Search
Close this search box.
Eru chia fræ ofurfæða?

Eru chia fræ ofurfæða?

Hvað eru chia fræ?

Chia fræin eru sannkallaður ofurmatur sem fara sérlega vel í maga. Þau eru talin ein besta plöntu uppspretta omega-3 fitusýra sem vitað er um. Þau eru rík af andoxunarefnum og próteinum, innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, eru rík af auðmeltum trefjum og því mjög góð fyrir hægðirnar. Chia fræ eru sömuleiðis sögð geta dregið úr bólgum í meltingarvegi og fita, prótein og góðar trefjar tempra einnig blóðsykurinn. Þá innihalda þau einnig gott magn af kalki, sinki, magnesíum og járni.

Chiafræ eru endalaus uppspretta næringar og vellíðunar, finnst mér. Kannski halda einhverjir að chia fræ séu bara fyrir einhverja sérkennilega heilsufrömuði, en þau eru sko bara fyrir hvern sem er, eða alla þá sem langar að borða hollan, ljúffengan, fljótlegan og auðmeltan morgunmat. Mér líður langbest af chia fræjum í morgunmat og mér líkar svo vel áferðin á þeim þegar þau eru búin að liggja í bleyti og eru orðin að búðingi.

Hvernig er gott að nota chia fræin?

Chia fræin eru mjög bragðlítil og því upplögð út í lífrænu jógúrtina, hristinginn og út á grauta sem dæmi (þegar búið er að elda þá). Einnig er ljúffengt að búa til chiabúðinga og mjög einfalt.

Grunnuppskriftin er svona:

3 msk chia fræ.
2 dl vökvi (vatn eða lífræn möndlumjólk sem dæmi).

Blanda saman í sultukrukku eða skál og hrista/hræra við og við í um 10 mínútur eða þangað til chia fræin hafa sogið í sig allan vökvann og galdrast í búðing.
*Þynnið með vatni eða möndlumjólk ef þið viljið hafa búðinginn þynnri.

Það eru margar ljúffengar leiðir til að bragðbæta chia búðinga:  

 • Brytja niður ávexti og blanda saman við búðinginn
 • Ber eða berjamauk (sjóða frosin ber í 2 mínútur við lágan hita, stappa og setja í krukku).
 • Kanill og/eða vanilluduft
 • Hampfræ
 • Mórber
 • Goji ber
 • Ögn af kakódufti (til að búa til súkkulaðibúðing – mjög gott með banana til dæmis).
 • Kakónibbur
 • 5 dropar af vanillu- eða karamellustevíu gefur sætt og gott bragð (*stevíuglasið þarf að geyma í kæli). 

Berjamauk (gott að gera að kvöldi ef morgnarnir eru annasamir)

 • 1 dl rúmlega frosin ber
 • 1 msk vatn
 • 5 dropar vanillu- eða kókosstevía eða 1 tsk hunang (má sleppa)

Setjið berin í pott með vatninu og sjóðið rólega í litlum potti í um það bil 1 mínútu. Stappið þau svo með stappara, setjið í hreina glerkrukku með loki og geymið í kæli. Gott er að setja 1 tsk af sítrónu- eða súraldinsafa í berjamaukið svo það geymist betur (náttúrulegt rotvarnarefni). 
*Berjamaukið geymist í um 1-2 daga í kæli.

Úr bókinni Eldað með Ebbu 2

Höfundur: Ebba Guðný

NÝLEGT