Íris Huld Guðmundsdóttir tók nýverið u-beygju í lífinu þegar hún sagði upp 8-17 starfinu til þess að snúa sér alfarið að þjálfun og heilsueflingu landans. Íris er á besta aldri að eigin sögn, ný orðin 40 ára en hún hefur alla tíð hugað vel að heilsunni og haft gaman af fjölbreyttri hreyfingu frá því hún var barn. Í dag er hún gift Einari Carli, einum af eigendum Primal Iceland þar sem þau hjónin starfa en þau eiga auk þess saman tvo orkubolta sem eru 6 og 7 ára.
Íris útskrifaðist árið 2005 sem íþróttafræðingur en þar til viðbótar sótti Íris sér viðbótarmenntun í markþjálfun, bæði heilsumarkþjálfun frá IIN (Institute for integrative nutrition) og stjórnendamarkþjálfun frá HR. Markþjálfunarnámið var alger „eye opener“ að hennar sögn og nýttist henni bæði í starfi sem og einkalífi.
Íris hóf að kenna og leiðbeina fólki um hreyfingu og heilsu fyrir um tveimur áratugum síðan; „Fyrir rúmum 20 árum síðan var mér kastað í djúpu laugina þegar ég kenndi minn fyrsta spinningtíma og hef ég verið með annan fótinn í líkamsrækt og námskeiðahaldi síðan þá. Hins vegar þykir mér ég vera komin hringinn, frá því að kenna High Intensity líkamsrækt yfir í að eínblína á grunninn að góðri heilsu þar sem fókusinn er á öndun, liðleika- og teygjuæfingar sem stuðla að slökun og vellíðan í stoðkerfi,“ segir Íris.
Hennar markmið undanfarin árin hefur því verið að finna leiðir fyrir fólk til þess að draga úr streitu og bæta alhliða heilsu fólks; „Líkamsrækt og heilsa hefur allaf átt hug minn allan en ekki síður var það löngunin mín til þess að draga úr hraðanum og huga að eigin heilsu sem hvatti mig til að gera áður nefndar breytingar. Streita og streitutengdir kvillar eru ein helsta heilsufarsógnin í nútíma samfélagi og verandi að kenna námskeið sem ber heitið Sigrum streituna fannst mér ekki koma annað til greina en að sýna fordæmi og setja mína heilsu í forgang,“ segir Íris.


Sigrum streituna í Primal
Íris hefur verið að kenna námskeiðis „Sigrum streituna“ í tæpt ár með afar góðum árangri og við góðan orðstír en þar auki kennir hún tvo morguntíma í svokölluðu Movement sem er aðal líkamsræktarform Primal Iceland. Að hennar mati er ekkert betra en að byrja daginn á léttu hreyfiflæði, styrk og liðleikaþjálfun.
Auk þess býður hún upp á einkatíma út frá námskeiðinu Sigrum streituna og eru slíkir tímar hugsaðir fyrir þá sem vilja persónulegri þjálfun og kynnast hugmyndafræðinni án þess að binda sig á 4 vikna námskeiði. Það fer mjög vel samhliða öðrum námskeiðum hennar en Íris er einnig með heilsumarkþjálfun Lífsmarks í húsakynnum Primal.
Æfingar, útiveran og fjölskyldulífið
Þegar kemur að æfingunum sjálfum er ekkert eitt í uppáhaldi hjá henni en fjallagöngur eru heilt yfir í uppáhaldi hjá Írisi þegar kemur að því að huga að líkama og andlegu heilsunni; „ég tel fjallgöngur næra best bæði líkama og sál. Það er fátt betra en útivera, ferskt loft og hreyfing sem er undantekningalaust stunduð í góðra vina hópi. Afar dýrmæt blanda,“ segir Íris sem einnig hefur rennt sér ófá skipti niður skíðabrekkurnar; „ég lærði að skíða þegar ég var yngri en gerði heiðarlega tilraun til þess að ganga í augun á kallinum þegar við vorum ný byrjuð saman og skellti mér með honum á bretti í skíðaferð til Ítalíu. Það voru mestu mistök sem ég hef gert enda hittumst við lítið þá vikuna þar sem ég var föst í barnabrekkunni illa marin á rassi og hnjám eftir ófáar bylturna,“ segir Íris sem hefur haldið sig við skíðin síðan þá.


