Hér kemur hún: Færslan sem ég er búin að vera að vinna að í dágóðan tíma. Mig hefur nefnilega lengi langað að segja frá minni vegferð og minni reynslu í átt að heilsusamlegra líferni og almennri vellíðan. Ég var alltaf mjög aktív sem barn og æfði m.a. handbolta, körfubolta og fótbolta en valdi að endingu að halda áfram í fótboltanum. Ég passaði líka upp á að halda foreldrum mínum vel á tánum og það þurfti helst að vera eitthvað prógram í gangi alla daga. Þetta á við mig enn í dag en mér líður lang best þegar ég er með mörg járn í eldinum og dagarnir eru fullir af allskonar áskorunum og verkefnum.
Að mínu mati er það besta sem foreldrar geta gert fyrir börnin sín er að senda þau í íþróttir ef þau hafa getu til þess því að þar læra börnin aga og að bera ábyrgð í bland við góða hreyfingu og félagsskap. Þetta var svona það helsta sem að ég fékk út úr því að vera í íþróttum og ég finn hvað þessir hlutir hjálpa mér í daglegu amstri lífsins.
Fyrir tveimur árum síðan tók ég þá ákvörðun að hætta í fótbolta. Það var mjög stór ákvörðun og á sama tíma mjög erfið þar sem ég á mínar bestu minningar frá æsku þaðan. Ég sé samt sem áður ekki eftir þeirri ákvörðun í dag enda tóku við aðrar og skemmtilegar áskoranir. Tveimur árum áður en ég hætti lenti ég í þeirri leiðinlegu lífsreynslu eins og margir íþróttamenn lenda í á sínum ferli að slíta krossband. Ég hugsa að það hafi gert útslagið með ákvörðunina um að hætta í boltanum en ég átti erfitt með að komast á gott skrið eftir meiðslin. Það er nú samt einu sinni þannig að ef ég fengi köllunina um að byrja aftur í boltanum þá myndi ég ekki hika við að slá til en á meðan neistinn er ekki til staðar þá er fótbolti ekki í mínum plönum. Áhuginn liggur á öðrum sviðum í dag og ætla ég að sinna þeim áhugamálum eins og vel og ég get.

Fram að tvítugsaldri var mataræði eitthvað sem ég spáði voða lítið í. Ég æfði mikið á þeim tíma og það hafði ekki mikil áhrif á mig hvað ég setti ofan í mig. Það var nú samt ekki þannig að ég borðaði einungis óhollt, þvert á móti var alltaf tiltölulega hollur matur heima. Ég var og er hins vegar mikill nautnaseggur þegar kemur að mat enda kannski ekki langt að sækja þar sem báðir foreldrar mínir eru lærðir matreiðslumeistarar og því hefur mikið verið lagt í allan mat á mínu heimili frá því að ég man eftir mér.
Í byrjun árs 2016 þegar ég var rétt rúmlega tvítug var eins og eitthvað hafi gerst í líkama mínum, eins og eitthvað hafi stoppað. Það er dálítið erfitt að útskýra það en það fór að hægjast á öllu í líkamskerfinu og hægt og rólega fór ég að bæta á mig þyngd, þó ekki mikilli en nóg til þess að ég tæki eftir því og líkamlega leið mér ekki vel. Þarna var ég að mæta 4-5 sinnum í ræktina í hverri viku en mig vantaði betra aðhald. Þetta var í fyrsta skipti sem að ég þurfti að bera ábyrgð á mínum eigin æfingum án þess að vera með þjálfara yfir mér. Ég var oft útþanin í maganum og hægðartregða bankaði einnig oft uppá. Ég var á þessum tímapunkti ekki farin að tengja neitt af þessum atriðum við mataræðið mitt þar sem ég taldi mig vera að borða þokkalega hollt. Ég borðaði alltaf venjulegan heimilismat á kvöldin og útbjó mér eitthvað einfalt þess á milli svo sem boozt eða eggjaköku. Þegar hægðarvandamálin voru farin að aukast var ekkert annað í stöðunni en að panta tíma hjá meltingarsérfræðingi sem ég gerði. Ég var þá send í litla speglun og einnig var tekin röntgenmynd af maganum mínum. Niðurstöðurnar voru kannski ekki eins sláandi og ég hafði búist við miðað við hvernig mér hafði liðið en ég var þó með bólgur í meltingarveginum ásamt því að vera örlítið stífluð í ristlinum. Stíflan gerði það að verkum að ég var nánast alltaf útþanin eftir hverja máltíð. Mér var ráðlagt að byrja að taka inn góða meltingagerla ásamt því að breyta aðeins til í mataræðinu. Auk þess var mér bent á að hætta allri neyslu á viðbótar próteini en ég hafði verið að taka inn próteinduft með hafragrautnum á morgnanna. Ég tók leiðbeiningum eins vel og ég gat og fór að pæla betur í hvað ég væri að setja ofan í mig. Ég fór að hlusta betur á líkamann og reyndi eftir fremsta megni að passa skammtastærðir ásamt því að borða hægar og hætta að borða þegar ég væri orðin södd. Svona gekk þetta fram að sumri en ég var samt sem áður ennþá að finna fyrir uppþembu í maganum.
