Við hér hjá H Magasín settum nýverið í loftið hlaðvarp (e. podcast) í samvinnu við Arnór Svein Aðalsteinsson sem er nú aðgengilegt á vinsælustu hlaðvarpsveitunum, einfaldlega undir nafni Arnórs; „Hlaðvarp Arnórs“.
Arnór hefur á undanförnum vikum fengið til sín skemmtilega gesti og nú síðast fékk hann til sín landsliðsmarkvörðinn Björgvin Pál í skemmtilegt og fróðlegt spjall. Þeir félagar fóru yfir víðan völl í viðtalinu en þar kemur Björgvin Páll meðal annars inn á öndun, þ.e. mikilvægi öndunar og hvernig áhugi hans á öndunaræfingum kviknaði:
„Öndun kemur fyrst inn tengt þessum andlegu veikindum, að átta mig á kvíðanum og hvernig öndunin er ekki í lagi einhvern veginn þá og þegar ég svo tek þennan kvíða pakka tengdan önduninni þá fer ég í sportið og fer að átta mig á kostum öndunar í sportinu sjálfu og svo þegar maður fer bara að kafa niður í söguna og hvað það er galið hvernig við erum að anda. Hvað við í rauninni vitum ekki neitt og ég er svolítið heilaþveginn af öndun þessa dagana en það er í rauninni bara vegna þess hversu mikil ástríða er í því fyrir mig, ég fann hvað það gerði mikið fyrir mig, út frá andlegu veikindunum og út frá hámörkun í sportinu. Og skilja bara hvernig ég fúnkera.“
Hann segir hins vegar að fólk verði að vera tilbúið að hlusta og hann hefur því lítið verið áberandi að tala um öndun almennt. Hann telur hins vegar, líkt og gerðist með umræðu um svefn, þ.e. hvernig hún jókst, að á komandi árum verði öndun það næsta sem komi til með að verða mikið í umræðunni þegar kemur að heilsu fólks almennt. Þróun sem hann tekur fagnandi.
Viðtalið í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér að neðan en það má einnig finna, eins og áður segir, á helstu hlaðvarpsveitum undir hlaðvarpi Arnórs.