Search
Close this search box.
Eru fjallgöngur góð leið til að næra líkama og sál?

Eru fjallgöngur góð leið til að næra líkama og sál?

Höfundur: Sara Björg

Þegar ég fór að nýta útivist sem mína heilsubót hafði ég fram að því ekki litið á fjallgöngur sem leið til að viðhalda heilbrigðum lífstíl heldur meira sem viðbót við tækjasalinn eða ánægjulega útiveru á fallegum sumardegi. Ég er menntaður einkaþjálfari og hafði alla tíð stundað mína reglubundnu hreyfingu innandyra, fyrst í fimleikasalnum og síðar í tækjasalnum. Hlaupabretti, styrktaræfingar og lóð voru mín leið til að hreyfa mig og þar leið mér einfaldlega vel.

Eins og ég átti eftir að komast að síðar þá eru fjallgöngur hins vegar góð leið til að næra líkama og sál enda stutt fyrir okkur að fara út í ósnortna náttúruna og fjöllin og fellin allt í kringum okkur. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á jákvæðan ávinning útiveru og hreyfingar á bæði líkamlega og andlega heilsu og því ætti útivist af því tagi sem hentar okkur, svo sannarlega að vera ofarlega í okkar daglegu rútínu.

Sara Björg á Móskarðhnúkum

En hvar á maður að byrja?

En líkt og margir, þá vissi ég ekki alveg hvar ég átti að byrja. Enginn í kringum mig stundaði fjallgöngur að ráði og ég var algjör byrjandi. Ég ólst upp í jeppaferðum á hálendinu og kem úr mikilli útivistarfjölskyldu en fjallgöngur sem slíkar voru ekki beinlínis partur af okkar útivist.
Ég hafði líka verið meðlimur í lítilli björgunarsveit á landsbyggðinni og lokið þar einstaka námskeiðum, lært að keyra stóra jeppa að vetrarlagi og farið í göngur að sumri til við bestu mögulegu aðstæðum hverju sinni. En mig langaði í eitthvað meira. Meiri fræðslu, meiri þekkingu, fleiri fjöll og hærri tinda.

Fjallgöngunámskeið:

Ég byrjaði því á því að afla mér upplýsinga á netinu og leitaði einfaldlega að fjallgöngunámskeiðum sem voru í boði.
Mörg ferðafélög bjóða upp á námskeið og gönguhópa þar sem farið er yfir grunnatriði og helstu þætti sem tengjast fjallgöngum og eru mjög byrjendavæn. Yfirleitt eru þau byggð þannig upp að gengið er í hóp undir leiðsögn, um það bil einu sinni í viku á fjöll og fell í okkar nærumhverfi. Þolið er byggt upp hægt og rólega og erfiðleikastuðullinn hækkaður í hverri göngu og því ættu flestir að geta farið á sínum hraða. Á þessum námskeiðum er jafnframt góð fræðsla þar sem farið yfir tæknileg atriði sem gott er að kunna skil á í fjallgöngum, svo sem vali á klæðnaði og búnaði, leiðarvali, öryggi á fjöllum, þjálfun og næringu.
Á slíku námskeiði steig ég mín fyrstu skref á fjöllum sem veitti mér innblástur og öryggi til að stunda markvissari fjallamennsku, læra meira og setja mér markmið. Ég skráði mig á framhaldsnámskeið og aflaði mér hægt og rólega frekari þekkingar og reynslu í öruggu umhverfi og undir leiðsögn reyndari aðila. Þegar ég var komin með góðan grunn fór ég að fara í fjallgöngur á eigin vegum og kanna fjöll og fell allt í kringum mig og útivistin orðin ómissandi partur af mínu daglega lífi.

Ef þú ert byrjandi og þig langar til að stunda fjallgöngur þá mæli ég eindregið með því að þú kynnir þér námskeið og gönguhópa hjá ferðafélögunum. Það er frábær leið til að byrja, kynnast góðum félögum og njóta útiverunnar á öruggan hátt.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun á fjöllum.

Á Fjallsjökli

Um höfundinn:

Sara Björg 32 ára gömul Suðurnesjamær og móðir tveggja stúlkna. Fædd í Reykjavík, ættuð úr Svarfaðardal og Dýrafirði en ólst upp í Keflavík og hef búið þar nánast alla ævi með smá viðkomu hér og þar á landsbyggðinni. Menntuð hjúkrunarfræðingur, einkaþjálfari, fjallaleiðsögunemandi og útivistar unnandi.

Hér má lesa skemmtilegt viðtal við söru Björg.

NÝLEGT