Search
Close this search box.
Er hægt að vera besta útgáfan af sjálfum sér?

Er hægt að vera besta útgáfan af sjálfum sér?

Hvernig er hægt að vera besta útgáfan af sjálfum sér, er það hægt?

Vertu besta útgáfan af sjálfum þér er setning sem við könnumst öll við, setning sem hefur líklega snert líf okkar flestra á einhvern hátt. En eflaust hljótum við flest að hugsa, hver er besta útgáfan af mér, hver vill ég vera. Margir setja sér reglulega markmið bæði til lengri og skemmri tíma. Mörg þessara markmiða eru hluti af því að verða betri á einn eða annan hátt. Það að verða betri manneskja er í raun verkefni sem við erum að vinna að út allt lífið, því við erum sífellt að leitast eftir að bæta okkur og okkar líðan.

Við erum alltaf að kynnast okkur sjálfum betur og átta okkur á hver við erum og hver við viljum vera. Margt sem við upplifum í lífinu hefur áhrif á þetta viðhorf svo það er eðlilegt að markmiðin okkar breytist á leiðinni, en í grunnin höldum við oftast gildunum okkar. Markmiðin geta snúið að ýmsu t.d. því að bæta svefninn, bæta mataræðið, bæta öndunina, tileinka okkur jákvæðni, auka tengsl við maka, börn, vini og fjölskyldu, sinna áhugamálunum eða finna ný áhugamál, hugleiða, vera skipulagðari, ferðast meira, læra nýtt tungumál, stunda daglega hreyfingu o.s.frv.

En hvað er það sem við viljum tileinka okkur til að verða betri manneskjur, til að verða betri útgáfa af okkur sjálfum?

Það er gott að setjast niður og fara yfir hlutina, skrifa niður og setja sér markmið út frá þessum hugsunum. Með því að skrifa hlutina niður sjáum við betur fyrir okkur hver við erum og hvert við viljum stefna. Ekki misskilja hvert ég er að fara með þetta, við erum frábær eins og við erum og eigum að hafa það hugfast, en ef við gætum aldrei gert betur þyrftum við líklega að endurhugsa hlutina aðeins. Að vera besta útgáfan er ekki uppskrift sem hægt er að fara eftir, hver og einn þarf að hugsa út frá sér sjálfum og hugleiða, hver er ég sem besta útgáfan af mér. Hvað er það sem mér finnst ég gera vel og hvað er það sem ég vil gera betur. Til að átta okkur betur á þessu þá þurfum við að þekkja okkur sjálf og þarfir okkar. Við þurfum að læra að vera í núinu, við breytum ekki því sem er gert og við ráðum ekki framtíðinni en við getum haft áhrif á það sem er að gerast einmitt núna. Munum að við höfum alltaf val og valið getur snúið að einhverju neikvæðu eða einhverju jákvæðu. Það er val að leiðast, það er val að vera neikvæður, það er val að nöldra, það er val að baktala, það er val að vera dónalegur á netinu o.s.frv. En við getum líka valið aðra hluti, hluti sem eru betri fyrir okkur sjálf og aðra í leiðinni . Við getum þannig valið að vera jákvæð, valið að vera hjálpsöm, valið að hafa jákvæð áhrif á aðra, valið að vera þakklát, valið að koma vel fram við aðra, valið að hrósa okkur og öðrum o.s.frv. Munum bara að velja vel og vanda okkur.

Það sem við nærum það vex. Þess vegna eigum við að venja okkur á að horfa jákvætt á hlutina. Við þurfum einnig að æfa okkur í að vera þakklát, finna eitthvað á hverjum degi til að vera þakklát fyrir. Þetta er æfing eins og allar aðrar æfingar og skilar sér margfalt til baka í okkar vellíðan ef við erum duglega að æfa okkur.

Staðreyndin er sú að við erum okkar versti óvinur og mjög gjörn á sjálfsgagnrýni, en það er eitthvað sem við þurfum að hætta. Hættum að rífa okkur niður og gagnrýna okkur sjálf. Við þurfum að læra að bera meiri virðingu fyrir okkur sjálfum, elska okkur, hrósa okkur og hvetja okkur áfram. Við getum ekki byggt lífið okkar eða hamingju á öðrum, þetta þarf fyrst og fremst að koma frá okkur sjálfum.

