Berglind Guðmundsdóttir, eigandi matarvefsins Gulur Rauður Grænn og Salt, er næsti viðmælandi hjá okkur hér á H Magasín. Berglind er mikill matgæðingur og lífskúnstner, fjögurra barna móðir og menntuð hjúkrunarfræðingur. Á matarvefnum hennar má finna sannkallaða gullkistu af gómsætum uppskriftum sem eiga það flestar sameiginlegt að vera hollar og næringarríkar þó svo að sjálfsögðu læðist inn ein og ein spari-uppskrift, fyrir góða sukk-daga.
En hver er Berglind?
Það er nú kannski ekki auðvelt að svara því í örfáum orðum en svona fyrsta sem kemur í hugann er að ég er lífsglöð, húmóristi, prakkari, ævintýragjörn, hvatvís, óskipulögð og mikil brussa.
Hver er þinn bakgrunnur?
Ég var klárlega “late bloomer” og ein af þessum sem vissi ekki hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég strögglaði í skóla, enda með mikinn athyglisbrest sem uppgötvaðist ekki fyrr en ég var fertug. En ég var of þrjósk til að gefast upp og dröslaðist með dugnaði og þrautseigju í gegnum Verslunarskólann. Prufaði svo sálfræði, bókmenntafræði, viðskiptafræði og eflaust eitthvað fleira áður en ég rambaði á hjúkrunarfræði og kláraði hana. Var gift í 15 ár og á fjögur dásamlega vel heppnuð börn.


Segðu okkur aðeins frá hvað því́ hvað þú gerir?
Haha stundum veit ég það ekki einu sinni sjálf. En yfirleitt er dagurinn þannig að ég vakna, elda mat, tek myndir af mat, vinn myndirnar af matnum og bý til færslu á vef GRGS. Svo sýni ég stundum frá því á Instagram ásamt því að fjalla um allskonar tengt lífinu. Ég hef mjög gaman að því að spá í lífinu, hvað gerir okkur farsæl og að góðum manneskjum. Hvernig við tæklum erfiðar áskoranir, sem og þær góðu. Ég hef alltaf haft áhuga á svoleiðis pælingum. Svo koma upp allskonar skemmtileg verkefni tengd vefsíðunni. Þannig að í raun er engin vika eins.
Þú hefur verið dugleg að bjóða ævintýrin velkomin segðu okkur aðeins frá því?
Já það er nú kannski meira lífið að bjóða mér upp í dans og ég kýli á það. En allt það skemmtilegasta sem hefur gerst í mínu lífi hefur í raun ekki verið planað af mér, heldur svona gerst. Smá töfrar vil ég meina, sem ég held að við upplifum öll, en svo þurfum við að vera opin fyrir þeim.
Eins og vefurinn GulurRauðurGrænn&salt – það var aldrei eitthvað sem ég hafði hug á að taka mér fyrir hendur, heldur eitthvað sem kom til mín og ég lét verða af veruleika. Eins með þessa dásamlegu ævintýraferð mína í sumar til Sikileyar. Hún var ekki plönuð heldur kom til mín og þvílík upplifun.


