Ég heiti Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir og er 39 ára kraftlyftingakona. Þegar þetta er skrifað er ég gengin 31 viku og ég hef aldrei verið jafn þakklát fyrir að lyfta lóðum. Sjálf hef ég stundað kraftlyftingar í rúm átta ár undir handleiðslu Ingimundar Björgvinssonar styrktar- og kraftlyftingaþjálfara í World Class á Seltjarnarnesi.
Ég fór út í þetta sport af algjörri tilviljun en ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst íþróttinni. Var ekki beint í lélegu formi áður en ég byrjaði að lyfta en það er óhætt að segja að ég sé í mun betra formi í dag. Ég keppti fyrst í september 2012 og hef keppt á ótal mörgum kraflyftingamótum síðan.
Nú átta árum seinna hef ég sett 72 Íslandsmet og er handhafi 10 Íslandsmeta. Ég hef orðið Íslandsmeistari, bikarmeistari og norðurlandameistari. Auk þess hef ég fengið að keppa á fjölmörgum mótum erlendis, m.a. Evrópumótum og heimsmeistaramótum.


Lyftingar hafa jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu
Drifkraftur minn í kraftlyftingum kemur hins vegar ekki til vegna móta og verðlauna, heldur vegna jákvæðra áhrifa á líkamlega og andlega heilsu! Konur græða mikið á að lyfta lóðum!
Þannig hafa rannsóknir sýnt fram á lækkun á blóðsykri og slæma kólesterólinu, aukinn beinmassa, bættan svefn, minna stress og minni líkur á þunglyndi. Ein helsta ástæða þess að ég elska kraftlyftingar er sú að ég er sannfærð um að kraftlyftingar hægi á öldrun og jafnvel yngi mann upp! Einfaldasta leiðin til að skilgreina aldur er einfaldlega að telja árin en lífaldur segir ekki alla söguna.
Fyrir einhverju síðan fór ég í líkamsgreiningartæki “seca mBCA” sem mælir m.a. vöðvamassa, fitumassa, frumuleiðni og vatnsmagn í líkamanum. Í stuttu máli þá greinir hann líkamlegt ástand fólks. Niðurstöðurnar, sem voru mjög jákvæðar, glöddu mig mjög mikið og er sannfærð um að ég eigi kraftlyftingum að þakka hversu vel þær komu út. En af hverju ættu kraftlyftingar að bæta líkamlegt ástand?


Hvernig hægja kraftlyftingar á öldrun?
Með árunum missum við öll margvíslega færni, bæði líkamlega og andlega. Þannig er það t.d. ljóst að með hækkandi aldri töpum við vöðamassa og beinþéttni minnkar. Í nýlegri rannsókn frá Oxford Háskóla kemur fram að “muscle weakness “ eða vöðvarýrnun kostar um 2,5 milljónir punda á ári í Bretlandi. Vöðvarýrnun, sem er algeng hjá eldra fólki, getur leitt til fötlunar, gert fólk veikburða og aukið hættu á ótímabærum dauða.
Að auki getur vöðvarýrnun leitt til skerðingar á sjálfstæði og getu til að sinna daglegum verkefnum. Vöðvarýrnun er því stórt heilbrigðissvandamál og það er til mikils að vinna með að bæta styrk okkar.
Góðu fréttirnar eru þær að við eigum öflugt vopn sem getur hægt á öldrun. Hér er engin töfralausn á ferð, eins og gullepli Iðunnar sem veitir ásum eilífa æsku, heldur er lykillinn einfaldlega að lyfta þungum lóðum!


