Heil og sæl! Ég skal alveg viðurkenna að ég á erfitt með að vakna á morgnana og ég vil sofa eins lengi og ég mögulega get, hvort sem það er fyrir vinnuna eða skólann. Góður svefn er mikilvægur, ekki satt? Góður morgunmatur er það hins vegar líka. Uppskriftin sem ég deili með ykkur í dag er hægt að undirbúa kvöldið áður og njóta morguninn eftir en það er hinn vinsæli chia grautur. Það er mikilvægt að byrja daginn á góðum og næringarríkum morgunmat og þessi chia grautur er ríkur af bæði trefjum og prótíni. Ég mæli heldur betur með því að prófa sig áfram í chia grautsgerð – ímyndunaraflið kemst á flug! Það er aldrei að vita hvað passar saman og hvað ekki nema að maður prófi sig áfram.
Þegar ég bý til chia graut þá nota ég oftast glerkrukku en það er þægilegt að geta gripið með sér krukku af graut í nesti eða ef maður er á ferðinni. Hægt er að nota skál og plasta yfir skálina ef maður á ekki krukku.
Innihald:
- 5 msk grófir hafrar frá Himneskri Hollustu
- 3 msk chiafræ frá Himneskri Hollustu
- 2 msk kókosmjöl frá Himneskri Hollustu
- 1 msk af hörfræmjöli frá NOW (e. flaxseed meal)
- 2 dl af rísmjólk með kókos frá Isola Bio
Aðferð:
Setjið allt hráefni í skál eða krukku. Byrjið á þurrefnum og bætið svo plöntumjólkinni við í lokin. Hrærið öllu vel saman og passið að chiafræin festist ekki saman annars koma klumpar í grautinn. Ef notað er skál, skal plasta yfir hana, ef notað er glerkrukku skal loka fyrir hana. Geymið í kæli í a.m.k. 4 klukkustundir eða yfir nótt og njótið morguninn eftir með ferskum ávöxtum, fræblöndu eða bara því sem manni dettur í hug!
Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram eða bætt mér við á Snapchat en ég er undir nafninu astaeats
Þangað til næst, verið heil og sæl!
Höfundur: Asta Eats