Hvað getur þú ráðlagt þeim sem langar að ferðast einir?
Áður en maður fer í ferðalag, hvort sem það er einn eða með öðrum mæli ég með því að vera á góðum stað. Það er að segja að vera sáttur. Ég fer ekki í ferðalög þegar ég er ósátt eða líður illa. Ef ég fer í ferðalag og ætla að flýja mína líðan eða erfiðleika þá mun það bara elta mig uppi. Þá týnist kannski ferðataskan, hótelið er ömurlegt, fluginu frestað, veskinu stolið og þar fram eftir götunum (þetta er samt ekki vísindalega sannað heldur einfaldlega mín upplifun). Þannig að ég bíð með að plana ferðalög þar til mér líður vel og er á góðum stað. Þegar það er komið þá eru okkur allir vegir færir.
Það er mér eðlislægt að vera ein með sjálfri mér þannig að ég veit í rauninni ekki hvernig ég ætti að veita ráðleggingar um að ferðast einn. Fyrir mér er þetta bara eins og hver önnur ferð. Gott að plana sem minnst, en ég er samt alltaf búin að kortleggja góða veitingastaði, alls ekki dýra fína staði heldur meira svona veitingastaði með sál.
Ég var í 3 vikur á Sikiley og ákvað einn dvalarstað í einu og hugmyndin var að vera í 4-5 daga á hverjum stað. Svo þegar það leið undir lok að þá ákvað ég næsta stað. Oft fékk ég bara hugmyndir eða ábendingar um næsta stað frá fólki. Þannig að þetta bara gerðist. Ef fólk er hrætt við að verða einmana þá mæli ég með því að prufa að gista á hostelum. Það er ótrúlega mikið af fólki sem ferðast mikið um heiminn og gistir á hostelum og hefur margar skemmtilegar sögur að segja. Ég prufaði þetta í Taormina og það var virkilega áhugavert og gaman að upplifa. Það er í raun ekkert sem maður getur ekki gert einn. Ég fer fínt út að borða og geri mig hrikalega sæta fyrir sjálfa mig. Svo sit ég bara og virði fyrir mér fólkið á veitingastaðnum, borða góðan mat og mögulega vín með – já líklega.
Svo bókaði ég skemmtilegar ferðir eins og heimsókn á vínekrur í vínsmökkun, matarboð á bóndabæ hjá fólki sem ræktar allan sinn mat. Þar týndum við sítrónur í pastað og möndlur í möndluköku. Svo var dásamleg upplifun þegar ég leigði mér bát í einn dag, mæli svo mikið með því.
Nú eru margir að setja sér markmið í upphafi árs, settir þú þér einhver markmið?
Nei ég gerði það ekki – ekki meðvitað að minnsta kosti. Þau meira koma til mín. Ég get kannski ekki alveg útskýrt það. Ég finn að það eru breytingar í loftinu, kannski sem ég hef lagt grunn að og svo bara gerist eitthvað og ég veit ekkert hvað. En ég hef allavegana mjög góða tilfinningu fyrir 2020.


Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?
Ætli það sé ekki skilnaðurinn á sínum tíma. Líklega af því að hann snertir svo marga aðra en bara mann sjálfan. En í öllum áskorunum er lærdómur sem geta þroskað mann og gert að betri manneskju. Mér finnst gott að fara á fjöll – þau gefa manni mikið og oft svör við erfiðum spurningum.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Það er svo margt og gaman að prufa nýja hluti.
Hreyfir þú þig reglulega?
Í grunninn hef ég alltaf hreyft mig reglulega en svo koma tímabil þar sem maður dettur út. Síðasta ár var ég til dæmis alltaf að byrja.
Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?
Að vera sáttur í sjálfum sér.


Stundar þú einhverskonar útivist?
Já ég elska fjallgöngur, elska að keyra úr bænum og njóta fallegu náttúru Íslands.
Uppáhalds matur og uppáhalds skyndibiti?
Indverskur og sushi.
Ef þú ætlar virkilega að gera vel við sjálfa þig, hvað gerir þú?
Óhóflega heitt bað. Rauðvín. Góður matur. Ekki verra að hafa góðan félagsskap.
Hver eru þín helstu áhugamál? Ferðalög og matur.
Hvað þrennt áttu alltaf í ísskápnum? Egg, mjólk og ost.
Uppáhalds krydd?
Mexíkaninn sem er tacokrydd sem ég þróaði í samvinnu við Kryddhúsið og Ítalinn sem er pastakrydd. Annars eru öll kryddin frá Kryddhúsinu dásamleg og í miklum gæðum. Svo elska ég lyktina af ferskum kryddjurtum eins og basilíku og myntu. Já og ég er í hópi kóríander elskenda.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
Stundum les ég bók, stundum hangi ég í símanum.
Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?
Allt það besta gerist í náttúrunni. Ódýrasti sálfræðitíminn. Þess vegna bara fara út og láta rigninguna berja mann aðeins til. Það hreinsar hugann. Það er svo mikilvægt að örva skilningarvitin – heyra lækjarniðinn, sjá litina, finna lykt, snerta mosann og þar fram eftir götunum. Ef við erum inni alla daga að þá missum við af þessum hlutum sem glæða líf okkar.


Hver væri titill ævisögu þinnar?
A beautiful mess!
Snapchat eða Instagram?
Podcast eða bók?
Bók
Eitthvað að lokum?
Í byrjun mars er ég að fara í Lúxusferð til Verona með hóp af skemmtilegu fólki. Við flökkum um Verona, smökkum ólífuolíu, mat, vín, ís og fleira ásamt því að heimsækja Allegrini vínekrurnar og borða þar hádegisverð sem er upplifun út af fyrir sig. Ég mæli með því að fólk kynni sér þetta frekar á heimasíðu Vita.is