Kraftlyftingar eru sú íþrótt sem talin er auka vöðvamassa hvað mest. Að hægja á öldrun með kraftlyftingum eða hreinlega að lyfta þungum lóðum snýst ekki aðeins um að auka vöðvamassa heldur er annar mjög stór ávinningur; sterkari bein. Með kraftlyftingum styrkjum við beinin og minnkum líkur á beinþynningu.
Þegar við eldumst aukast líkur á því að við dettum. Með því að vinna gegn vöðvarýrnun, bæta jafnvægi og auka samhæfingu, stöðugleika og hreyfanleika, vinna kraftlyftingar gegn þeirri ógn. Hins vegar getur hver sem er lent í því að detta en ef það gerist eru minni líkur á því að sá hinn sami brotni ef beinþéttni er góð. Í ofanálag þá er líklegt að fólk sem getur “bekkað” þyngd sína geti borið fyrir sig hendur og þannig komið í veg fyrir slys.
Hræðsla við kraftlyftingar
Ég hef tekið eftir að margir hræðast þung lóð, telja þau jafnvel fara illa með líkamann. Sannleikurinn er sá að þessar æfingar geta vissulega valdið meiðslum ef þær eru framkvæmdar vitlaust. Séu þær hins vegar framkvæmdar á réttan hátt og undir handleiðslu góðs þjálfara er ekkert að óttast.
Margar konur hræðast það að verða of massaðar. Ef þú ert ein af þeim konum, hættu að spá í það. Það mun engin kona springa úr vöðvum af því einu að æfa kraftlyftingar. Hvaða massaði karlmaður sem er getur staðfest að náttúruleg vöðvauppbygging er ekki lítið mál, heldur hörkuvinna. Samt eru karlmenn með mun meiri testósterónframleiðslu en konur og eiga mun auðveladara með vöðvaupbyggingu heldur en þær. Þið sem hafið áhyggjur af því að lóðin munu gera ykkur að einhverjum Hulk getið strikað yfir þær áhyggjur med det samme!


Kraftlyftingar og sterkar sjálfstæðar konur
Sem betur fer hafa margar konur farið út fyrir þægindarammann og tekið upp þungu lóðin. Ég lyfti aðallega með konum. Konum á öllum aldri, öllum stærðum og gerðum. Þær eiga það allar sameiginlegt að lifa annasömu lífi og stunda kraftlyftingar. Ég spurði nokkrar þeirra hvers vegna þær stunda kraftlyftingar og niðurstaðan er sú að þær stunda allar kraftlyftingar til að verða betri útgáfa af þeim sjálfum, og til að efla sig og styrkja á andlegan og líkamlegan hátt. Sem sagt vera sterkar, sjálfstæðar konur sem geta tekist á við lífið á sem bestan hátt og sem allra lengst. Gefum þessum vösku konum orðið:
„Ég æfi lyftingar til að vinna með og bæta líkamlegan styrk, heilsu og andlega líðan“
„Kraftlyftingar eru ótrúlega öflugt tæki til að byggja upp styrk og vera í þrusuformi“
„Kraftlyftingar eru VALDEFLANDI“
“Í kraftlyfingum hittir sál mín og öndun líkamann”
“Ég stunda lyftingar aðallega til að viðhalda vöðvastyrk og styrkja stoðkerfið og þannig auka lífsgæði fram eftir aldri. Þessu til viðbótar vil ég meina að lyftingar styrki sjálfsmyndina þar sem það er mjög valdeflandi að geta lyft þungu. Að lokum er frábær félagsskapur og góður þjálfari það sem hjálpar til með að mæta reglulega á æfingar. “
“Ég er í kraftlyftingum vegna þess að mér hefur aldrei liðið jafn vel líkamlega og eftir að ég byrjaði í kraftlyftingum. Ég var alltaf að drepast úr vöðvabólgu og alls konar verkjum en eftir að ég byrjaði í kraftlyftingum þá er það allt saman horfið”
“Fyrir líkamlega og ekki síst andlega heilsu. Síðan ég byrjaði í kraftlyftingum er ég líka laus við bakverki og króníska vöðvabólgu með tilheyrandi höfuðverkjum. Svo er það náttúrulega svo gaman”
“Það að leggja á mig og finna að það sem ég tek verður með tímanum viðráðanlegra og það að ég geti bætt á stöngina veitir mér eiginlega bjánalega vellíðan og sjálfsöryggi. Ég er að ná óskilgreindu markmiði með því einfaldlega að taka meira, geta meira og verða sterkari. Fókus á að verða styrkari og öruggari í æfingunum og valda meiru líkamlega er mér mikill hvati og því takmarki er líklegast aldrei náð. Þannig maður verður alltaf betri en aldrei bestur (það er enginn endapunktur) og það vekur upp hungur sem maður seðjar með því að fara á æfingu!”


Niðurlag
Við getum ekki stoppað tímann en við getum svo sannarlega hægt á honum. Líkamlegur styrkur er undirstaða þess. Því betur sem við fjárfestum í líkamanum, þeim mun meira eigum við inn í gleðibankanum sem við munum öll þurfa að taka út úr á endanum. Að byggja upp styrk gerir okkur kleift að vera virk í lífinu sem svo aftur stuðlar að hamingju og vellíðan. Er það ekki það sem við öll viljum? Að mínu mati er þetta skrambi góður díll!
Höfundur: Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir