D-vítamín og kostir þess

D-vítamín og kostir þess

Höfundur: Ragga Nagli

D-vítamín er besti vinur aðal.

Því þessi Dúlla stjórnar þróun á yfir þúsund genum í mannslíkamanum

D vítamín er samt í raun hormón.

Það myndast í húðinni við sólarljós en heldur svo áfram í lifur og nýrum.

En hið sorglega er að 70 prósent af fólki uppfyllir ekki lágmarksþörf fyrir D-vítamín.

Áhættuhópar fyrir D-vítamín skorti eru:

Eldri borgarar. Sjötugur spaði framleiðir fjórum sinnum minna D-vítamín en tvítugur tappi.

Fólk í yfirþyngd. D-vítamín er fituleysanlegt og hátt magn af líkamsfitu þýðir skert aðgengi að D-vítamíni í blóðrás.

Íbúar á norðurhjara veraldar. Fyrir okkur sem búum fyrir ofan 37° breddarbaug býr húðin til sáralítið af D-vítamíni nema rétt í júní-júlí-ágúst.

Fólk með dökkan húðlit er með hátt magn af Melatónín sem er í raun náttúruleg sólarvörn og hindrar framleiðslu á D-vítamíni úr UVB geislum sólar.

Hvaða áhrif hefur skortur á D-vítamíni á okkar andlegu og líkamlegu heilsu?

D-vítamín hefur áhrif á losun á serótónín.

Of lítið af vellíðunarhormónunum oxýtocín og serótónín flæðir um æðarnar í D-skorti. Oxýtócín losast út þegar við knúsum og föðmum annað fólk og serótónín mætir á svæðið þegar við hittum góða vini.

Serótónín er líka í bullandi stuði þegar sú gula lætur sjá sig á vormánuðum og yfir sumartímann.

Ótímabær öldrun. DNA skemmdir og hröð stytting á telomeres gerist í D-skorti og getur oft samsvarað fimm árum af líffræðilegri öldrun

Ónæmiskerfið slappast. T-frumur eru hermenn ónæmiskerfisins og D-vítamín hjálpar T-frumunum að ráðast á óæskilegar bakteríur og veirur.

Bólgur fá að grassera um skrokkinn. D-vítamín dregur nefnilega úr bólgusvörun líkamans.

Veikari bein. D-vítamín hjálpar til við að halda kalkmagni og fosfór í líkamanum svo hann geti byggt upp sterk bein.

Aukin depurð og kvíði. D-vítamín virkjar viðtaka á tryptophan (TPTH2) sem breytir tryptophan í serótónín í heilanum. Rannsóknir hafa sýnt að D-vítamín hefur dregið úr kvíðaeinkennum hjá þátttakendum og aðrar hafa sýnt að D-vítamín skortur var algengari hjá fólki með kvíða og depurð.

Hvað segja rannsóknir

Rannsóknir sýna að nægt magn D-vítamíns í skrokknum sé jafnvel verndandi þáttur fyrir einkennum Covid.

Áhugaverð rannsókn á dauðsföllum hjá 780 COVID-19 sjúklingum í Indónesíu sýndi að 98.9% sjúklinga voru með D-vítamín skort og 89 % ekki með nægilegt magn. Aðeins 4% þeirra sem voru með hátt gildi af D-vítamíni dóu úr COVID-19.

Önnur lítil rannsókn í New Orleans sýndi að 84.6% sjúklinga með COVID-19 voru á gjörgæslu borið saman við 4% sem höfðu nægilegt magn af D-dúllunni í skrokknum.

COVID-19 smit hafa verið lægri í Skandinavíu en annars staðar í Evrpópu eins og Spáni, Grikklandi og Ítalíu en skandinavískt mataræði er mjög ríkt af D-vítamíni í gegnum feitan fisk og bætiefni.

Hvaðan fáum við D vítamín

Feitum fiski eins og lax, makríl, sardínum, lúðu og bleikju.

Í gegnum egg og eggjarauður.

Að slurka mjólk úr beljum og gúlla mjólkurafurðir úr skyri, jógúrti og álíka.

Með að sleikja sólina við hvert tækifæri.

Fyrir grænkera eru sveppir ykkar haukur í horni sem og appelsínusafi.

Svo auðvitað úr belgjum í dós í formi bætiefna sem getur verið nauðsynlegt til að kýla upp magnið í æðunum.

Hvert ætti magnið að vera?

Hversu mikið þurfum við að skella í okkur til að vera í DÚNDUR stuði er einstaklingsbundið. Best er að láta mæla gildin sín og miða við að vera í kringum 40-60ng/ml.

Sumar rannsóknir hafa sýnt að 4000 alþjóðaeiningar í nokkra daga hafa nægt til að hífa einhvern úr skorti upp í ásættanlegt magn af 30ng/ml án nokkurra eitrunaráhrifa.

Lýðheilsudeild Harvard háskóla mælir með 1000-2000 alþjóðaeiningum á dag til að viðhalda góðri heilsu.

Eins og yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans sagði í viðtali ekki alls fyrir löngu, ef fólk tekur bara eitt vítamín á dag þá á það að vera D-vítamín.

Hægt er að kaupa bætiefni sem innihalda d-vítamín, til dæmis hér í H Verslun.

NÝLEGT