Search
Close this search box.
,,Endurskilgreinum hvað gerir okkur hamingjusöm“

,,Endurskilgreinum hvað gerir okkur hamingjusöm“

Höfundur: Ragga Nagli

„Jæja hvernig gengur félagi?“„Shiiittt… allt á fullu maður. Vildi að ég hefði fleiri klukkutíma í sólarhringnum.

“Dugnaðardýrkun tröllríður öllu. Allt á fullu er ógeðslega töff.

Að vera tættur og tjásaður alla daga er stöðutákn.

Það er hetjudáð að hafa hverja mínútu dagsins fullnýtta. Við viljum að aðrir tali um okkur sem dugnaðarforka.

„Vá hann er svo duglegur. Alltaf í vinnunni.“

Skilaboð samfélagsins eru að þú verðir rosa hamingjusamur ef þú hamast og puðar nógu mikið til að ná markmiðum, eignast meira og verða meira, Eignast meira dót. Þéna meiri pening.

Alltaf að stefna á að verða betri og stærri.

Vera rosa bissí, alltaf í rosa stuði samt.

Aldrei súr og sorrý.

Uppskera, uppskera, uppskera.

Gera, gera, gera.

Líta rosa vel út. Ekki bæta á sig grammi af fitu. Aldrei nokkurn tíma mistakast.

Og þegar þú hefur náð þessu öllu, þarftu að gera meira. Alltaf að slefa í átt að meira meira meira.

Við tengjum hamingju og velgengni við allskonar sem í raun færa okkur ekki bofs meira af hamingju heldur oft þvert á móti valda meiri streitu og kvíða. Vinnum yfirvinnu til að eignast meiri aur til að kaupa meira drasl. Meira af dóti sem svo endar í bílskúrnum eða í Góða hirðinum.

Ný sprautulökkuð eldhúsinnrétting. Nýr sérsniðinn pallíettukjóll fyrir árshátíðina. Nýtt 12 feta fellihýsi með galvaníseraðri grind. Nýtt fjögurra brennara Weber grill. Rafmagnsrúm með kælidýnum og þyngdarteppi. Klassísk ljósakróna eftir frægan danskan hönnuð.

Vinnum yfirvinnu til að fá stöðuhækkun, fá viðurkenningu.

Og kaldhæðni er að strögglið eftir þessum hlutum gerir okkur í raun ekki hamingjusöm.

Hamagangur eins og hamstur í hlaupahjóli til að eignast meiri pening og kaupa meira drasl gerir okkur heldur ekki hamingjusöm

Því þar af leiðandi eigum við minni tíma aflögu fyrir börnin, makann, vinina, fjölskylduna. Því þvert á móti, segja niðurstöður rannsókna að það sem gerir okkur hamingjusöm eru félagsleg tengsl og samvera með fólki af holdi og blóði í kjötheimum. Ekki pikk á lyklaborð og emojis í Messenger.

Rannsóknir sýna jafnframt að eftirfarandi hlutir gera okkur hamingjusöm:

Þéna nægilegan mikinn aur fyrir áhyggjulaust líf. Hærri innistæða hækkar ekki hamingjustuðulinn.

Gera hluti sem hafa tilgang og merkingu fyrir okkur.

Hjálpa öðrum og vera til staðar.

Leyfa öðrum að hjálpa þér.

Byggja upp traust sambönd.

Hugleiðsla og slökun.

Valhoppa úti í náttúrunni.

Fagna hversdagslegum augnablikum, og þakklæti fyrir það sem við eigum.

Hafa tíma og yfirsýn fyrir verkefnin okkar.

Upplifa hluti frekar en að sjoppa allskonar dót. Því nýjabrumið fer fljótt af veraldlegum hlutum, á meðan upplifun lifir í minningunni.

Hreyfa skrokkinn.

Fóðra líkamann með hágæðanæringu.

Njóta tíma með vinum og fjölskyldu.

Ef þú vilt hafa hamingjutunnuna þína stútfulla hefurðu tvo kosti:

1) Fylla á hana reglulega með góðum svefni, núvitundaræfingum, öndunaræfingum, öflugu félagslífi, gæðastundum, hollum og næringarríkum mat og hvíld frá amstri dagsins.

2) Láta streituvaldana sjúga tunnuna skraufþurra þar til þú lyppast niður örmagna, og neyðist til að stimpla þig útúr samfélaginu, mergsoginn af þreytu og streitu. En hey, þú átt allavega fullt af dóti til að leika þér með í veikindaleyfinu.Hvað gerir þig hamingjusama(n) ?

NÝLEGT