Höfundur: Ragga Nagli
Sprittaðu eyru og augu næst þegar barnlaus kornungur einkaþjálfari með sveigjanlegan vinnutíma segir þér að þú verðir að æfa í allavega einn og hálfan tíma til að ná árangri. Ef þú mætir ekki uppá punkt og prik sex sinnum í viku geturðu allt eins sleppt þessu heilsubrölti.
Þú verður að gúlla sex útmældar og vigtaðar máltíðir á dag til að halda grunnbrennslunni í botni…. Svolgrun á prótínsjeik rakleiðis eftir æfingu er bundið í landslög, annars leka vöðvarnir af grindinni strax í búningsklefanum.
Góðkunnugir frasar leka út um munnvikin: Engar afsakanir gildar. Hringdu bara í vælubílinn. Allir hafa sömu 24 tímana í sólarhringnum. Ef þú virkilega vilt það, þá býrðu til tíma. Hvað horfirðu lengi á sjónvarpið annars?
Settu upp grímu, gúmmíhanska og eyrnaskjól og haltu margra metra fjarlægð þegar þú heyrir svona ráðleggingar. Þú ert bara að gera þitt besta. Stundum er þitt besta á rokkstjörnuleveli. En oftar ertu rétt að lifa daginn af án þess að tapa glórunni.
Tómur Cheerios pakkinn á hliðinni, mjólkurpollur á gólfinu, skálarnar staflaðar í eldhúsvaskinum. Suma daga geturðu forgangsraðað hreysti og hollustu. Hysjar uppum þig Nike spandexbrók, reimar splunkunýja Brooks hlaupaskó og skundar í gymmið. Hendir þér í kalda pottinn og sánuna á eftir. Sötrar prótínsjeik með macha dufti, hörfræjum, spírúlína, hveitigrasi og haframjólk á leiðinni í vinnuna.
Aðra daga forgangsraðarðu að púsla með börnunum, fara í feluleik eftir vinnu og snýta hor. Eða barmafullri þvottakörfunni og atvinnulausri skúringarmoppunni. Eða lífsnauðsynlegum túr í Nettó til að fylla á galtóman ísskápinn eftir annasama viku.
Er hlaupabrettið kl fimm núll núll raunhæft fyrir þig og þinn lífsstíl?
Þarft þú kannski lengri svefn eftir að koma þrem börnum í rúmið?
Áttu kannski bara tuttugu mínútur aflögu seinnipartinn ef þú plantar krógunum fyrir framan Æpadinn?
Finnst þér þú eiga skilið Nóbelsverðlaunin ef þú nærð að nesta þig einni máltíð á dag?
Ert þú kannski að stunda nám með vinnu, hugsa um veikt foreldri, átt barn með námserfiðleika eða atvinnulausan maka?
Allir eiga sömu 24 tímana en ekki allir eiga sömu aðstæður. Aðlagaðu heilsusamlegar venjur að þínum aðstæðum hverju sinni. Þú þarft ekki að búa til óþarfa streitu með að troða lífi þínu með skóhorni og smurolíu í kringum ræktarferðir og nestisgerð.
Gerðu bara þitt besta… það er #nógugott