Höfundur: Sólveig K. Pálsdóttur
„Ertu búin að fara?“ er spurningin á allra vörum þessa dagana. Nú og ef spurningin er ekki á vörum fólks þá sjá dramatískar myndir á samfélagsmiðlunum um að hvísla henni að manni. Þið vitið hvað ég er að tala um – er það ekki?
Til að segja ykkur alveg eins og er frá því að fyrstu myndir fóru að birtasta af gosinu í Geldingadal var ég haldin ólýsanlegri gosöfund. Mér leið eins og allir vinir mínir á samfélagsmiðlum hafði unnið það þrekvirki að ganga yfir sprungum þakið hraunið í átt að þessu stórbrotna sjónarspili. Ég var þó ekki sannfærð um að þetta væri sniðugt. Þó svo að ég gangi af og til á fjöll og njóti útivistar þá er eitthvað við langa göngutúra yfir hraunbreiður án leiðsögumanns sem hringir hjá mér varúðarbjöllum.


Þið getið því rétt ímyndað ykkur gleði mína þegar björgunarsveitarmenn lögðu á sig í hríðarbyl að stika leiðina að gossvæðinu svo að leiðin yrði sem aðgengilegust. Ég yrði ekki sú sem myndi sitja heima á meðan dansinn dunaði á þessu balli náttúrunnar. Nú ætlaði ég sko að fara! Gosöfundin dalaði.
Áður en ég lagði í hann vildi ég þó undirbúa mig sem best og leitaði því að greinargóðri lýsingu á netinu til að skilja betur aðstæður. Ég greip þó í tómt og ákvað því að deila tímaramma mínum með þeim sem vilja berja gosið augum en eru enn hikandi við ferðalagið.


Tímarammi föstudaginn 26. Mars 2021
16:15: Komin í Grindavík og keyrðum austur Suðurstrandarveg
16:30: Komin á svæðið og við tók bílaröð. Björgunarsveitarmenn stoppuðu bíla og létu fólk fá Safe Travel miða til að merkja bílana. Þegar ég fór lagði ég neðarlega í Ísólfsskálabrekkunni en nú eru komin bílastæði og bannað að leggja á veginum. Athugið að það er því smá ganga upp að upphafi gönguleiðar.
17:00: Vorum lögð af stað inn à gönguleiðina sjálfa. Við röltum í rólegheitum. Við gengum leið A (til hægri við gatnamót á stígnum) sem er með hinum alræmda kaðal upp seinni brekkuna á þeirri leið en nú er held ég kominn kaðall upp leið B líka (til vinstri við gatnamót á stígnum). Þessi ganga var um klukkustund hjá okkur enda dól og gleði.
18:00-20:00: Röltum um svæðið, hittum fullt af fólki, tókum myndir, settumst og borðuðum nesti og nutum þess að horfa á þetta magnaða sjónarspil!
20:00: Til baka gengum við leið A en við fórum Nátthagaleiðina niður til vinstri eftir kaðalinn þar sem við þurftum að leggja bílnum okkar mjög neðarlega í brekkunni og því hentaði sú leið. Það var mjög fámennt á þeirri gönguleið og magnað að ganga í rökkrinu með mánann með sér.
21:30: Vorum við komin í bílinn og keyrðum til baka gegnum Krýsuvík þar sem umferð liggur í eina átt þennan hluta Suðurstrandarvegsins.


Búnaður
Við vorum vel klædd í góðum gönguskóm, lagskiptum göngufatnaði og með höfuðljós. Göngustafir voru með í för en þar sem jörðin var þá ekki jafn frosin og verið hefur undanfarna daga var ekki þörf á broddum líkt og nú.
Við pökkuðum góðu nesti og að sjálfsögðu var ég með sjóðandi heitt kaffi í fallega Camelbak brúsanum mínum merktan Ljósinu.
Svona í lokin verð ég þó að viðurkenna fyrir ykkur að gosöfundin er farin að láta á sér kræla að nýju. „Ertu búin að fara aftur?“ hvísla nú myndirnar á samfélagsmiðlunum og maður minn hvað mig langar!
Gangi ykkur vel, góða skemmtun og umfram allt munið að njóta ferðarinnar!
Solla


Um höfund:
Sólveig, eða Solla eins og hún er kölluð, starfar sem markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins. Solla er bjartsýn, forvitin, skapandi, orkumikil og opin manneskja. Hún er gift Viktori og saman eiga þau þrjú börn. Aðaláhugamál Sollu eru tími með fjölskyldunni, ljósmyndun, ferðalög og mannleg samskipti.
Solla er með B.Sc próf í Ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og Meistaragráðu í markaðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.