Höfundur: Ragga Nagli
Kvíði og hræðsla við að valda öðru fólki vonbrigðum kemur oft fram í þóknunarþörf, manneskjugeðjun og fullkomnunaráráttu. Að valda öðrum vonbrigðum eru tvöföld óþægindi í sálinni því þú situr uppi með vonsviknar tilfinningar náungans á samviskunni og þínar eigin tilfinningu um að vera vond manneskja. Það er mun skárra að vera skúffaður og súr einn og sjálfur úti í horni þegar einhver annar veldur þér vonbrigðum. Við eigum nefnilega mun auðveldara með að fyrirgefa öðrum en að fyrirgefa okkur sjálfum.
Áttaðu þig á hvaðan þessi pervertíska þörf fyrir þóknun og geðjun kemur?
Er það úr æsku? Hristi mamma hausinn framan í þig og labbaði þjóstug útúr herberginu ef þú gerðir eitthvað af þér? Lýsti hún yfir að vera sár og reið og vonsvikin með þig… ekki hegðun þína… heldur ÞIG sem manneskju. Þá innrætist hjá barni „vondumanneskju“ tilfinningin. Mamma er sár og það er mér að kenna…. ERGÓ.. ..ég er vond manneskja. Þess vegna er ævinni eytt í að þóknast og geðjast náunganum til að koma í veg fyrir þessa ógeðistilfinningu úr dýpstu kimum sálarinnar að vera vond manneskja sem sker ofan í beinmerg. Við forðumst að gera og segja allskonar svo enginn verði vonsvikinn með okkur.
Ef ég bið makann um meira knús verður hann/hún/hán sár.
Ef ég mæti ekki í ræktina verður þjálfarinn vonsvikinn.
Ef ég fer ekki í læknisfræði verða mamma og pabbi skúffuð.
Ef ég segi nei við að vinna yfirvinnu verður yfirmaðurinn móðgaður.
Ef ég fer í saumaklúbb í kvöld í staðinn fyrir kósýkvöld veld ég barninu vonbrigðum.
Ef ég afþakka saumaklúbbinn verður Sigga fúl út í mig.
Þú veist ekkert hvað þú vilt. Þú veist ekkert hvað veitir þér hamingju og gerir þig hamingjusaman og sáttan í lífinu því þú slefar að gera aðra káta.
Ef þú segir NEI við hundleiðinlegum, tímafrekum verkefnum sem sjúga frá þér alla orku þá veldurðu öðrum vonbrigðum. Ef þú hugsar um eigin þarfir þá verða aðrir fyrir vonbrigðum. Mörkin okkar verða grautlin eins og Royal búðingur og hríðleka eins og gatasigti. Verð að standa mig 100% á öllum sviðum svo enginn verði fyrir vonbrigðum.
Sem maki, afkvæmi, foreldri, systkini, samstarfsfélagi, vinur, skjólstæðingur.
Mæta slavískt á slaginu í vinnuna.
Heimilið alltaf nýskúrað og púðarnir flöffaðir.
Elda mat sem veldur kúlínarískri fullnægingu matargesta.
Alltaf kjarnaður í núvitund með börnunum
Aldrei missa kúlið í rifrildum við makann.
Mæta upp á punkt og prik á æfingar.
Baka hundrað múffur fyrir fjáröflun fótboltans.
Svo enginn verði vonsvikinn. Svo allir séu glaðir. Svo þú þóknist hverri hræðu á vegi þínum. Svo öllum finnist þú vera manneskja af hæsta gæðaflokki. Þegar tilfinningar og þarfir annarra fá forgang fær sjálfið ekki að þróast á heilbrigðan hátt. Hvað gerir mig hamingjusaman? Hvað hef ég gaman af? Hvað fullnægir mínum þörfum? Þú treystir ekki eigin tilfinningum, markmiðum, löngunum og upplifunum.


Er ég að bregðast of harkalega við? Er ég dramadrottning? Er ég of heimtufrekur? Öll orkan fer í að forðast að valda öðrum vonbrigðum að eigin þarfir og langanir visna eins og kaktus í stofuglugganum. Því þarfir og langanir annarra eru settar á Saga Class en þínar eigin eru niðri í farangursrými.
Vondumanneskjutilfinningin læsir klónum í sálartetrið. Þessi tilfinning sem er órjúfanlegur hluti af sjálfsmyndinni og fékk að grassera í samskiptum okkar við foreldra og systkini Segjum frekar JÁ en NEI… bara til að þóknast og geðjast.
Til að valda ekki vonbrigðum. Til að öllum líki vel við okkur. Til að vera ekki leiðinleg. Til að vera góð og stillt og prúð og sýna náungakærleik í verki.
Þóknun og geðjun til að sendum skilaboð til sjálfsins um að okkar þarfir, langanir og þrár séu ekki eins mikilvægar og tilfinningar annarra.
Við tökum ábyrgð á tilfinningum annarra.
Við þykjumst vera sammála öllum í kringum okkur.
Við erum sífellt að afsaka okkur.
Við forðumst ágreining eins og hnerrandi mann í strætó.
Við fáum rassakláða ef einhver er fúll út í okkur.
Þú þarft að minna þig á að það er mannlegt og nauðsynlegt að tjá þínar tilfinningar, þrár og langanir og að þú venjir þig á að sitja í óþægilegu hræðslunni um að annar verði vonsvikinn. En markmiðið er að með tímanum áttarðu þig á að þú særir engan með að segja stundum nei, að enginn verður móðgaður þegar þú setur þínar langanir í forgang, að enginn grætur í koddann þó þú sért ekki með fermingarveisluveitingar í hverri heimsókn.
Þannig losnarðu smám saman við vonbrigðahræðsluna og lærir að standa betur með sjálfum þér.
Ragga Nagli