Search
Close this search box.
,,Ekki rífa þig niður í svaðið“

,,Ekki rífa þig niður í svaðið“

Höfundur: Ragga Nagli

Þú hefur verið óaðfinnanlegur í heilsubröltinu undanfarnar vikur. En brúðkaup um helgina setti allar fagrar fyrirætlanir á felguna og þú borðaðir þig í læsta hliðarlegu. Hnepptir frá buxunum til að ná andanum. Snittum, hnetum og snakki var sporðrennt í kílóavís og bjórglösin… uuuu… þú misstir töluna eftir ræðuna hjá Friðþjófi frænda.

Eftir öldurhúsaþræðingu sporðrenndirðu einni með öllu nema hráum, enda Satans að fara að sofa á tóman tank. Þú vaknaðir upp á mánudagsmorgni og Móri frændi setti upp tjaldbúðir í sálartetrinu.

„Af hverju gat ég ekki verið stilltur og prúður eins og kórdrengur í mat og drykk“.

„Af hverju hef ég engan viljastyrk þegar kemur að kræsingum“.

„Af hverju var ég ekki edrú“.

Byrjar að nýju með darraðardansi við hlaupabrettið, niðurrifið, sektarkenndina og sultarólina í innsta gati. Um hausinn rúlla Sjálfshótanir fyrir sukkið og skipuleggur refsiaðgerðir sem Rauðu khmerarnir hefðu ekki átt roð í.

„Ég fasta bara fram að kvöldmat“.

„Ég fer á tvær æfingar í dag“.

„Púritanalíf með gulrót og eimað vatn alla vikuna“.

Niðurrif, meinlætalíf, boð og bönn næra bara frústrasjónina og draga úr sjálfstrausti og vilja til að valhoppa heilsubrautina. Það er mun vænlegra til langtíma árangurs að vera meðvitaður um eigin breyskleika og sætta sig við að hrösun kemur fyrir allar dauðlegar verur. Setjum inn jákvæða hegðun í staðinn fyrir að refsa okkur fyrir þessa neikvæðu. Það sem þú þarft að gera í dag er að hafa reglulegar máltíðir yfir daginn. Ekki nostra við hungurpúkann og leyfa þér að verða öskrandi hungraðan.

Allar heilsusamlegar máltíðir þurfa að vera gómsætar og skora hátt á fullnægingarskalanum til að gera heilsulífið aðlaðandi og líklegt til langvarandi búsetu. Þá hendirðu þér bara með útblásna vömb og bólgna putta aftur á heilsuvagninn í hollt mataræði með engum öfgum á mánudag og jarðar allt sem heitir refsing og niðurbrjótandi hugsanir í Gufunesinu, blóm og kransar afþakkaðir.

Ef þú ert með hugann við hollustuna 90-95% af tímanum er ekkert stórkostlegt að fara að gerast í smjörsöfnun þó þú hrynjir niður í holræsið einu sinni á bláu tungli.

Munum að njóta

Naglinn

NÝLEGT