Sjálfstraustið skiptir miklu máli

Sjálfstraust hefur mikið með þetta að gera, að hafa sjálfstraust til að vera maður sjáfur með öllum kostum og göllum. Sjálfstraust til þess að hlusta á eigin tilfinningar og líðan og vera meðvitaður um sín mörk, sjálfstraust til þess að setja öðrum mörk. Sjálfstraust til þess að viðurkenna að við gerum mistök. Sjálfstraust til þess að hafa jákvæð áhrif á aðra. Áhrif hugafars okkar á heilsu og líðan er mikið. Það er bein tenging á milli þess sem við hugsum og hvernig okkur líður. Andleg heilsa má ekki gleymast, margir eru duglegir að hamast í ræktinni eða á einhverkonar æfingum og eru algjörlega meðvitaðir um hvað þeir þurfa að gera fyrir gott líkamlegt atgervi en huga ekki að andlegu heilsunni. Öll hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlegu hliðina en við þurfum líka að huga að öðrum hlutum. Þess vegna ætti hluti af okkar markmiðum að tengjast andlegu hliðinni.

Verum góð og uppbyggileg gagnvart okkur sjálfum

Stuðlum að því að gera uppbyggilega hluti fyrir okkur sjálf, gera meira af því sem nærir okkur og lætur okkur líða vel. Klöppum okkur á bakið þegar við stöndum okkur vel og verum þakklát fyrir litlu hlutina. Ekki misskilja hugtakið, það að vera besta útgáfan af sjálfri mér þýðir ekki að ég þurfi að vera glansmyndin sem ég sé á Instagram eða öðrum samfélagsmiðlum. Ég þarf ekki að elda allt frá grunni, æfa kl. 06:00 á morgnana, baka mitt eigið súrdeigsbrauð, vera með matjurtargarð á lóðinni, ganga á fjall vikulega, hjóla í vinnuna, o.s.frv. Besta útgáfan af mér getur hreinlega verið eitthvað allt annað.

Um leið og við sjálf erum á góðum stað þá getum við vissulega gefið meira af okkur til annarra. Það þýðir ekki að fara endalaust í gegnum vikurnar með hálftómt batterí og vera sífellt að reyna að finna smugu til að fá smá hleðslu á okkur sjálf hér og þar, vera í kapphlaupi við einhverja glansmynd sem gerir ekkert nema ræna okkur orku og hamingju. Gerum meira af því sem nærir okkur, lætur okkur líða vel og hleður batteríið okkar. Þegar við erum vel nærð andlega getum við gefið meira af okkur til annarra, verðum glaðari og jákvæðari. Munum að eyða ekki orku og tíma í að reyna að þóknast öðrum eða reyna að verða betri en aðrir. Til þess að okkur líði betur og við séum vel nærð þurfum við að gera meira af ánægjulegum athöfnum fyrir okkur sjálf. Það er gott ráð að skrifa niður lista yfir þær athafnir sem veita okkur ánægju og reyna eins oft og við getum að gera eitthvað á þessum lista og með því næra okkur sjálf.

Hér má sjá lista yfir fjöldann allan af ánægjulegum athöfnum

Ef ég finn hverjar mínar þarfir eru, mínar vonir og mínar væntingar og er sátt í eigin skinni í góðri samvinnu við aðra, þá er ég á góðri leið. Vertu besta útgáfan af sjálfum þér á þínum eigin forsendum í líkamlegu og andlegu jafnvægi, þú fyrir þig. Munum að við vitum best sjálf, hvað það er sem gerir okkur og lífið okkar betra. Hlustum á það sem við viljum, veitum tilfinningunum athygli og förum eftir því sem við heyrum. Umfram allt, ekki vera í kapphlaupi, ekki reyna of mikið og ekki reyna að vera einhver annar.

Höfundur: Lilja Björk Ketilsdóttir

NÝLEGT