryggjarliðum sem tengjast með liðþófum úr brjóski sem gefa honum styrk og sveigjanleika. Hann er styrktur með sterkum liðböndum og umkringdur stórum kraftmiklum vöðvum sem hlífa hryggnum. Flestar einfaldar baktognanir valda ekki neinum varanlegum skemmdum.

Flestir bakverkir eiga rót sína í vöðvum, liðböndum og smáliðum hryggjarins. Þessir líkamshlutar hreyfast eða vinna ekki eðlilega. Þú getur ímyndað þér að bakið þitt sé „ekki í formi“. Þú þarft því að koma bakinu aftur í form og fá það til að vinna og hreyfast eðlilega. Þetta örvar eðlislæga hæfni baksins til að jafna sig.

Hvíld eða æfingar? Gamla meðferðin við bakverkjum var hvíld. Sumir voru sendir í rúmið vegna bakverkja vikum eða jafnvel mánuðum saman til að bíða eftir að verkirnir hyrfu. Núna vitum við að rúmlega í meira en einn eða tvo daga er versta meðferð sem hugsast getur vegna þess að þegar til lengdar lætur lengir hún verkjatímabilið:

  • Beinin veikjast.
  • Vöðvarnir verða kraftminni.
  • Þú verður stirður.
  • Þrek og úthald minnkar
  • Þú verður dapur, jafnvel þunglynd(ur).
  • Verkirnir aukast.
  • Það verður erfiðara og erfiðara að koma sér í gang aftur.

Það er ekki skrýtið að þessi gamaldags meðferð skyldi ekki ganga! Rúmlega er ekki lengur ráðlögð við neinum öðrum algengum kvillum. Það er því löngu tímabært að hætta að beita hvíld og rúmlegu við bakverkjum. Það gæti þurft að draga eitthvað lítillega úr daglegum athöfnum þegar verkirnir eru slæmir. Þú gætir jafnvel neyðst til þess að vera við rúmið í byrjun. En aðeins í einn eða tvo daga. Rúmlega er ekki meðferð – hún er einfaldlega skammtíma afleiðing verkjanna. Mikilvægast er að koma sér á hreyfingu eins fljótt og maður getur.

Hreyfing er holl

Það þarf að beita líkamanum til að viðhalda heilbrigði. Líkamanum er nauðsyn að honum sé beitt. Reglubundin hreyfing:

  • Styrkir beinin.
  • Styrkir vöðvana.
  • Viðheldur sveigjanleika í líkamanum.
  • Eykur þér þrek og þol.
  • Viðheldur vellíðan.
  • Leysir úr læðingi náttúrleg efni sem draga úr verkjum.

Jafnvel þegar þér er illt í bakinu geturðu komið þér af stað án þess að það kosti mikið álag á bakið með því að:

  • Ganga.
  • Hjóla á þrekhjóli.
  • Synda.
  • Dansa, fara í jóga eða heilsuræktina.

Í rauninni stunda almennar athafnir og tómstundir. Þjálfun kemur bakinu á hreyfingu aftur með því að teygja stytta vöðva og hreyfa liðamót og hún stöðvar stirðnun í stoðkerfinu. Það veldur jafnframt álagi á hjarta og lungu þannig að þú byrjar að bæta líkamlegt þol og úthald. Það er misjafnt hvaða æfingar henta best. Prófaðu þig áfram – finndu hvað hentar baki þínu best. Takmarkið er að komast í gang og auka hreyfinguna jafnt og þétt. Auktu lítillega við þig dag frá degi. Það getur verið sárt að koma stirðum liðamótum og vöðvum í gang á ný.

Íþróttamenn þekkja að þegar þeir byrja að þjálfa verða vöðvarnir aumir. Þeir vita líka að það þýðir ekki að þeir séu að valda sjálfum sér neinum skaða. Hafðu því ekki áhyggjur þótt þjálfun valdi þér dálítlum sársauka í fyrstu – það er oftast merki um að þér sé að fara fram. Þegar þú kemst í gott líkamlegt form eiga verkirnir að minnka. Enginn heldur því fram að þjálfun sé auðveld. Verkjalyf til að byrja með og ýmis önnur meðferð getur hjálpað við að ná tökum á verkjunum þannig að þú getir hafið æfingar, en þú verður að hafa fyrir því sjálf(ur). Engar aðrar leiðir eru færar. Þú átt einfalt val; að hvíla þig og verða verri eða vinna þig út úr verkjunum og ná þér aftur. Ekki falla í þá gryfju að ímynda þér að þetta verði auðveldara eftir eina til tvær vikur eða í næsta mánuði, næsta ár. Það verður það ekki! Því lengur sem þú dregur það þeim mun erfiðara verður að koma sér í gang aftur og hreyfa sig. Því fyrr sem þú tekur aftur til við venjulegar athafnir og ferð aftur til vinnu þeim mun betra – jafnvel þótt þú sért ekki í fullkomnu formi.

Aðrar meðferðir

Fjölmargir sérfræðingar sérhæfa sig í vandamálum tengdum bakinu. Ef þú ert að glíma við langvarandi meiðsli og verki í bakinu getur verið gott að bóka tíma hjá meðferðaraðila sem getur hjálpað þér að greina vandamálið. Dæmi um meðferðir og meðferðaraðila:

  • Kírópraktorar
  • Sjúkraþjálfarar
  • Bæklunarlæknar og sérfræðingar
  • Sjúkranuddarar
  • Osteópatar

Þessi grein byggir á áður útgefnu efni frá Landlækni.

NÝLEGT