Börnin sem eiga svo miklu meira og betra skilið í lífinu

Börnin sem eiga svo miklu meira og betra skilið í lífinu

Höfundur: Coach Birgir

Verum vakandi fyrir mögulegum vísbendingum um andleg veikindi barnanna okkar og gerum engar málamiðlanir um árangur og lífsgæði þeirra.

Að eignast barn er stærsta gjöf og mesta kraftaverk lífsins. Allt breytist á einni sekúndu. Upp frá sekúndunni sem þú færð barn þitt í hendurnar og verður ekkert aftur eins og það var. Upp frá þeirri sekúndu snýst allt um þarfir og hamingju barnsins og án þess að við gerum okkur grein fyrir því þá breytumst við sem einstaklingar sömuleiðis. Okkar eigin þarfir og langanir færast aftast í röðina á eftir öllu er viðkemur barninu okkar og þörfum þess.

Og allt gerist þetta án þess að við leggjum okkur sérstaklega fram við það. Það bara gerist!

Á sama tíma höfum við ákveðnar væntingar og vonir um barnið okkar. Við eiginlega gerum ráð fyrir því að barnið okkar fæðist hamingjusamt, heilbrigt og ánægt. Nema annað komi í ljós á meðgöngunni og þær fréttir eru allt annað en auðveldar. En við lifum með þeim og höldum í vonina um að þetta muni allt saman ganga upp vitandi það að við munum gera ALLT sem í okkar valdi stendur til þess að gera líf og veruleika barnsins okkar eins gott, hamingjusamt og gleðiríkt og við mögulega getum. Því allir foreldrar eru tilbúnir til þess að gefa barninu sínu ALLT og gera ALLT sem þarf, alla daga ALLTAF.

En jafnvel þótt ekkert bendi til þess að eitthvað sé að, fæðast sum börn bara alls ekkert hamingjusöm, ánægð eða glöð. Þau eru vissulega glöð og hamingjusöm inn á milli og brosa líka oft og reglulega en þau eru oftast virkilega vansæl og full vanlíðunar. Gráturinn er djúpur og það tekur langan tíma að hugga þau. Dagar og nætur líða þar sem gengið er um gólf og allt reynt til þess að færa barninu tímabundna ró og huggun.

Fyrstu ár drengsins okkar voru nákvæmlega þannig. Hann var yndislegur gleðigjafi en honum leið bara oftast ekki vel. Hann grét mikið, undi sér illa hjá flestum öðrum en foreldrum sínum og átti ofboðslega erfitt með að vera innan um ókunnuga eða í aðstæðum þar sem voru margir og/eða hávaði var mikill. Hann varð alltaf veikur í kringum afmælið sitt, jól, páska, öskudag eða aðra spennandi daga sem  börn almennt hlakka mikið til að upplifa og njóta í botn. Hann hreinlega féll inn í sig og allt varð bara of mikið. Svo mikið að bæði líkami og sál gátu ekki meira og hann örmagnaðist. Stundum í 1-2 daga, stundum talsvert lengur.

Þrátt fyrir öll þessi greinilegu einkenni um andlega vanlíðan (sjáum við og vitum í dag en vissum svo sannarlega ekki þá) leituðum við endalaust að líkamlegum skýringum og gengum lækna á milli. Í mörg ár var hann á maga- og bakflæðislyfjum en samt fannst aldrei full skýring á hans sjúkdómseinkennum og/eða hörðu líkamlegu viðbrögðum við hinu og þessu. Bakflæði og háar magasýrur voru bara talin líklegustu orsökin og við trúðum því af öllu hjarta sjálf.

Börn sem lifa við ótæmandi kærleik, ást og umhyggju alla daga alltaf geta jú ekki þjáðst af kvíða, þunglyndi eða öðrum andlegum sjúkdómum!  Eða hvað?

Það hefur tekið okkur ótrúlega langan tíma að skilja og meðtaka að þetta tvennt hefur bara ekkert með hvort annað að gera. Andleg veikindi geta fæðst með okkur alveg eins og öll önnur veikindi eða við getum orðið fyrir þeim hvenær sem er í gegnum ævina. Það er engin regla eða ákveðið samhengi sem hægt er að tengja sérstaklega saman og leita að með óyggjandi hætti.