Þegar kemur að fjölskyldulífinu telur Íris skemmtilegustu stundirnar með fjölskyldunni vera útilegurnar á sumrin, vera úti í náttúrunni ótengd, skrölltandi upp um hóla og hæðir með nesti í poka. Fyrir utan samveruna bendir Íris á að með slíkri útiveru sé hún að kynna fyrir börnunum heilsusamlegar venjur og skapa dýrmætar minningar. Sjálf ólst hún upp úti á landi sem hún telur hafa verið alger forréttindi þegar kom að hreyfingu; „þá var maður með árspassa í íþóttahúsinu og fékk þar af leiðandi tækifæri til þess að æfa allt sem í boði var,“ segir Íris sem, þegar aðspurð hvað hafi staðið upp úr í íþróttahúsinu, nefnir blak, sund og frjálsar íþróttir.
Heilsusamlegt líferni og stærsta áskorunin
Þegar kemur að andlegu hliðinni er það ýmislegt sem Íris nýtir sér til þess að tryggja vellíðan: „Ég huga að andlegu heilsunni með daglegum öndunaræfingum og hreyfingu. Svo má ekki vanmeta góðar vinkonur. Göngur og spjall eða símtöl á milli landa geta heldur betur gefið andlegu hliðinni gott boost. Heilsusamlegt líf í mínum augum felst í nægum svefni, hreyfingu og næringu án öfga auk vel nýttum samverustundum með fjölskyldu og vinum. Það þarf að vera gott jafnvægi í þessu,“ segir Íris.
Þegar kemur að áskorunum í hennar lífi telur hún stærstu áskorunina sem hún hefur tekist á við hafa verið umræddar breytingar á lífi og starfi;
„Ætli það hafi ekki hreinlega verið að segja upp vinnunni og yfirgefa öryggið sem fastri 9-17 vinnu fylgir til þess að elta drauma mína. Lang flestir í kring um mig hvöttu mig til dáða en auðvitað voru sumir sem töldu þetta vera pínu klikk. Ég þurfti að takast á efasemdir og ansi margar „hvað ef“ hugsanir áður en ég lét til skarar skríða.
Að gera breytingar krefst hugrekkis, sama hversu stórar breytingarnar eru en það að vera hugrakkur er ekki það sama að vera óttalaus. Það má frekar segja að hugrekki sé að stíga skrefið þrátt fyrir hræðsluna og efann. Ég leit bara svo á að þetta er það sem ég vil gera í framtíðinni og nú er það í mínum höndum að láta þetta verða að veruleika. Því ekki vil ég líta um öxl eftir 30 ár með eftirsjá og hugsa ég hefði átt að…,“ segir Íris en það rímar einmitt vel við svar hennar þegar hún er spurð hver titillinn á ævisögu hennar yrði; „Better an oops than a what if“
Skilaboð Írisar til lesenda
Þegar kemur að hreyfingu telur Íris mikilvægt að;
„No 1 finna eitthvað sem því þykir gaman, þá eru meiri líkur á því að það haldi áfram og geri líkamsræktina að lífsstíl.
No. 2. Stilla æfingaálaginu í hóf og vinna út frá líkamlegri getu hverju sinni. Ekki bara fylgja hjörðinni og láta egóið leiða. Við eigum bara einn líkama og gott er að hafa það í huga að við viljum vera að næstu áratugina. Mitt markmið er amk það að æfa skynsamlega svo ég geti flakkað um heiminn farið í fjallgöngur og skíðaferðir þegar ég verð komin á eftirlaunaaldurinn.“


Að lokum hvetur hún lesendur, sem vilja vinna bug á steitunni og gera eitthvað gott fyrir sig til þess að bæta andlega og líkamlega heilsu, til þess að kynna sér námskeiðið hennar; Sigrum streituna. Nánari upplýsingar eru að finna inni á heimasíðu Primal, www.primal.is/streita eða á samfélagsmiðlum Primal:
facebook.com/primaliceland
facebook.com/Lifsmark/
primal_iceland
lifsmark_hugurogheilsa