Ebba Guðný: Kennari, höfundur, bloggari og matarunnandi með meiru

Ebba Guðný: Kennari, höfundur, bloggari og matarunnandi með meiru

Hver er Ebba Guðný?

Ebba er glaðlynd, jákvæð, vanaföst, raunsæ, viðkvæm smá og stundum dramatísk og ímyndunarveik. Henni finnst tíma sínum best varið með börnunum sínum og eiginmanni, henni finnst mikil sóun á hitaeiningum að borða vondan mat, henni finnst gott að sofa og getur ekki horft á ljótar myndir eða lesið hræðilegar bækur. Hún er góð kona held ég, reynir allavega sitt besta.

Ebba-family

Uppáhalds matur?

Mér finnst svo margt gott .. Ég elska salatið (kaupi bara íslenskt) mitt með ólífuolíunni frá Himneskri Hollustu hrærða saman við MONKI möndlumaukið dökka og fullt af hampfræjum yfir og svolítið af þroskuðum mangó eða trönuber (þurrkuð). Oft hádegismaturinn minn. Ég elska líka spelt pítsuna okkar og spelt vöfflurnar.. og svo margt, margt fleira. Ég er mikið matargat.

Af hverju byrjaðir þú að velja lífrænt?

Af því ég vildi að maturinn minn væri hreinn (kæmi úr hreinum jarðvegi), næringarríkur og laus við eiturefni og aukaefni. Mig langar að vera heilbrigð og hraust og þá er vænlegast til árangurs að borða sem mest einfaldan og hreinan mat.

Vegetable-lasagna

Chia-med-mangó-og-hemp-ferköntud

Adorable-chia-take-away-1

Lentil-vegetable-soup

Hvað finnst þér skemmtilegast að matreiða?

Mér finnst eiginlega skemmtilegast að elda mat sem öllum finnst góður, eins og föstudagspítsan okkar sem dæmi. Alltaf svo notalegt andrúmsloft á föstudagskvöldum þegar hún er búin til og borðuð.

Hvaða vöru notar þú mest í eldhúsinu?

Ólífuolíu!! Henni er sullað á allt. Hún er líka allra meina bót, bólgueyðandi og hjálpar meltingunni; smyr, mettar og kætir bæði kroppinn og bragðlaukana.

Þú skrifaðir bókina „Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?“ Hvaða fæðu mælir þú með sem fyrsta fasta fæðan sem börnum er gefin?

Foreldrar geta valið úr ýmsu og hér er listinn 🙂 Og ef barnið þeirra byrjar að borða fyrr má samt nota 6 mánaða listann. Þetta er svo sannarlega ekki meitlað í stein, þetta er eingöngu leiðarvísir til að hjálpa foreldrum. Svo eru uppskriftir og fróðleikur í bókinni.

Ebba_mynd-vid-sp.-6

Er eitthvað sem ný bakaðir foreldrar eiga að hafa í huga þegar kemur að næringu barna?

Kaupa eingöngu hreina fæðu og æfa sig að elda frá grunni (úr henni). Smám saman verður maður flinkur í að elda nokkra holla og góða rétti sem maður getur svo róterað. Smátt og smátt er svo gott að bæta við nýjum réttu, er maður er í stuði. Það er dýrmætt að eyða tíma í eldamennskuna. Og smám verður maður sneggri og sneggri, flinkari og flinkari.

Ertu með einhver góð ráð við magakveisum hjá börnum?

Ja, nei því miður. Það getur verið illviðráðanlegt en gengur yfir. Stundum þurfa börn lyf, ef þau eru mjög slæm, mjög lengi. Það er auðvelt að ganga af göflunum við að sinna barni sem grætur endalaust. Þá þarf maður að biðja um hjálp frá þeim sem standa manni nærri (að leysa mann af við og við. Sér í lagi ef mann er farið að langa að henda barninu út um gluggann. Ekki grín.). Og miklu máli skiptir þá að foreldrar séu vinir og hjálpist að í svona aðstæðum. Þau þurfa að skiptast við að vaka þegar þarf, til að bæði fái hvíld. Það er ekki minna mikilvægt fyrir foreldrið sem er heima með barnið, að fá hvíld. Að hugsa um lítið barn og sinna öllum þess þörfum getur verið erfitt. Þá þarf líka foreldrið, sem er heima, að leggja sig um leið og barnið sefur. Draslið fer ekkert. Ég lofa því! 🙂

Mikilvægt er að leita hjálpar og ráða, sem og að anda djúpt og muna að þetta gengur yfir. Þetta getur verið mjög erfitt tímabil fyrir foreldra.

Sumir taka út til dæmis mjólkurvörur og glúten í 2 vikur og athuga hvort það skiptir máli (ef barn er á brjósti). Einnig mætti gefa acidophilus í dufti sem er sérstaklega ætlaður fyrir ungabörn (infant acidophilus). Gott er að gæta þess að barn ropi vel eftir hverja gjöf svo ekki sé að safnast loft í þörmunum. Svo er allskonar nudd og fleira kennt til að hjálpa ungbörnum að losna við loftið sem er að öllum líkindum að plaga þau og gefa þeim þessa miklu verki. Ég hef líka heyrt að kírópraktór hafi hjálpað. Mikilvægt er að leita hjálpar og ráða, sem og að anda djúpt og muna að þetta gengur yfir. Þetta getur verið mjög erfitt tímabil fyrir foreldra.

Ebba Guðný

Viltu deila með okkur þinni uppáhalds uppskrift?

Döðlukakan mín er uppáhald – hún er algjörlega mergjuð. Fljótleg, dásamlega góð og holl. Það eru ekki til betri samsetningar að mínu viti. Við elskum hana öll og ég hendi í hana mjög oft.

Byrjið á fyllingunni:

  • 250 gr döðlur frá Himneskri Hollustu
  • 1 og 1/2 -2 dl vatn eða lífrænn safi (eða bland af báðu)
  • 6 vanillustevíudropar (ef þið notuðuð bara vatn)

Setjið allt í pott og látið suðuna koma upp. Slökkvið undir, setjið lokið á pottinn og látið standa á meðan þið gerið botninn.

Botninn:

  • 120 gr kókosmjöl frá Himneskri Hollustu (malað smærra í blandara)
  • 120 gr möndlur frá Himneskri Hollustu (skolaðar vel og malaðar í blandara)
  • 30 gr kókosolía frá Himneskri Hollustu
  • 30ml vatn

Hitið ofninn í 160°C. Hakkið fyrst kókosmjölið í blandranum ykkar og setjið í skál. Hakkið svo möndlurnar og setjið í sömu skál. Bætið kókosolíunni út í, vatni og ögn af sjávarsalti. Blandið saman með fingrunum og setjið í eldfast form (22-24cm ca). Pikkið í botninn með gaffli og bakið við 160°C í um 25 mínútur eða þar til eilítið gullin. Á meðan þið bíðið er gott að mauka döðlurnar í pottinum. Setjið svo döðlumassann ofan á botninn og skreyta svo með frosnum berjum og/eða ávöxtum. Njótið með rjóma .. eða ekki 🙂

 

 

NÝLEGT