Breytingar

Ef við breytum ekki því sem ekki virkar í lífi okkar, munum við stöðugt upplifa sama dag aftur og aftur.

Við höfum líklega öll á einhverjum tímapunkti staðið frammi fyrir því að átta okkur á því að eitthvað í lífi okkar virkar ekki fyrir okkur. Þessi upplifun getur komið skyndilega eða hægt og rólega en þegar það gerist þá vöknum við upp við það að eitthvað þarf að breytast svo okkur líði vel og við séum ánægð. Margir tengja þetta við kulnun, en kulnun getum við upplifað á fleiri stöðum heldur en í vinnunni. Svarið er ekki alltaf að fækka verkefnunum, svarið getur líka legið í því að þekkja mörkin og setja mörk. Vita hvað það er sem við viljum og hvað við viljum ekki, þora að segja frá því og vera ekki hrædd við breytingar. Munum að við erum ekki tré, ef okkur líkar ekki eitthvað þá eigum við að færa okkur.

Sumt fólk hefur tilhneigingu til að bregðast fljótt við og gerir gríðarlegar breytingar áður en það í raun skilur hvert vandamálið er. Flótti er ekki alltaf besta leiðin svo það er skynsamlegra að skoða málin ofan í kjölinn og ákveða svo hvað það er sem við ætlum að gera. Rót vandamálanna er jafnvel eitthvað allt annað en við héldum í upphafi. Aðrir óttast breytingar og eru óöruggir, svo þeir búa við þá óþægilegu staðreynd að eitthvað þarf að breytast, en þeir munu líklega aldrei gera neitt í því að breyta því sem þeir eru óánægðir með. Þetta er í raun mjög algengt, við sættum okkur við hluti sem við erum ósátt við bæði af ótta við breytingarnar sjálfar og af ótta við viðbrögð annarra. Erum sífellt að tipla á tánum og sætta okkur við hluti sem við erum ekki ánægð með.  En við eigum ekki að óttast breytingar, þær geta verið góðar. Munum að þær breytingar sem við ákveðum sjálf eru bestu breytingarnar þótt þær geti verið erfiðar. Ef við horfum jákvætt á hlutina verða breytingarnar auðveldari. En milli þessara tveggja öfgafullu viðbragða liggur miðlæg leið sem getur hjálpað okkur á jákvæðan hátt í átt að breytingum á því sem ekki virkar í lífi okkar.

Fyrsta skrefið er að muna að líf okkar samanstendur af mörgum smærri hlutum sem saman mynda þá heild sem líf okkar er. Það að breyta einu litlu atriði getur jafnvel breytt öllu. Vegna þessa hafa litlar breytingar oft mikil áhrif og oft miklu meira en við höldum. Stundum er raunverulega vandamálið eitthvað annað en þú hélst í upphafi að það væri. Lítil breyting á einum stað getur þannig haft margföld áhrif á líðan á öðrum stöðum.

En stundum duga litlar breytingar ekki til, stundum eru miklu stærri breytingar nauðsynlegar, en eina leiðin til að vita þetta með vissu er að gefa sér tíma til að skilja raunverulega hvert vandamálið er. Skoðaðu líf þitt í heild sinni, vinnuna þína, samböndin þín, þá við maka, börn, fjölskyldu og vini. Horfðu á heimilið þitt, hvernig líður þér þar sem þú býrð, hver eru áhugamálin, ertu að gera nóg af því sem nærir þig, gefur þú þér nægan tíma fyrir þig án þess að vera að hugsa um aðra, setur þú þér regluleg markmið, er lífsstílinn heilbrigður, ertu í góðu sambandi við fólkið í nærumhverfinu þínu o.s.frv. Hugsaðu vel hvað það er sem virkar ekki eins og þú vilt hafa það. Þegar þú hefur áttað þig á vandamálinu skaltu skrifa það á blað.

Til dæmis:

Ég er ekki ánægð/ur í vinnunni, ég eyði ekki nægum tíma með börnunum mínum, ég gef mér ekki tíma fyrir mig sjálfa/n, ég er ekki ánægð með samband mitt við maka eða mér líkar ekki íbúðin mín o.s.frv.

Næsta skref er að reikna út aðlögunina sem þú vilt gera og hvernig þú getur gengið að því að gera þær breytingar sem þér finnst þú þurfa að gera. Ef þú ert ekki ánægðu/ur með heimilið þá er oft hægt að fara í auðveldar breytingar sem geta haft mikil áhrif, stærri aðgerð væri að flytja. Ef þú ert óánægð/ur í vinnunni, hugsaðu og skrifaðu niður hvað það er sem þú vilt breyta, kannski er lítið atriði sem getur haft mikil áhrif eða að þú hreinlega þarft að skipta um vinnu. Ef þú ert óánægð/ur með samband þitt vegna þess t.d. að þú eyðir of miklum eða ekki nógu miklum tíma með maka þínum gætirðu viljað ræða þetta vandamál við viðkomandi og komist að málamiðlun. Á hinn bóginn, ef þú áttar þig á því að samband þitt virkar ekki að svo miklu leyti að þú viljir enda það, byrjaðu þá að vinna þig í gegnum það ferli. Skrifaðu niður öll þau atriði sem þú ert ekki ánægð/ur með og greindu hvert atriði fyrir sig. Að skrifa niður sannleikann getur verið öflugur hvati til breytinga.

Lykillinn að því að gera breytingar sem virka er að byrja á því að samþykkja og viðurkenna fyrir okkur sjálfum að breytingar eru nauðsynlegur hluti af lífinu. Breytingarnar byggja á því að gera okkur grein fyrir vandanum og gera svo áætlun um hvernig við ætlum að takast á við þau verkefni sem fylgja komandi breytingum. Þegar við breytumst og þegar við gerum breytingar þurfum við oft að fínstilla okkur sjálf, sambönd okkar, lifnaðarhætti og umhverfið okkar svo eitthvað sé nefnt. Finna jafnvægi í lífi og starfi og vinna þannig að okkar eigin vellíðan.  Lífið okkar á að endurspegla hver við erum ekki hver við viljum vera. Munum að standa með okkur sjálfum, lærum að þekkja okkur sjálf og setjum mörk. Við ákveðum sjálf hvers virði við erum, algjörlega óháð því hvað öðrum finnst.

Höfundur: Lilja Björk Ketilsdóttir

NÝLEGT