Það er það sem gerir andleg veikindi svo erfið að tækla og finna út úr hjá krökkum. Ef við þekkjum ekki til veikindanna sjálf eða upplifum þau á eigin skinni ýmist í gegnum okkur sjálf, börnin okkar, maka eða foreldra þá er engin leið að átta sig á einkennunum sem geta verið virkilega líkamleg á köflum, né hverjar raunverulegar orsakir veikindanna og vanlíðaninnar eru hjá ungum börnum.

Drengurinn okkar er á sextánda aldursári og það hefur tekið okkur hart nær alla hans ævi að finna út úr veikindum hans og fá þá aðstoð sem hann hefur alltaf þurft á að halda. Það var ekki fyrr en hann var níu ára að við gerum okkur að fullu grein fyrir að veikindi hans voru andlegs eðlis en ekki líkamleg. Við höfðum velt því fyrir okkur í talsverðan tíma en töldum alltaf að um tímabundið ástand væri að ræða, tengt áfalli og aðstæðum í hans lífi, frekar en að þetta væri langvarandi sjúkdómur. Áfallið sem hann varð fyrir ”triggeraði” vissulega hans fyrsta stóra kvíðatímabil en það var ekki ástæðan fyrir veikindunum. Kvíðinn hafði alltaf verið þarna án þess að við áttuðum okkur á því.

Síðan þá höfum við gengið í gegnum góð tímabil, ömurleg tímabil og allt þar á milli. Því miður hafa slæmu tímabilin náð yfir alltof langt skeið og eftir á að hyggja hefði líklega verið hægt að komast hjá því ef hann hefði verið meðhöndlaður á einstaklingsmiðaðan máta en ekki sem eitt ”case” af  mörgum. Andlegir sjúkdómar og stig þeirra eru nefnilega eins mismunandi og tilfellin eru mörg og þyrfti að okkar mati að einstaklingsmiða meðferðir sjúklinganna talsvert meira.

Allir þurfa vissulega að læra að lifa með sjúkdómi sínum og fá til þess aðstoð frá sálfræðingum og geðlæknum. Sumir geta það án aðstoðar lyfja á meðan aðrir geta það ekki. Bið eftir greiningu og greiningaferlin taka langan tíma og meðan á þeim stendur er því miður lítið gert til þess að lina vanlíðan þeirra sem veikir eru.

Okkar drengur er greindur með kvíða í sinni víðustu og tærust mynd auk þess að vera einn af þeim sem vantar taugaboðefnið serótónín í heilann. Hann hefur því ekki náð að vinna sig að fullu út úr kvíðanum fyrr en nýlega er hann var settur á aukinn skammt af geðlyfinu Sertralin. Í mörg ár hefur hann verið á smáskammti af lyfinu en það dugði bara ekki til.

Í raun má segja að síðustu sex vikurnar í lífi hans séu þær bestu hingað til og er það vegna þess að loksins er hann kominn til geðlæknis sem virkilega tók málin í sínar hendur og gerði enga málamiðlun á hans rétti til þess að lifa lífinu til fullnustu. Vissulega hafa margir góðir geðlæknar og sálfræðingar lagt hönd á plóg og gert líf hans miklu, miklu  bærilegra og ríkara þegar kemur að skilningi á bæði sjúkdómi sínum og honum sjálfum sem einstaklingi. En það eru lyfin sem hafa gert gæfumuninn fyrir hann.

Þegar maður setur þetta í samhengi við þá sem glíma við líkamlega sjúkdóma þá er ótrúlegt til þess að hugsa að drengurinn okkar hafi þurft að ganga í gegnum hindranir, málamiðlanir og persónulegar fórnir allt sitt líf án þess að fá fulla aðstoð, bara vegna þess að hans sjúkdómur er andlegur en ekki líkamlegur. Og trúið mér þegar ég segi það – fórnirnar hafa verið margar án þess að hann sjálfur eða við sem foreldrar áttuðum okkar eitthvað sérstaklega á því meðan á því stóð. Svona var þetta bara hjá honum og við lifðum lífinu samkvæmt því öll sem eitt.

