Endaðu æfinguna með stæl

Endaðu æfinguna með stæl

Til að fá sem mest út úr æfingunum þá finnst mér frábær leið að stinga inn í lokin svokölluðum „FINISHER“ æfingum. Þá nær maður að ýta sér nær þolmörkum og finna eldmóðinn og seigluna í sjálfum sér. Þá er gott að vera vel undirbúinn fyrir æfinguna og eiga til skrifaðar hjá sér nokkrar góðar „FINISHER“ æfingar til að velja úr. Þetta er gert til að geta valið þá réttu þ.e. þá æfingu sem hentar vel í lok þeirrar æfingu sem þú varst að gera.

Ég er samt varasöm og hlusta vel á líkama minn. Forsendurnar hjá mér eru því þær að ég eigi næga orku eftir, mig vanti að skora meira á mig eða að ég vilji setja punktinn yfir i-ið á æfingunni. Þetta er því frábær leið til að klára æfinguna af fullum krafti, til að ýta sér nær settum markmiðum og getur veitt manni hvatningu fyrir vikuna og næstu æfingar.

En áður en við höldum lengra, þá ætla ég að fá að kynna mig til leiks.

Ég heiti Berta Þórhalladóttir og starfa sem þjálfari hjá World Class í Mosfellsbænum. Þar kenni ég opna hópatíma, lokuð námskeið og sundleikfimi. Starfið hentar mér sérstaklega vel þar sem ég fæ að kynnast og vinna með fjölbreyttum hópi fólks, með ólíkan bakgrunn. Þá fæ ég tækifæri til að nota mitt nám og mína þekkingu til að leiðbeina fólki í átt að markmiðum sínum.

Samhliða vinnunni stunda ég fjarnám frá erlendum háskóla, BUCKS University, og vinn að M.Sc. verkefni í Jákvæðri Sálfræði með áherslu á „Coaching“. En sagan er ekki öll, þar sem ég vinn einnig hörðum höndum að því að safna mér tímum til að verða ACC vottaður markþjálfi. Það er því heldur betur nóg um að vera hjá mér þessa dagana.

Ég finn minn eldmóð í hreyfingu, sem hjálpar mér við að klára mín verkefni og ná mínum markmiðum af yfirvegun. Það er mér því dýrmætt og er ég þakklát fyrir að geta stundað reglubundna og fjölbreytta hreyfingu þar sem hreyfingin spilar stórt og mikilvægt hlutverk fyrir minn drifkraft, veitir mér ánægju og aukna orku. Með hreyfingunni næ ég að halda mér í andlegu og líkamlegu jafnvægi þegar ég er undir miklu álagi.

Ég hef gaman af flest allri hreyfingu en þessa dagana eiga ketilbjöllur og dýraflæði, eða „Animal Flow“, hug minn allan. Ásamt því að stunda skipulagða hreyfingu innanhúss þá hef ég mjög gaman af útivist. Mér finnst fátt betra en að skella mér í fjallgöngu eða göngutúra í náttúrunni til að hlaða batteríin og hreinsa hugann. Ég nota því útivist mikið til þess að þess að núllstilla mig og gefa mér andrými til þess að vera hér og nú.

En nóg um mig í bili og tökum á því saman!

Lokasprettur dagsins er sem sagt AMRAP, sem stendur fyrir „As Many Round As Possible“ eða framkvæmdu eins marga hringi og þú getur á tíma.

Þetta er æfing sem auðvelt er framkvæma heima til dæmis eftir göngu-, hlaupa- eða hjólatúr.

Tímarammi æfingar er 5 mínútur.

Framkvæmdu æfingarnar í hring eins oft og þú getur með lágmarks pásum.

AMRAP – 5 MIN

  • 10 Burpees
  • 10 Butterfly sit ups
  • 10 Blackburn mobilization

Af hverju þessar æfingar?

Burpees er góð alhliða æfing fyrir allan líkamann sem vinnur bæði í þoli og styrk.

Fiðrilda-magaæfingar (Butterfly sit ups) er kviðæfing sem eykur einnig hreyfanleika í bakvöðvum. Það sem við þurfum að passa er að halda kviðnum vel spenntum allan tímann. Iljar eiga að vera spenntar saman bæði á leiðinni upp sem og niður.

Bakfettur með handahreyfingum(blackburn mobilization) er mjóbaksæfing sem styrkir líka hreyfanleika í efri líkama. Hér er mikilvægt að spenna vel kvið, bak og rassvöðva. Munum að anda.

Ég æfi berfætt þegar ég get annars er ég að sjálfsögðu í Nike Metcon skóm þegar ég æfi!

Ef þið prófið þessa þá væri gaman að heyra frá ykkar upplifun!?

Þið megið endilega „tagga“ mig @berta.thorhalladottir á Instagram eða senda mér skilaboð!

Ég hlakka til að heyra hvernig gekk!

NÝLEGT