Á þessum tímapunkti var ég að fara inn í fyrsta sumarið síðan ég man eftir mér ekki í fótbolta. Ég skráði mig í fjarþjálfunarprógram sem ég fylgdi eftir að einhverju leyti en stærsta breytingin sem ég upplifði með æfingarprógramið tengdist mataræði. Ég fór í fyrsta skiptið að telja macros (orkuefnaskipting) og fór að borða máltíðir eftir því hversu mikið prótein, kolvetni og fitu ég þurfti yfir daginn. Ég fór eftir ákveðinni formúlu sem búið var að reikna út miðað við gefnar forsendur um mig og mín markmið. Fyrstu vikuna taldi ég hitaeiningar í gegnum app sem heitir My Fitness Pal en eftir stuttan tíma taldi ég mig vita gróflega hversu margar hitaeiningar ég var að innbyrða dag hvern og hætti því að telja. Forgangurinn var ekki gæðin á hráefninu sem ég innbyrti heldur skipti meira máli að maturinn passaði inní fyrirfram reiknuðu formúluna. Einnig svo framalega sem ég var ekki að borða meira en ég brenndi yfir daginn. Viti menn, ég var fljótlega farin að sjá ,,árangur“ og á um það bil hálfu ári var ég búin að missa 12 kg. Fyrir manneskju í kjörþyngd þá er engin ástæða til þess að missa 12 kg en það var voða lítið sem gat stoppað mig á þessum tíma. Markmiðin voru skýr: mæta í ræktina 6-7 sinnum í viku, brenna 600-800 kaloríum og borða fæði þar sem prótein væru í aðalhlutverki. Mataræðið einkenndist því mikið af kjúklingabringum, sætum kartöflum, eggjakökum einungis með eggjahvítunum, próteinríkum hafragrautum og próteindrykkjum.
Svona hélst þetta alveg fram í lok árs 2016 og að þeim tíma var maginn búinn að vera í þokkalegu jafnvægi. Mér leið betur, var léttari á mér, að vísu búin að léttast aðeins meira en ég ætlaði mér en mér fannst ég líta betur út. Það var samt eitthvað sem vantaði. Ég var ekki komin í það jafnvægi sem ég vildi vera í og var farin að finna fyrir sífelldri pressu frá sjálfri mér að viðhalda þeirri þyngd sem ég var komin í. Mig langaði að breyta til og í desember sama ár var ég byrjuð að prófa mig aðeins áfram í áttina að Vegan mataræði. Hreindýrið sem ég hafði alltaf borðað á aðfangadag var ekki á mínum matseðli heldur var útbúin hnetusteik fyrir mig sem ég var mjög spennt fyrir. Mér fannst það lítið sem ekkert mál að sneiða fram hjá kjöti þessi jólin.

Svo kom nýtt ár, árið 2017, stórmerkilegt ár fyrir margar sakir en aðallega vegna kvöldstundar í febrúar þegar Helga Kristín vinkona mín bauð mér í mat. Þetta kann að hljóma mjög ýkt en eftir þetta kvöld fór ég heim til mín og ákvað að gera mjög svo róttækar breytingar á mínum matarvenjum. Það var nefnilega þannig að þetta kvöld var í fyrsta skipti sem ég heyrði af svokölluðu ,,Plant Based Diet“ en það mataræði byggist aðallega á grænmeti, ávöxtum, hnetum, fræjum, baunum, heilu korni og allri olíu er haldið í lágmarki. Þarna var Helga búin að vera á mataræðinu í um þrjá mánuði en hún fylgdi plani sem maður að nafni Rip Esselstyn stendur á bakvið. Esselstyn, sem er frá Ohio ríki í Bandaríkjunum er höfundur kvikmyndarinnar „Forks Over Knives“ ásamt því að vera rithöfundur og er hann þekktastur fyrir bók sína ,,Engine 2 Diet”. Helga sagði mér frá öllu varðandi mataræðið og af hverju hún breytti yfir á ,,Plant Based” mataræði yfir í hvað hún væri að borða dags daglega. Það er eiginlega ekki hægt að orða þetta öðruvísi en að ég varð fyrir svokallaðri hugljómun, hún seldi mér þetta gjörsamlega! Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að ,,googla” og afla mér upplýsingar um hvers vegna þetta væri gott fyrir mig o.s.frv. Ég ákvað á þessu eina kvöldi að mér væri ekki lengur sama um hvað ég setti ofan í mig og var staðráðin í því að velja það besta fyrir líkamann minn. Ég ákvað að fara eftir þessu mataræði í einu og öllu og neyta engra dýraafurða.