  • Drengurinn okkar sem elskar að hlæja og hafa það skemmtilegt með vinum sínum og fjölskyldu hefur meira og minna allt sitt líf haldið sig til hlés eða falið sig fyrir þeim sem hann innst inni vildi mest verða með eða vera í kringum.
  • Drengurinn okkar hefur látið aðra vaða yfir sig og koma illa fram við sig því að hann þorði ekki að standa upp fyrir sjálfum sér eða vekja á sér of mikla athygli með einum eða öðrum hætti.
  • Drengurinn okkar sem elskar fótbolta, dróg sig sjálfur út úr öllum æfingum og keppnum í næstum 3. ár því hann hræddist það mest af öllu að hlaupa og finna fyrir hjartanu slá hraðar. Einkennum sem hann tengdi við upphafið af hans tíðu kvíðaköstum og forðaðist að upplifa með öllum mögulegum ráðum.
  • Drengurinn okkar fór meira og minna ekki í skólann í tvö ár því hann gat það ekki. Hann þoldi ekki álagið sem fylgdi því að vera í kringum aðra og hvernig hann þurfti af öllum mætti að reyna að halda kvíðaeinkennunum í skefjum á meðan hann var í skólanum. Samt er hann einn af þeim sem elskar að vera í skólanum og allt sem því fylgir.
  • Drengurinn okkar hefur meira og minna verið einn með sjálfum sér síðastliðin 4 ár þar sem hann gat ekki verið rólegur í kringum vini sína og notið sín án kvíðaeinkenna og hræðslu við að kvíðaeinkenninn tækju yfir og vinirnir upplifðu hann ”skrítinn”.
  • Drengurinn okkar hefur brosað í gegnum tárin og þóst líða miklu betur en honum raunverulega leið nánast allt sitt líf, sem var hans leið til þess að reyna að láta okkur líða betur.

Við gætum líklega haldið endalaust áfram en þið áttið ykkur líklega á því við þessa upptalningu að við erum ekki að tala um stóru hlutina í lífinu sem gerast bara stundum. Þetta eru litlu, hefðbundnu hlutirnir sem við teljum eins eðlilega og að drekka vatn þegar allt er eins og það á að vera. Hann hefur bara aldrei getað leyft sér þá með sama hætti og aðrir.

Ástæða þess að þetta er skrifað er ekki sú að leita eftir vorkunn eða meðaumkun á hans eða okkar aðstæðum. Alls ekki því við höfum það gott og höfum líklega aldrei verið sterkari. Hvort sem er sem heild eða sem einstaklingar.

Okkur langar bara af öllu hjarta að deila reynslu okkar í von um að hún geti hjálpað öðrum í sömu sporum. Það að finna út úr andlegum veikindum getur verið virkilega erfitt og langt ferli og ótal þættir sem maður sér í ”baksýnisspeglinum” en tekur ekki eftir eða setur í samhengi í meðan á þeim stendur í ”núinu”.

Krakkar með andlega sjúkdóma þekkja ekki lífið öðruvísi en með sjúkdómum sínum og vita því ekki hvernig þau eiga að útskýra vanlíðanina eða tilfinningar sem þau upplifa. Fyrir þeim er þetta lífið eins og þau þekkja það og geta því ómögulega vitað að þannig þurfi það ekki að vera.

Á sama tíma skiljum við sem foreldrar barna með andleg veikindi heldur ekki hvernig einföldustu hlutir eins og að leika sér með vinum sínum eða fara í heimsóknir geti virkilega verið erfiðir og flóknir. Hvað þá að það sé mögulega ástæðan fyrir því að barnið líður kvalir en reynir af öllu hjarta að taka þátt – bara til þess að gleðja foreldrana sem þau elska að öllu hjarta og vilja gera allt til að gleðja og fá samþykki frá.

Aðeins reynslan getur kennt okkur að lesa í þessa hegðun og aðstæður og viðbrögð barnanna okkar við þeim. Þeirri reynslu viljum við deila með þér og þínu barni ef þið eruð í sömu aðstæðum en vitið mögulega ekki af því.

Með kærleik frá Kaupmannahöfn

Linda og Biggi

NÝLEGT