Ég hafði prófað margt, óteljandi nammibindindi, hætta að borða brauð, minnka kolvetni. Nefndu það og ég hafði prófað það. Vikurnar eftir fóru mikið í alls kyns tilraunir í eldhúsinu. Ég las mér einnig mikið til af upplýsingum á netinu og studdist mikið við heimasíðu Rip Esselstyn en linkur af síðunni með allskonar gagnlegum upplýsingum má finna hér . Þá horfði ég á þó nokkuð margar heimildamyndir sem ýtti ennþá meira undir áhugann á nýja mataræðinu. Eftir fyrstu vikuna fékk ég foreldra mína til þess að prófa með mér eina viku á ,,Plant Based” mataræði. Satt best að segja gerði ég engar kröfur til þeirra um að þau gætu staðið af sér heila viku á plöntufæði. Þau sem eru bæði kokkar með mikla reynslu í matargerð á allt öðrum sviðum en þeim sem tengdust þessu nýja fæði. Það er gaman að segja frá því að í dag rúmum átta mánuðum síðar erum ég og mamma vegan og pabbi grænmetisæta en hann fær sér stöku sinnum egg og ost. Ég hefði aldrei trúað því að þau myndu svo gott sem breyta sínum mataræði og þar með lífstíl með mér og það hefur gert þetta allt svo miklu auðveldara. Ég gæti ekki verið stoltari af þeim. Við reynum að fylgja þessu svokallaða ,,Plant Based” mataræði alla daga en við erum jú mannleg og stundum finnst okkur líka gott að elda okkur eitthvað í aðeins óhollari kantinum.
Þetta er stanslaus vinna frá morgni til kvölds sem krefst mikils skipulags og sjálfsaga. Fyrir einu og hálfu ári kunni ég rétt svo að sjóða mér egg og rista mér brauðsneið en í dag er ég farin að elda flókna jafnt sem einfalda rétti. Ég nýt þess að elda mér mat frá grunni með fersku hráefni en bara svo það sé á hreinu að þá verður enginn góður kokkur á einum degi. Það að elda góðan mat krefst æfingar og því duglegri sem maður er að prófa sig áfram með allskonar hráefni því betri verður maður. Það er ekki flóknara en það.
Með þessum skrifum mínum er ég ekki að segja að vegan eða ,,Plant Based” mataræði sé það eina sem virkar og að allt annað sé vont fyrir mann, þvert á móti. Ég er hér að segja frá minni reynslu í átt að breyttu mataræði og á sama tíma betri andlegrar heilsu. Ég borða mat sem lætur mér líða vel og borða þar til ég er södd og sæl. Það tók mig tvö ár að finna það jafnvægi sem ég tel mig vera búin að ná í dag bæði næringarlega séð og ekki síst andlega. Ég komst nefninlega að því þegar ég fór að finna fyrir mínum óþægindum um tvítugt hvað það hafði mikil áhrif á andlegu heilsuna. Þegar hlutir sem manni finnst sjálfsagt að eigi að vera í lagi eru það ekki þá líður manni ekki vel. Þegar kemur að hreyfingu þá reyni ég að stunda fjölbreytta líkamsrækt svo sem útihlaup, göngutúra, spinning, tabata, hjólatúra o.s.frv. Ég hreyfi mig í dag afþví að það lætur mér líða vel og mér finnst ég vera minna upptekin af vigtinni en áður. Flækjum ekki hlutina og munum að setja heilsuna okkar í fyrsta sæti alltaf.
Takk kærlega fyrir að lesa. Ef það vakna einhverjar spurningar hvort sem það tengist mataræði eða öðru þá væri gaman að heyra frá ykkur í gegnum facebook , instagram eða senda mér póst á netfangið sigrunbirta5@gmail.com
Höfundur: Sigrún Birta